Þá eru 10 dagar búnir af árinu og ég get ekki sagt annað en að þeir hafi verið mjög viðburðarríkir hjá mér. Við komum heim frá London um helgina og það sem það var gott að byrja árið á smá ferðalagi og mögulega smá búðarrápi þó svo að þetta hafi ekki beint verið verslunarferð. Eitt af mörgum markmiðum sem ég setti mér fyrir árið var þó að kaupa minna og kaupa betra en það stoppaði mig þó ekki að kíkja við í H&M Home og næla mér í nokkra hluti fyrir heimilið sem ég ætla að sýna ykkur í vikunni. Eftir að ég kom heim beið mín þó haugur af verkefnum sem ég er enn að grafa mig í gegnum en í vikunni fer allt aftur á fullt hér á blogginu eftir dálitla blogglægð af persónulegum ástæðum. Það sem er þó helst að frétta er að ég skráði mig í lok síðasta árs í námið sem ég var búin að segja ykkur frá, sjá hér, og er því að byrja í því núna í janúar og mikið sem ég er spennt fyrir að fá þetta nýja verkefni í hendurnar, það er varla til betri leið að byrja nýtt ár en að prófa eitthvað glænýtt og brjóta aðeins upp hversdagsleikann. Ég eignaðist einnig á dögunum draumadagbókina mína frá Munum Dagbók og það sem ég held að ég muni komast yfir mörg verkefni með þessa dásemd í farteskinu, sýni ykkur hana betur í vikunni!
Þar sem að ég er að blaðra um nýja námið mitt er tilvalið að láta fljóta með myndir af fallegri skrifstofu stíliseraðri af vinkonu minni henni Pellu Hedeby fyrir Ikea livet Hemma, en ég þarf svo sannarlega að taka vinnustofuna mína aðeins í gegn til að geta komið mér vel fyrir þar með skólaverkefnin. Skrifborðið mitt er nefnilega inni í barnaherberginu og hefur það undanfarna mánuði aðeins týnt tilgangi sínum og er í þessum skrifuðu orðum á kafi í barnafötum:)
Pella er alveg meðetta þegar kemur af smart uppstillingum og fallegu litavali.
Hér að neðan eru einnig myndir stíliseraðar af Pellu Hedeby fyrir Ikea livet hemma síðuna, ekki beint skrifstofutengt en þó féll ég alveg fyrir myndaveggnum á bakvið eldhúsborðið. Það er alltaf góð hugmynd að hafa einhverskonar innblástursvegg í vinnurýminu okkar og fylla hann þá af myndum og setningum sem gefa okkur innblástur, gleði eða hugmyndir og um að gera að breyta uppsetningunni á myndunum reglulega til að fá sem mestu úr því.
Myndir: Ikea livet hemma / Stílisti: Pella Hedeby
Þessar myndir veita mér svo sannarlega innblástur, núna er það bara að finna tímann til að koma öllum hugmyndunum mínum í verk. Ég vona að þetta nýja ár sé að leggjast vel í ykkur og að þið hafið eitthvað til að hlakka til á komandi mánuðum!
Skrifa Innlegg