Það getur verið notalegt að gera litlar breytingar á heimilinu við hver árstíðarskipti sem veita okkur bæði vellíðan og einfaldlega til að taka á móti nýrri árstíð, núna haustinu. Bjartir litir eiga alltaf við að mínu mati en þó kjósa margir að hvíla þá örlítið fram yfir veturinn og dempa smá litapallettu heimilisins. Núna eru einmitt margir að detta í nýja rútínu með skóla og vinnu og því getur verið gott að færa smá ró yfir heimilið og þá hafa litir og val á textíl mikið að segja. Ljósir pastellitir og jarðlitir geta verið gott val fyrir haustið og það þarf enginn að gera meiriháttar breytingu, einfaldast er að skipta um lit á t.d. handklæðum, rúmfötum, skipta út skrautpúðum í stofunni, og bæta við notalegu teppi á sófann og rúmið og kaupa nýtt og gott ilmkerti mmmm.
Byrjun haustsins er líka tíminn til að mála “þennan vegg” sem þig hefur lengi langað til eða herbergið, því breytingar eru af hinu góða og það getur virkað hvetjandi að fríska upp á umhverfið sem við eyðum hvað mestum tíma í – sem er jú heimilið.
Núna langar mig til að sýna ykkur fallegt heimili í mjög dempaðri litapallettu þar sem ljósir litir ráða ríkjum og allt er svo notalegt. Sjáið hvað góð notkun á textíl hefur mikið að segja fyrir hlýleikann, en það eru ekki bara mottan á gólfið og værðarvoð á sófann heldur líka litlu hlutirnir, blóm og greinar í vasa, bækur uppivið til að leita innblásturs í, ilmkerti á baðherbergið fyrir ljúfan ilm og fallegar myndir á veggina sem setja punktinn yfir i-ið og skapa fallega og notalega heild.
Á næstu dögum kem ég til með að fjalla betur um einföld ráð fyrir heimilið ♡
Takk fyrir lesturinn
Fylgstu endilega með einnig á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg