Ég vildi bara henda inn nokkrum línum svona rétt fyrir svefninn. Eftir að Bjartur fór á fullt skrið þá hefur það orðið erfiðara með hverjum deginum að sinna blogginu í fæðingar”orlofinu”, ég veit svosem ekki hvaða vitleysingur ákvað að kalla þetta orlof en þetta er svo sannarlega ekkert orlof eftir að barnið fer að hreyfa sig. Ég hef reyndar líka verið í vinnu frá fyrsta degi og núna er eini sénsinn að vinna til miðnættis eftir að allir eru farnir að sofa til að koma einhverju í verk. Eitt sem mér datt þó í hug til að auðvelda mér lífið var að birta hreinlega fleiri myndir héðan heima, I know… hversu oft hef ég skrifað þetta, en það gæti sparað mér tíma í netvafri í leit af efni. Eini mínusinn er að þá þarf ég að taka oftar til;)
Núna eru komnir 9 mánuðir með stuðboltanum mínum, og það er svo oft sem mig langar til að skrifa eitthvað hingað inn um mömmulífið en oftar en ekki strokað færslurnar út og hætt við. Finnst ég ekki hafa nógu gott efni til að skrifa um, ekki misskilja -mér finnst Bjartur það besta sem ég á, en ég er nefnilega ekki týpan sem er með allt mitt á hreinu og get því í rauninni ekki gefið mörg ráð hvernig eigi að gera hlutina. Ég hélt einhvernvegin að þessir eiginleikar kæmu bara með barninu, að loksins yrði ég með mitt á hreinu en ónei það fer frekar í hina áttina. Það gerast nefnilega ótrúlegustu hlutir fyrir heilann þegar maður fær ekki óslitinn nætursvefn í 9 mánuði.
Suma daga væri ég alveg til í að lesa reynslusögur frá mömmum sem eru ekki með allt sitt á hreinu… þeim sem stofnuðu ekki fyrirtæki í orlofinu sínu, þeim sem misstu helminginn af hárinu sínu og þeim sem þyngdust með brjóstagjöfinni, æj þið fattið;) Mér leiðist nefnilega oft að lesa sykurhúðaðar sögur af mömmum sem fljúga á bleiku skýi í orlofinu sínu og meðgöngu og þar sem allt er svo dásamlegt. Ég mun að minnsta kosti hætta að lesa fréttamiðla ef ég les enn eina söguna um mömmuna sem stofnaði fyrirtæki í fæðingarorlofinu haha:)
Jæja þetta röfl er komið gott, ég er búin að stroka svo oft út úr textanum og skrifa upp á nýtt. Það er s.s. ekki tímasparnaður fyrir mig að skrifa mjög persónulegt komst ég að. Læt nokkrar myndir fylgja af þessu óstöðvandi hressa barni mínu sem gerir lífið svo skemmtilegt.
Eigið góða nótt! Myndir via Instagram @svana_
Skrifa Innlegg