fbpx

HEILSUTIPS MEÐ KARITAS

FagurkerinnUppáhalds

Síðastliðið vor byrjaði ég að mæta í tíma hjá hinni einu sönnu Karitas Maríu Lárusdóttur í World Class og urðu tímarnir hennar fljótlega eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í hverri viku og það hefur verið nánast ómögulegt að sleppa úr tíma síðan þá. Þjálfunin, tónlistin og félagsskapurinn gera þetta að bestu líkamsrækt sem ég hef prófað og það er ekki að ástæðulausu að Karitas er einn vinsælasti þjálfari landsins.

Í upphafi árs erum við líklega ansi mörg byrjuð að setja okkur ný markmið eða að skerpa á gömlum og flestir sem vilja huga enn betur að heilsunni, það á að minnsta kosti við mig. Því fannst mér tilvalið að fá Karitas í smá spjall um heilsu og heilbrigðan lífstíl og deila með okkur góðum ráðum en hún er algjör viskubrunnur þegar kemur að öllu þessu tengdu.

Hver er Karitas, segðu okkur aðeins frá þér?  Ég heiti Karitas og er 32 ára og bý í Kópavoginum. Ég á 4 börn, þar af  2 stjúpbörn og svo eiginmann sem heitir Gylfi Einarsson. Ég hef kennt og þjálfað hóptíma í 13 ár hjá World Class og er þar enn, ég er einnig með heimaþjálfun sem heitir HomeFit. Ég er viðskiptafærðingur og einkaþjálfari að mennt, svo er ég með allskonar viðbætur við þjálfunina.

Námskeiðin mín eru bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Við tökum krefjandi æfingar og vinnum frá “core” vöðvunum okkar, kvið-, bak-, rass- og grindabotnsvöðvanum. Við blöndum skemmtilegum æfingum saman og höfum gaman! Í HomeFit þá er það svipað og á námskeiðunum, nema auðvitað það er hægt að taka þær æfingar hvar sem er en svo er ég einnig með hiit tíma sem eru þá styttri og hnitmiðaðri.

Setur þú þér ný markmið í upphafi nýs árs, ef já hvernig markmið? Ég geri það stundum og stundum ekki. Ég er meira fyrir að setja mér styttri markmið og þá miða ég oft við viku til 4 vikur. Markmiðin hjá mér eru ekki mörg akkúrat núna. Ég hef verið að setja mér viku markmið: 

  • Heimsækja ömmu í vikunni
  • Taka upp heimaæfingarnar kl. 10-14 mánudag 
  • Borða 1 ávöxt á dag
  • Ná 1 hlaupi í vikunni

Núna vilja margir hefja árið með krafti og eru huga að heilsunni og nýjum venjum, áttu til góð ráð til að viðhalda þessum áhuga á heilbrigðari lífstíl lengur en bara fyrstu mánuði ársins? Já það ætla sér margir að byrja árið svakalega og svo bara fellur allt þegar fyrsta markmiðinu er ekki náð. Ég lærði ótrúlega skemmtilega formúlu hjá Söndru vinkonu minni en það eru SMART markmið.

S- skýr M-mælanleg A-aðlaðandi R-raunhæf og T-Tímamörk

Og allir þessir punktar saman eru svo mikilvægir. Það er nefnilega held ég það sem flestir klikka á þegar þeir setja sér markmið í byrjun árs að horfa í það hvort að okkur langi þetta virkilega, hvort þetta sé raunhæft og hvernig við ætlum að ná þessu.

Því mæli ég alltaf með að byrja frekar rólega, ná þá frekar meiru en við bjuggumst við og geta svo byggt ofan á. Því við vitum það öll að það er ekkert leiðinlegra en að setja sér markmið og ná því ekki, þá oft gefumst við upp. Til að nefna dæmi, þá setjum við okkur oft þau markmið á nýju ári að æfa meira, borða hollara og sfrv.

Hér væri gott að byrja að horfa aðeins á hvernig þetta hefur áður verið og setja sér svo markmið sem passa okkur t.d.

  • Næstu 4 vikur ætla ég að mæta alla mán – mið – fös kl.07:00 í ræktina (helst hafa plan hvað þið gerið hvern dag)
  • Næstu 4 vikur ætla ég að borða 1 ávöxt á dag
  • Næstu 4 vikur ætla ég að sleppa nammi á virkum dögum 
  • Ég ætla byrja daginn á góðri næringu – setja svo kannski inn hvað kemur til greina (egg og avocado t.d.) 

Hvað er besta ráðið sem þú getur gefið þeim sem langar að koma inn hreyfingu og hollustu í lífstílinn sinn en eru alveg á byrjunarreit? Það sem mér finnst alltaf best er að mæla með því að fólk fari hægt af stað hvort sem það er í mataræði eða hreyfingu. Varðandi hreyfingu finnst mér oftast hjálpa fólki að skrá sig á námskeið eða til þjálfara, fá einhvern með sér er líka alltaf extra hvetjandi. Finndu þér einnig hreyfingu sem að þér finnst skemmtileg og reyndu að gera eitthvað smá alla daga.

