Ég átti von á góðum gestum í gærkvöldi og þá að sjálfsögðu taka konur til en ekki hvað og þá er um að gera að nýta líka tækifærið og smella af myndum fyrir bloggið. Ég er hægt og rólega að græja heimilið, það liggur ekkert á þó svo að ég væri oft til í að vera örlítið hraðskreiðari þegar kemur að þessum málum. Enn er eftir að hengja upp ýmsar myndir og svo er það barnaherbergið sem hefur verið í smá vinnslu í vikunni. Ég var orðin kasólétt þegar við fluttum hingað inn síðasta sumar svo þá nennti ég litlu, svo þegar krílið kom nennti ég enn minna og svo þegar krílið stækkaði þá er enginn tími orðinn eftir til að dúlla sér mikið við heimilið. En góðir hlutir gerast hægt og ég er viss um að það styttist í að mér finnist allt vera orðið “klárt” hér heima.
Gott að fá smá hjálp við tiltektina…
Þessi fínu blóm týndi ég fyrir utan hjá mér korteri áður en gestirnir mættu, falleg og ókeypis skreyting.
Hillurnar eru loksins komnar upp á vegginn og þá er næsta skref að hengja upp myndir í kring. Það er ekkert grín hvað barnið mitt hefur fengið mikið af plakötum gefins, ég held hann eigi um 7 stk á lager. Núna þarf ég að velja nokkur úr og hengja á vegginn. Kindina keypti ég fyrir nokkrum árum í Hollandi og ég veit því miður ekki hvar svona fæst í dag því ég fæ reglulega spurningar um hana. B-ið (teikningin) er eftir Heiðdísi Helgadóttur og það fæst í Petit.is.
Þessa uglu teiknaði Heiðdís líka og gaf Bjarti þegar hann var í heimsókn á vinnustofunni hennar, en það er ótrúlegt hvað lítil börn verða heilluð af þessum stóru augum. Loftbelginn teiknaði einnig vinkona mín og teiknisnillinn Bergrún Íris og mér þykir ofsa vænt um hann. Fuglinn er eftir Kay Bojesen og sæti sveppalampinn er frá Tulipop svona fyrir áhugasama.
Þessa tréperlufesti fann ég fyrir stuttu í Garðheimum og það var ekki fyrr en í gær að ég ákvað hvar ég vildi hafa hana. Svefnherbergið hafði verið smá tómlegt og því var tilvalið að skella henni fyrir ofan rúmið, kortin sem eru núna á festinni voru bara næst hendi en ég held ég setji frekar bara fjölskyldumóment þangað upp við tækifæri. Æj svona næst þegar ég fæ nennuna;)
Vonandi var helgin ykkar ljúf og góð!
Skrifa Innlegg