Þetta einstaklega fallega svefnherbergi hittir mig alveg beint í hjartastað, ég get varla ímyndað mér huggulegra svefnherbergi og litapallettan er fullkomin. Sjáið hvað grái liturinn á veggjunum passar vel við grá-fjólubláa litinn á gardínunum og rúmfötum, og motturnar á gólfinu gera herbergið ennþá hlýlegra. Þarna gæti ég svo sannarlega hugsað mér að sofa ♡
Litirnir draga mig alveg inn í herbergið, svo ótrúlega vel heppnuð samsetning. Grár, grá-fjólublár, svartur, hvítur ásamt náttúrulegum elementum eins og við, bast og plöntum. Þessi lagskipting á textíl í rýminu gefur síðan svo mikla dýpt og kemur mjög vel út ásamt því að mála ekki grátt upp í loftið – sem er mjög hátt, hjálpar einnig til við þessa notalegu stemmingu.
Myndir: Niki Brantmark / My Scandinavian Home. Stílisering : Genevieve Jorn.
Ég veit ekki hvað það er en þegar ég sit svona frameftir á kvöldin að skrifa þá dett ég alltaf í gírinn að sýna ykkur falleg svefnherbergi:) Það verður að viðurkennast að þetta hér að ofan er með þeim fallegri sem ég hef séð og mikið búið að nostra við hvert smáatriði, motturnar á gólfinu, djúsí rúmföt og gardínur. Allt eru þetta hlutir sem gera svefnherbergi mjög aðlaðandi og hlýleg. Og alveg er ég viss um að við sofum betur í fallegu svefnherbergi, er það ekki?
Skrifa Innlegg