Gott er að koma sér upp góðum rútínum og gera þær að vana, bættu við þær smátt og smátt þannig að þær verði að venjum.

Ég ráðlegg ykkur að þið leggið áherslu á jafnvægi í matarvenjum, að þið reynið að borða hollan og hreinan mat oftast en leyfið ykkur smá sætt inn á milli. Reynið að hugsa þetta sem eldsneyti sem nærir líkama og sál. -Þróið með ykkur yfirvegaða nálgun á mat og næringu. Borðaðu nóg af trefj­um, græn­meti, ávöxt­um, fræj­um, hnet­um, góðum ol­í­um og góðu próteini. Gott er t.d. að byrja að skoða fyrstu máltíð, bæta hana og prufa það í smá tíma. Taka svo næstu máltíð fyrir og svo koll af kolli. Þarna er líklegra að þessar máltíðir verði að vana og þá er líklegra að við höldumst lengur í því. Pössum að drekka nóg af vatni þar sem að við getum oft ruglað þorsta við svengd.

Það er gott að gera innkaupalista og fara í búðina í byrjun vikunnar og undirbúa sig, skera niður grænmeti, sjóða nokkur egg og hafa þetta tilbúið í ísskáp.

Hver er uppáhalds desertinn þinn? Þetta er góð spurning, það fyrsta sem kom upp í hugann á mér voru bara súkkulaðirúsínur, ég er mjög einföld. En það er líklega góður ís með jarðaberjum, snickerskurli og súkkulaðisósu. 

En besta millimálið? Ég á oftast til heimagert túnfisksalat í ísskáp og finnst gott að henda því á hrökkkex, barbell stöng, egg, epli+hnetusmjör, grískt jógúrt með hunangi og ávöxtum, hollar bananavöfflur með smjöri og ost til að nefna einhver dæmi.

Túnfisksalat: túnfiskur, kotasæla (stundum sýrður rjómi), paprika, rauðlaukur, salt, pipar og chilli flögur.

Hollar bananavöfflur: 4dl hafrar, 4 dl eggahvítur + 2 egg, fullt af kanil, 2 bananar – Set í blandar og svo bara helli ég útkomunni í vöfflugrillið.

Hvaða bætiefni ættu flestar konur að huga að því að taka? Við þurfum klárlega öll að taka D-vítamín. Ég mæli svo með að taka inn góðgerla. Ég er svolítið fyrir að breyta og taka ekki alltaf inn það sama en samt er ég með nokkur sem ég tek að staðaldri. Ég tek alltaf d-vítamín og joint rewind eða age rewind frá Feel Iceland, svo tek ég Multivitamin (EVE) frá Now og góðgerla. Þar sem ég kenni mikið í heitum sal þá er ég dugleg að taka inn steinefni líka.

Besta fegrunarráðið er … Fá nægan svefn, hreyfa sig og hafa gaman af lífinu.

Ef þú hefur aðeins 5 mínútur til að gera þig reddý fyrir daginn, hvað geriru? Dagurinn minn einkennist oftast af þjálfun svo ég byrja á að skola andlitið, set á mig gott dagkrem og hendi mér í æfingagallann og hárið í tagl :) 

Hvaða fimm hlutir eru á óskalistanum þínum þessa stundina? Mig langar í hornsófa úr Heimili & Hugmyndir, fallegan stóran lampa og svo langar mig í allt í AndreA og er með augun á nokkrum flíkum þar sem og skóm. Ég er svo búin að vera að leita mér af fallegri kápu. 

Hver eru þín helstu áhugamál? Samvera með fjölskyldu og vinum er líklega það helsta, ferðalög en svo er nánast öll hreyfing hvort sem það er á námskeiðum hjá mér, skíði, golf, göngutúrar og mig langar að vera duglegri að ganga fjöll. 

Hvar er hægt að prófa tíma hjá þér?  Það er hægt að senda mér skilaboð á Instagram og ég finn hvað ykkur hentar, Instagram @Karitas

Hvernig er svo dæmigerður dagur hjá þér? Ég byrja flesta morgna á vatnsglasi, helst ekki of köldu. Fer svo að kenna, kem svo heim og vek hina fjölskyldumeðlimina sem eru reyndar oftast vaknaðir, kem öllum í skóla og leikskóla.  Fæ mér vítamín, Frankly skot (engifer, túrmerik og chili) og góðan morgunmat en þá fer ég oftast að vinna í tölvunni, ég er svo 2 daga í viku að taka upp æfingar fyrir heimaþjálfunina, svo er ég bara að þjálfa yfir daginn og svo þetta klassíska að sækja og skutla á æfingar, borða kvöldmatinn saman og svo er ég oft stungin af að þjálfa á kvöldin.

Takk kæra Karitas fyrir spjallið og ég hvet ykkur innilega til að fylgjast með henni með því að smella hér @karitas 

BÓNDADAGSGJAFIR - 15 HUGMYNDIR

Skrifa Innlegg