fbpx

HULDA KATARÍNA X RAKEL TOMAS

Íslensk hönnunListMæli með

Hulda Katarína er 26 ára gömul og stundar nám við Keramikbraut Myndlistaskóla Reykjavíkur. ⁠Hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir postulínsskálar sem eru í laginu eins og bláskeljar og opnaði á dögunum sýninguna Andlit ásamt myndlistakonunni Rakel Tomas, sýningin er opin til 24. september á Grettisgötu 3.

En af hverju valdi Hulda leirinn til að miðla listsköpun sinni?

“Það er bara eitthvað svo magnað að vinna með efni sem er upprunalega úr náttúrunni. Leirinn er svo óútreiknanlegur og lifandi efni og þú veist aldrei nákvæmlega hvernig loka útkoman verður. Það er þessi óvissa sem heillar mig. Þó svo að þú gerir allt nákvæmlega eftir bókinni, þá veist þú aldrei hvað er að fara taka á móti þér þegar þú opnar brennsluofninn.  Það er það sem er svo spennandi er líka ferlið á bakvið keramikið sem er svo margslúngið og margþætt. Það er bara heppni ef þú færð þrjá heila hluti og þrjá hluti sem hafa sprungið í brennslunni, svo maður þarf að venjast því að það eru alltaf einhver afföll í þessu sporti. “

Hulda er sínu öðru ári við Myndlistaskólann í Reykjavík og segir námið mjög fjölbreytt.

“Þó svo að ég sé að læra á einn ákveðinn miðil þá er maður líka að læra margt fleira eins og efnafræði, jarðfræði og ákveðna viðskiptafræði. Þetta er allt svo mikilvægur grunnur fyrir fólk þegar það klárar nám og þarf að standa á eigin fótum sem listamenn. Svo eru kennararnir líka svo frábærir og miklir reynsluboltar að það eru ákveðin forréttindi að fá að læra af slíku fagfólki.”

En það var einmitt í skólanum sem postulínsskálarnar urðu til. Innblásturinn á bak við skálarnar var hafið og allt það fallega sem það hýsir og skapar. 

“Í sannleika sagt þá fannst mér verkefnið  ekkert spennandi og ég var mjög fegin eftir lokakynninguna að vera laus við það að eilífu – að ég hélt. Svo kom covid og ég missti þá vinnu prósentu sem mér hafi verið lofað um komandi sumar og var í kaffi hjá góðri vinkonu, þar sem við ræddum hvað ég gæti nú gert til að eiga í mig og á þetta sumarið. Þá var ég nýbúin að gefa annarri vinkonu minni póstulínsskál í þrítugsafmælisgjöf. Hún hafði sett það á instagram story og ,,taggað’’ mig. Áður en ég vissi af var inboxið mitt fullt af skilaboðum þar sem fólk vildi kaupa skál af mér. Svo ég sló til, kom upp aðstöðu inn í svefnherbergi hjá mér og bjó til skeljar í allt sumar sem gekk bara ótrúlega vel!”

Nýjasta verkefni Huldu er samstarfsverkefni með myndlistakonunni Rakel Tomas, en þær opnuðu sýninguna Andlit á dögunum sem er opin á Grettisgötu 3. 

“Samstarfið kom til eitt kvöld í sumar þar sem við hittumst með sameiginlegum vinum á bar, eins og nokkrum sinnum áður. Ég vissi hver Rakel var og við áttum marga sameiginlega vini. Við fórum að spjalla um listina og lífið. Upp úr þessu listamannaspjalli (og nokkrum rauðvínsglösum) spratt upp þessi fullkomlega lógíska hugmynd: auðvitað ættum við að vinna eitthvað saman. “

Þær slóu til og úr varð samstarfsverkefni sem inniheldur vasa sem Hulda mótar og Rakel málar á, ásamt skúlptúrum sem hægt er að nota sem kertastjaka. Skúlptúrarnir vísa í form sem finnast í málverkum Rakelar sem eru einnig hluti af sýningunni.

Ferlið er Huldu hugleikið en það sem fólk veit oft ekki er hversu gríðarlega tímafrekt það er að búa til hlut alveg frá grunni.

“Í samstarfi okkar Rakelar var augljóst frá byrjun að tíminn var ekki mikill og að hann var líka svoldið öðruvísi sökum heimsfaraldurs. Við áttum líka gott spjall um handverk og hvað handverk þýðir fyrir okkur, þar sem við vinnum báðar með höndunum allan daginn. Ég ákvað því að handmóta vasana tvo og skúlptúrana. Mig langaði að vekja fólk til umhugsunar um það hvaðan hluturinn kemur og hvert ferlið er á bakvið einn hlut.

Markmiðið mitt er að vekja fólk til umhugsunar um hvaðan hlutirnir koma, hver býr hlutinn til og hvert er ferlið á bakvið hvern og einn hlut virkar. Mér finnst mjög mikilvægt að ég geti sagt ákveðna sögu í gegnum leirinn og verkin mín, Það er líka eitthvað svo heillandi að miðla þekkingunni áfram og ef ég get í framtíðinni vakið áhuga fólks á keramiki þá væri ég ein sátt kona.

Ég eins og allir aðrir er bara svoldið að finna mig og mitt pláss í lífinu. Nú hef ég verið að velta fyrir mér hvernig get ég lagt mitt af mörkum til að vekja upp áhuga á þessari listgrein sem mér finnst stundum ekki fá það vægi sem hún á verðskuldað og hafa sjúklega gaman í leiðinni. “

       

Hægt er að fylgjast með þessari hæfileikaríku listakonu á Instagram @huldakatarina

Ekki missa af þessari glæsilegu listasýningu Huldu Katarínu og Rakelar Tomas sem stendur opin til 24. september á Grettisgötu 3. 

LJÚFT HELGARFRÍ

Skrifa Innlegg