Það er aldeilis kominn tími til að taka aftur stöðuna á þeim Örnu og Sigvalda sem hafa verið að gera upp íbúðina sína. Síðan síðast þá hafa þau skipt út gólfefnum fyrir fallegt parket ásamt því að fjárfesta í nýjum sófa. Það er orðinn þvílíkur munur á íbúðinni þó svo að enn sé nóg eftir af verkefnum, en næst verður það eldhúsið. Ég ásamt svo mörgum öðrum hef einstaklega gaman af því að fylgjast með svona framkvæmdum og er sannfærð um að þessar færslur geti komið mörgum að góðu gagni sem eru eða ætla að skella sér í framkvæmdir á heimilinu.
Segðu okkur hvað þið hafið verið að gera síðan síðast? Þegar við Sigvaldi keyptum íbúðina var hún með brúnum dúk á gólfinu en það var einmitt þar sem við sáum sem mestu möguleikana. Við fórum strax að skoða okkur um í helstu parketverslunum hér á höfuðborgarsvæðinu og fengum endalaust af prufum og upplýsingum. Við vorum sem betur fer bæði sammála um að við vildum ljóst en hlýtt parket svo það var fínt upphaf á leitinni.
Hvaðan er parketið? Við vorum bæði mest skotin í parketum frá Birgisson en um leið og við gengum inn var tekið vel á móti okkur og fengum góða fræðslu um hvernig parket við ættum að skoða útfrá okkar aðstæðum, en við vildum einmitt parket sem við gætum sett á alla íbúðina og líka inn í eldhús.
Hvað fannst þér mikilvægt að hafa í huga við valið? Parketið sem við völdum okkur var á viðráðanlegu verði en samt svo fallegt og tók það okkur ekki langan tíma að staðfesta kaup á því. Parketið er s.s 10mm harðparket og heitir Vermont Oak White, en þetta er glæsilegt alhvíttað eikarlíki. Okkur fannst skipta máli að hafa parket sem myndi endast vel og ekki rispast auðveldlega en við erum stundum með fósturhundinn okkar hana Birnu og viljum geta leikið við hana án þess að vera að stressast með gólfið.
“Við vorum fyrst ekkert viss með að eyða eitthvað rosalega í undirlag þar sem það sést nú hvort eð er ekki en okkur var ráðlagt að ef við ætluðum einvhersstaðar að spara að þá væri það ekki í undirlaginu. Við tókum þeim ráðleggingum og tókum því gott undirlag og þar sem við búum í fjölbýli þá getum við ekki sagt að við sjáum eftir þeirri ákvörðun þar sem hljóðeinangrunin er miklu betri og mýktin varð einhvernveginn miklu betri við að ganga á gólfin.”
“Þegar kom að því að parketleggja þá var Sigvaldi sem betur fer búinn að gera þetta nokkrum sinnum áður og gátum við því gert þetta sjálf, en okkur fannst mjög mikilvægt að geta haft möguleikann á að gera þetta sjálf, þó ég mæli ekki með því nema að fólk kunni eitthvað fyrir sér í þessum málum. Eftir að við parketlögðum þá varð strax svo mikill munur á íbúðinni, en okkur finnst parketið alveg gera heildarsvipinn og gera íbúðina svo hlýja og fína.”
Hér er fallega parketið komið á gólfið og búið að mála gluggakarmana! Þvílíkur munur ♡
Mér fannst mjög áhugavert að heyra frá Örnu þetta með parketundirlagið og það að búa í fjölbýli, en það vill svo til að ég bý einnig í fjölbýli og er með plastparket á gólfinu en undirlagið er svo lélegt (ef það er nokkuð undirlag) að það heyrist svo gífurlega mikið á milli hæða að það er einn stærsti ókosturinn við það að búa hérna.
Ég tók svo mikið magn af myndum þegar ég kíkti í heimsókn til Örnu að þær komast ekki fyrir allar í einni færslu og því verður innlit í stofuna til þeirra birt í annarri færslu! En þvílíkur munur á íbúðinni eftir að dúkurinn var rifinn af, þetta hefði líka klárlega verið eitt það fyrsta sem ég hefði gert, að skipta út gólfefninu enda lítil prýði af brúnum dúk í stofunni hjá sér:)
Smellið endilega á like hnappinn ef þið viljið fylgjast betur með framkvæmdunum hjá Örnu og Sigvalda!
Skrifa Innlegg