fbpx

FYRSTA PÁSKAMATARBOÐIÐ HEIMA

Fyrir heimiliðPersónulegt

Við fengum fjölskylduna mína til okkar í mat á Páskadag en hingað til hef ég gengið að því vísu að mæta í ljúffengan páskamat til foreldra minna í heimaeldað ‘ala’ mamma eða amma. Vegna flutninga í fjölskyldunni og allskyns framkvæmda er þó búið að færa fjölskylduboðin heim til mín síðan fyrir áramótin og mér líður eins og ég hafi elst um nokkur ár við það haha. Andrés minn sá þó að mestu um matinn fyrir 11 manns en ég hef meira gaman að því að taka til og skreyta. Ég á ekkert sparistell né spariglös, þetta er allt það sama og ég nota dagsdaglega (fyrir utan hvítvínsglösin á fætinum haha). Mér finnst mikilvægt að nota hlutina mína sem oftast og vil frekar borða með fallegu stelli alla daga ársins frekar en ca. 20 sinnum á ári. Það sama gengur að sjálfsögðu yfir annað á heimilinu – það er ekkert “spari” ♡

Stellið sem ég hef verið að safna : Bitz matardiskar, fást í Bast Kringlunni, gyllt hnífapör sem mamma gaf okkur (fást í Bast og Fjarðarkaupum), glærir Kastehelmi Iittala diskar sem eru fullkomnir í veislur. Iittala Essence glösin og Ultima Thule hef ég keypt mér í gegnum árin og sitthvað kemur frá gömlum frænkum. Sígræna plöntulengjan / borðskrautið er frá Garðheimum og mun koma sér vel í framtíðarveislum, það var til úrval af svona grænu skrauti þegar ég kíkti um daginn. Dúkurinn og tauservíetturnar eru í láni frá mömmu og er Georg Jensen Damask, ég á sjálf einn fallegann dúk en þegar ég stækka borðið svona mikið þarf ég að fá í láni stærri dúk. Kanínueyrun eru skemmtilegt servíettubrot af Youtube – ég breyti því smá til að þau passi frekar ofan í glas en bundin saman ofan á disk.

Við eigum enn eftir að pússa J39 stólana okkar sem ég keypti notaða síðasta vetur. Hér sést vel hvað ég var spennt að taka myndir haha – enn eftir að klára borðið!

Tveir litlir grallarar sitja svo saman við enda borðsins í aðalstuðinu og oft finnst mér ekkert þurfa að hafa stóra diska hjá börnum – diskarnir þeirra eru líka Bitz og bættust nýlega við enda liturinn tilvalinn fyrir bleika eldhúsið mitt. Fjólublái diskurinn á fætinum er gamall af flóamarkaði.

Ég er hinsvegar að elska þessa stuttu viku svona mættu þær allar vera ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

BJART & FALLEGT DRAUMAHEIMILI

Skrifa Innlegg