fbpx

PALLURINN // FYRIR & EFTIR

GarðurinnPersónulegtSamstarf

Undanfarnar vikur höfum við fengið að njóta svo mikillar veðurblíðu að það er ekki annað hægt en að vera utandyra sem mest. Þá var aldeilis tilvalið að taka pallinn okkar í gegn sem þurfti mikið á smá ást að halda, pallurinn er feiknastór sem ég áttaði mig ekkert endilega á fyrr en búið var að hreinsa hann og bera á olíu með ljósgráum lit.

Ég hafði samband við Árnýju vinkonu mína í Sérefni varðandi samstarf og hún var aldeilis til í þetta verkefni og kemur allt efni sem notað var á pallinn frá Sérefni. Ég skoðaði alla litina sem í boði voru og heillaðist mest af Solbjerg og Ejlinge frá Nordsjö sem sjá má báða hér neðar í færslunni. En fyrsta verkið var að sjálfsögðu að þrífa pallinn með pallahreinsi og vatni – og vá þvílíkur munur.

– Pallurinn FYRIR –

Hér er eftir að hreinsa viðinn og hann var mjög ósjarmerandi verð ég að viðurkenna…

Ekki láta blekkjast – hér undir er ekki heitur pottur eins og margir halda, né sandkassi eins og ég hélt að myndi fylgja með húsinu eftir að við keyptum síðasta haust haha. Heldur má finna hér undir lokinu fiskikar sem hægt er að láta renna í með slöngu á góðviðrisdögum! Brilliant hugmynd þegar það er ekki peningur á lausu fyrir heitum potti!

Hér sjáið þið litina sem ég hreifst mest af Solbjerg og Ejlinge og þarna undir sést í brot af litaúrvalinu sem í boði er á palla – gulur, rauður, grænn og blár? Upphaflegt plan var Solbjerg en eftir fyrstu umferð kom í ljós að hann var aðeins of kaldur fyrir þetta gamla gulnaða timbur sem er í pallinum og því var umferð tvö tekin með Ejlinge sem er örlítið hlýrri.

Hér að ofan er búið að hreinsa allan pallinn og viðurinn orðinn tandurhreinn og tilbúinn undir fyrstu umferð.

Hér að ofan er búið að bera á tvær umferðir og pallurinn kominn með þennan fína ljósgráa “skandinavíska” lit.

Ebbi nágranni hjálpar til – en við deilum pallinum með nágrönnum okkar sem við duttum í lukkupottinn með. Það er því alltaf líf og fjör á pallinum. Grái liturinn sem sést þar sem er nýmálað er þarna eftir að dofna töluvert en þar sem þetta er olía með lit þá er liturinn ekki þekjandi heldur gefur fallegan tón.

Og duglegi Andrés minn, núna þegar búið er að bera á 90% af pallinum var okkar næsta verk að setja skýli utan um rustatunnurnar sem annars stóðu alltaf eins og illa gerðir hlutir á pallinum. Eitt það ljótasta sem ég veit um eru ruslatunnur fyrir utan hús sem ekki eru faldar á einhvern hátt… en það er bara mín skoðun. Það er erfitt að hafa fallega aðkomu að heimilinu þegar ruslatunnur leika stórt hlutverk.

Næst þá förum við vonandi í að laga aðkomuna enn meira en stéttin og tröppurnar eru mjög illa farnar og þarf að laga. Viljið þið vita hvað er svo næst á listanum? haha – það er langur listi af verkum sem þarf að ganga í en við erum einnig að fara að skipta um glugga og hurðar í húsinu ásamt nágrönnum, hreinsa alla málningu af húsinu og mála eftir að búið er að gera við sprungur í öllum útveggjum hússins. Það er sko líf og fjör hér og enginn þarf að hafa áhyggjur að okkur leiðist nokkuð á næstunni. Húsið lítur þessa stundina út eins og það hafi lent í jarðskjálfta en það mun einn daginn verða hið glæsilegasta.

Ég keypti útiborð í síðustu viku sem hefur komið sér vel, en eins og sjá má þá á algjörlega eftir að kaupa útistóla:) Einnig taka glöggir mögulega eftir að það á eftir að olíubera efstu spítuna, en það á að skipta um hana og einnig á eftir að klæða pallinn sem snýr út að götu með timbri og bera á og verður þetta því klárað síðar. (Einnig eftir að bera á lokið sem Betúel stendur við:)

Hortensíur og blómapottur eru frá Garðheimum

Mikið ótrúlega er ég ánægð með pallinn okkar og akkúrat þetta sjónarhorn, ef myndavélinni væri beint í öfuga átt gætuð þið séð allt sem enn á eftir að gera en mikið verður huggulegt þegar allt er tilbúið – ef ég bara vissi hvenær það væri (!)

Takk fyrir að lesa og kærar þakkir til Sérefnis fyrir að taka þátt í þessu verkefni með okkur ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

BLÓMADÝRÐ Í INNFLUTNINGSPARTÝ MORRA Í HÖNNUNARSAFNI ÍSLANDS

Skrifa Innlegg