fbpx

FAGURKERINN HARPA KÁRADÓTTIR SPJALLAR UM HEIMILI & FÖRÐUN

BeautyFagurkerinnÍslensk heimili

Harpa Káradóttir er án efa einn færasti förðunarfræðingur landsins, hún er eigandi Make Up Studio Hörpu Kára þar sem hún ásamt öðrum frábærum förðunarfæðingum kennir förðun og auk þess er hún einnig algjör fagurkerkeri fram í fingurgóma. Harpa er nefnilega með þennan skemmtilega eiginleika að það verður allt fallegt sem hún kemur nálægt og er hún með einstakt auga fyrir smáatriðunum. Nú á dögunum kynnti hún til leiks í fyrsta sinn ótrúlega vandað förðunarburstasett undir sínu nafni ásamt fleiri förðunartengdum vörum sem vakið hafa mikla athygli. Ekki bara fyrir gæðin heldur einnig mjög gott verð – þið eiginlega verðið að kíkja á þær! Burstar, töskur, svampar og silkikoddaver svo fátt eitt sé nefnt ♡

Kynnumst Hörpu aðeins betur … 

Hvaða 5 orð lýsa þér best … Jákvæð, sveimhuga, dugleg, partýhaldari, óskipulögð.  Hvernig myndir þú lýsa heimilisstílnum þínum … Heimilisstíllinn minn er mjög náttúrulegur, yfirvegaður og smá japanskur. Þegar ég segi náttúrulegur þá er ég að tala um allan viðinn sem er heima hjá mér. Ég bý í timburhúsi með viðarlofti og allar hurðar og eldhúsinnréttingin mín eru einnig allt úr furu. Í grunninn er stíllinn minn frekar tímalaus en ég blandi mikið saman hvítu, gleri og við. Svo elska ég plöntur og blóm. Ég veitt fátt betra en að koma heim og það taki á móti mér hvítar ferskar rósir.  Það virðist alltaf vera fínt heima hjá þér, hvert er leynitrixið? Það er alls ekki alltaf fínt heima hjá mér því ég á 3 börn og er oft mikið í burtu sökum vinnu en maðurinn minn er mjög duglegur heima. Ég hef alla mína tíð frá því að ég byrjaði að búa elskað að vera með fersk blóm í vasa, helst hvít blóm og það er eitthvað við það sem fær mig til að finnast allt hreinna og fínna heima þegar ég set ný blóm í vasa. Hvað varðar leynitrix þá er ég mjög mikið að vinna með að troða draslinu inn í skáp svo það hrynji nú örugglega á hausinn á næsta manni sem opnar skápinn.  Besta ráðið sem mamma þín hefur gefið þér fyrir heimilið? Úff hvar á ég að byrja. Mamma mín er mjög smekkleg og dugleg að þrífa þannig að vonandi er ég einhversskonar diet útgáfa af henni. Ef ég á að nefna eitthvað eitt sem hún hefur kennt mér þá er það einfaldlega að vera með minna en meira af hlutum heima og ekki raða hlutum upp bara af því að ég á þá. Ég fæ reglulega að heyra það frá fólki að það sé svo lítið af hlutum heima hjá mér en ég er svo sem ekkert endilega sammála því. Annað sem ég hef tekið til mín frá foreldrum mínum er að huga að því sem fer upp á veggina heima. Falleg listaverk á heimilum eru að mínu mati það sem gerir heimilið persónulegt og einstakt.

Ef þú hefur aðeins 3 mínútur til að hafa þig en vilt vera vel til höfð, hvað gerir þú? Ef ég hef 3 min til þess að gera mig til þá væri röðin þessi, augnkrem, krem, bretta augnhár, baugafelari, augabrúnablýantur og eitthvað á varirnar.  Hverjar eru þínar uppáhalds snyrtivörur þessa stundina? Ég elska húðvörurnar frá Bio Effect og nota þær mjög mikið. Ég mæli með að allir prófi augnmaskana frá þeim, þeir gera kraftaverk. Svo hef ég notað Eight hour krem frá Elizabeth Arden í 23 ár. Ég elska að bera það á varir og þurrkubletti. Stone varablýantur frá MAC er eitthvað sem ég á alltaf til og vitalumiere aqua farðinn frá Chanel.  Jólaförðunin í ár erfersk ljómandi húð með nóg af highlighter, létt augnförðun með fallegum stökum augnhárum og uppáhalds varaliturinn þinn.

Jólagjöfin í ár að þínu mati? Jólagjöfin í ár er að sjálfsögðu nýju burstasettin mín. Gæða förðunarburstar sem auðvelda fólki verkin. Eftir 15 ár í bransanum og 10 ár sem förðunarkennari þá tel ég mig vera nokkuð vissa um hvernig tól fólk þarf að eiga til þess að framkalla þá förðun sem það sækist eftir.  Hvaða hlutur eða húsgagn situr á óskalistanum þínum? Mig dreymir um verk eftir Reginu Rourke, hún málar æðislegar myndir. Ég ætla að fá mér mynd eftir hana einn daginn.  Hvað kom til að þú fórst að hanna þína eigin förðunarburstalínu? Ég hef kennt fólki á öllum aldri förðun á lengri og styttri námskeiðum undanfarin 10 ár. Hvaða tól þú notar skiptir öllu máli, sérstaklega þegar þú ert að læra undirstöðu atriðin í förðun. Það reyndist oft á tíðum erfitt að finna góða bursta á góðu verði fyrir fólkið sem var að koma til mín á námskeið og oft þótti mér erfitt að mæla með burstum sem fólkið nánast missti andlitið þegar það spurði um verðin. Svo fékk ég þá flugu í höfuðið að búa til mín eigin burstasett svo ég gæti kennt fólki það sem það vill læra og sent þau heim með réttu tólin sem hentaði þeim, þannig fengju þau miklu meira út úr námskeiðunum hjá mér og hefðu möguleika á að kaupa gæða bursta á viðráðanlegu verði. Sem förðunarkennari setti ég mér það markmið að framleiða frábæra bursta sem væri auðvelt að kenna á og kostuðu ekki augun úr.  Förðunarbursta sem allir ættu að eiga eru… Það er erfitt fyrir mig að svara þessari spurningu en ég mæli með augnsettinu mínu fyrir þá sem er fyrir að setja á sig augnskugga og andlits settinu mínu ef þú vilt frekar vinna meira í húðinni. Ef þú vilt gera bæði þá mæli ég annað hvort með mini pro settinu mínu eða pro settinu ef þú vilt fara alla leið. 

Að lokum…

Hvað er það besta við jólin?  Besta við jólin eru stundirnar fyrir jólin og stemmningin í loftinu. Vinir og fjölskylda hittast og fólk leyfir sér smá meiri slaka í desember. Með aldrinum reyni ég að taka jólastressinu ekki of alvarlega og ég geri yfirleitt allt á síðustu stundu, mæli ekkert endilega með því fyrir alla. En svo koma jólin og yfirleitt blessast hlutirnir á endanum.

Kíktu yfir í vefverslun Make Up Studio til að sjá allt úrvalið

Takk elsku Harpa mín fyrir spjallið og til hamingju með þessar glæsilegu vörur ♡

TRYLLT SKARTGRIPALÍNA // FAIRY TALE BY LOVÍSA & PATTRA SITUR FYRIR

Skrifa Innlegg