fbpx

FAGURKERINN // GUÐRÚN Í KOKKU

Fagurkerinn

Fagurkerinn Guðrún Jóhannesdóttir er eigandi margrómuðu verslunarinnar Kokku sem staðsett er í hjarta miðborgarinnar. Guðrún veit hvað hún syngur þegar kemur að gæða vörum fyrir eldhús og heimili og er auk þess mikill ástríðukokkur. Guðrún tók saman sína uppáhalds hluti til að deila með okkur ásamt því að svara nokkrum laufléttum spurningum ♡

Lýstu þér í 5 orðum … bjartsýn, ákveðin, vinnusöm, óþolinmóð og úfin.

Stíllinn þinn … ætli hann sé ekki frekar klassískur.

Uppáhalds hönnun … hönnun þar sem fegurð og notagildi fara saman.

Besti maturinn … maturinn sem Steini eldar handa mér, honum tekst ennþá að koma mér á óvart með tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

Fegurð eða notagildi …  bæði, ekkert vit í öðru.

Það sem verður keypt næst fyrir heimilið … mig langar hrikalega mikið að taka baðherbergið í gegn en ætti kannski fyrst að klára eldhúsið sem við tókum í gegn fyrir tveim árum en náum aldrei að klára alveg.

// 1.  Ég er alltaf jafn ánægð með Flos 265 lampann minn. Gott að sitja á sófanum og lesa við birtuna frá honum með eldinn logandi í  kamínunni. // 2. Þessi glös eru uppáhalds fyrir góðan gimlet og espresso martini. // 3.  Svo er lítil djúp koparpanna efst á óskalistanum hjá Steina. // 4. Ég hef lengi verið veik fyrir terrazzo og þessi platti er flottur undir svo ótalmargt. // 5. Draumasófinn, mig langar í þennan koníaksbrúna frá Fogia. // 6. Mig dauðlangar í munnþurrkurnar frá Himla í nýja nude litnum. Þær seljast bara alltaf svo hratt upp að ég hef ekki enn náð mér í pakka. // 7. Ég er með Ro Hurricane á gólfinu í anddyrinu hjá mér, hann tekur á móti mér þegar ég kem heim. Er stundum með greinar eða há blóm, t.d. sverðliljur. Núna er ég með kubbakerti sem veitir notalega birtu í gluggalausu anddyrinu. // 8. Mig hefur lengi langað að skipta út kókosmottunni í stofunni fyrir mottu sem auðvelt er að þrífa og nú er Pappelina loks komin með risamottur (230×320 cm) sem myndu smellpassa í stofuna mína, er samt með valkvíða. Gæti trúað að ég endaði á Sveu í svörtu/metallic, alltaf jafn fyrirsjáanleg! // 9. Við vorum að fá burðarpoka með myndum eftir Kristjönu S. Williams. Þessi íslenska listakona er helst þekkt fyrir veggskreytingar. Ótrúlega skemmtilegur ævintýraheimur. Mig langar í þennan poka en hann verður kominn í vefverslunina okkar innan skamms. // 10. Baðherbergið er allt annað og fegurra eftir að ég fékk mér þvottakörfu frá Korbo. Ég er líka með gyllta Korbo körfu í stofunni undir ullarteppin mín.

Uppáhalds verslun … auðvitað Kokka en svo var ég að uppgötva alveg dásamlega nýja búð á Laugaveginum. Hún heitir Vonarstræti og býður upp á margt fallegt og vistvænt.

Skemmtilegasta borgin … ég er mjög  hrifin að minni heimaborg, Reykjavík, finnst alltaf meiri og meiri stórborgarbragur á henni. Ótal flottir veitingastaðir og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva. Svo finnst mér alltaf gaman að koma til Kaupmannahafnar, notalegt andrúmsloft og líka fullt af góðum mat.

Dýrmætasta á heimilinu … fólkið mitt og Krummi gamli sem tekur á móti mér með gelti þegar ég kem heim úr vinnunni.

Hvað er næst á dagskrá … að byrja að vinna í efri hæðinni í Kokku og þegar tími gefst til að klára smáatriðin í nýja eldhúsinu heima.

Takk fyrir spjallið elsku Guðrún, ég hvet ykkur til að kíkja við á Kokku.is og skoða úrvalið af dásemdum fyrir eldhúsið sérstaklega. Svona þar sem við erum mörg hver að eyða enn meiri tíma við bakstur og eldamennsku þessa dagana.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

ÓSKALISTINN // MARS

Skrifa Innlegg