Á meðan að sumir láta sig dreyma um að vera á Þjóðhátíð núna þá læt ég mig dreyma um síðasta sunnudag sem var einn af betri dögum sumarsins. Árlega höldum við saumaklúbburinn árshátíð og eyðum deginum í skemmtun og góðan mat, þetta árið kom ég ásamt einni vinkonu minni að skipulagningu og er dagskráin alltaf top secret sem engin fær að vita um fyrr en við erum mættar á staðinn. Bláa Lónið var efst á mínum óskalista enda er ég meira í dekurstuði en sprellstuði þessa dagana og þvílíkur draumur sem það var, ég var hreinlega búin að gleyma því hversu ljúft lónið er enda nokkuð langt síðan ég heimsótti það síðast. Læt eina mynd fylgja með sem var tekin af okkur saman:)
Við enduðum á því að eyða rúmlega 3 klst ofan í lóninu í dekri með andlitsmaska og drykki -ég mæli svo sannarlega með því að kíkja þangað með vinkonuhópnum ef ykkur langar til að gera ykkur smá dagamun. Þar kynntumst við einni eiturhressri fimmtugri konu (sem leit út fyrir að vera tvítug) frá New York sem var hér í fríi ásamt manninum sínum sem á banka en þau keyptu sér einmitt nýlega hvítann Porche sem Bon Jovi átti. Svo gistu þau á Hótel Borg og ferðuðust um landið með þyrlu og svo var bróðir hennar hárgreiðslumaður Mariah Carey… Já svona týpum kynnist maður bara í Bláa Lóninu held ég!
Dagurinn byrjaði hinsvegar á lúxus brunch heima hjá mér, þar var allt sem hugurinn getur girnst á sunnudagsmorgni. Þaðan var svo haldið í Bláa Lónið en vegna þess að við gleymdum algjörlega tímanum í dekrinu okkar þar misstum við af smá sprelli sem átti að vera í 101 RVK seinna um daginn. Því fórum við úr lóninu í Bogfimisetrið og þaðan fórum við heim að grilla gourmé hamborgara sem var boðið upp á ásamt tómat crostini með þeyttum fetaosti og smjörsteiktum perum með brie og furhnetum ala Ljúfmeti.is.
Algjör draumasunnudagur sem ég vildi óska þess að ég gæti endurtekið aftur í dag. Andrés er reyndar í þessum skrifuðu orðum frammi að gera amerískar pönnukökur og eggjahræru, kannski ég blikki hann líka til að bjóða mér í Bláa Lónið;)
Eigið góðan dag!
x
Skrifa Innlegg