Á þessu heimili búa læknahjónin Justin og Jeanne Roebert ásamt 10 ára syni sínum. Heimilið var sérstaklega myndað fyrir bloggsíðuna The design files, ólíkt flestum innlitum sem oftast eru mynduð fyrst fyrir tímarit en enda svo á netinu, en heimilið var hannað af einu fremsta innanhúss-hönnunarstúdíói í Ástralíu, Hecker Guthrie.
Þarna má sjá The Flag Halyard stólinn sem hannaður var af Hans J.Wegner og er framleiddur af PP möbler. Dásamlega fallegur alveg hreint! Mottan er líka æðisleg, en það verður mikið um allskyns mynstur á komandi ári í hönnunarheiminum, því fleiri því betra.
Eldhúsið er einstaklega vel hannað, marmari á veggnum og á eyju. Svartur háfurinn, helluborðið og kraninn koma vel út á móti ljósum marmaranum.
Adnet spegillinn er fallegur, en ódýrari útgáfu af honum má fá frá HAY. Marmarinn er trylltur og aftur eru notuð svört blöndunartæki til að skapa andstæður.
String hilla í barnaherberginu.
Myndir: Derek Swalwell
Þetta er allt annað en þessi skandinavíski (fallegi) stíll sem hefur verið mjög ráðandi undanfarið. En sérfræðingar telja að núna víki þessi ofurhreini stíll fyrir örlítið persónulegri stíl. Náttúruleg efni eins og viður, steinn og leður eru falleg á móti hvíta litnum, og eins er að aukast að hafa stórar grænar plöntur á heimilinu, sem er reyndar ekkert nema heimilislegt.
Skrifa Innlegg