fbpx

AFMÆLIN : BIRTA 1 ÁRS & BJARTUR 7 ÁRA

AfmæliPersónulegt

Það er sannkölluð afmælishelgi á heimilinu nýliðin hjá en Bjartur Elías minn varð 7 ára gamall í síðustu viku (halló hvert fór tíminn!?) og buðum við heim fjölskyldunni og vinum hans í sitthvora veisluna. Það rifjaðist upp fyrir mér í dag að ég setti ekki á bloggið myndir frá afmæli dóttur minnar frá því í sumar en Birta Katrín varð 1 árs gömul í júní. Það er því tilvalið að deila með ykkur nokkrum myndum úr báðum veislum en ég elska að halda afmæli og þau eru mjög ólík á milli ára, einnig hef ég gaman af því að rifja upp gamlar færslur frá mér með myndum úr afmælum.

Stundum hef ég nýtt þjónustu og verslað einhverjar tilbúnar vörur eins og í tilfelli 1 árs afmælisins í sumar þá bjargaði það veislunni að kaupa einstaklega fallega skreyttar kökur en núna fyrir 7 ára afmælið var ég með aðeins meiri tíma á lausu og bakaði allt og skreytti sjálf. Ég dæmi enga fyrir að kaupa tilbúið en það hefur svo sannarlega líka sinn sjarma að græja sjálf frá grunni og leyfa börnunum að hjálpa til.

Án þess að ákveða þema á nokkurn hátt þá er það augljóst þegar ég skoða myndirnar úr báðum afmælum að dóttir mín fékk bleika veislu og sonur minn fékk bláa – og mamman í stíl óafvitandi haha.

Byrjum á því að deila myndum úr bleika afmæli Birtu Katrínar sem var snemma sumars. Í 1 árs afmælisgjöf frá okkur fékk Birta fjólubláan og sætan dúkkuvagn sem hún hefur mikið leikið sér með.

Fallega marengskakan og geggjaða kisukakan er frá kökubúðinni Bake Me A Wish í Garðabæ og blöðruboginn er keyptur í sama húsnæði þar sem partýbúðin Confetti sisters er að finna. Mér finnst gott að bera líka fram ávexti og / eða grænmeti í barnaafmælum og bjó til skemmtilegt grænmetisljón með hummus til að dýfa og sló það í gegn.

Bjartur Elías fékk líka skemmtilegt afmæli, ég bjó til 7 ára afmælisköku úr tvöfaldri uppskrift af skúffuköku og setti á ljóst smjörkrem og skreytti með fullum poka frá nammibarnum – sérvalið eftir litum haha. Blöðrubogann keypti ég aftur hjá Confetti sisters og hafði svo mikið fyrir því að finna Pokémon diska og servíettur í öðrum verslunum þar sem Bjartur Elías heldur mikið uppá það í dag og var nánast uppselt á landinu. Fyrir bekkjarafmælið klipptum við út allskyns Pokémon skraut af netinu og límdum á flöskur og veggi fyrir skemmtilega leiki. Það var einnig boðið uppá mini pizzur, hrísköku og melónu.

Í 7 ára afmælisgjöf keypti ég segulkubba kúlubraut hjá Nine kids sem hann elskar að leika sér með og systir hans líka:) Hann átti einhverja segulkubba fyrir og þetta var frábær viðbót við það. Þessi segulleikföng eru frekar dýr að mínu mati en það er ótrúlega mikið leikið með þau og endast vel.

Andrés minn var greinilega á fullu í báðum veislum að græja kaffi og veitingar og því mjög fáar myndir af honum – sem er venjulega alltaf öfugt og á ég stútfullan síma af myndum með honum og krökkunum (eflaust margar mömmur sem tengja:) Það voru annars töluvert fleiri gestir í báðum veislum en á myndunum eru nánast aðeins systir mín, mamma og pabbi – það er bara afþví að ég hef ekki tíma til að afla leyfis fyrir myndbirtingum hjá öðrum gestum og hef greinilega ekki fyrir því að spurja mitt allra nánasta fólk haha ♡

Það síðasta sem ég vil bæta við er íslenski fáninn – hann er svo hátíðlegur að mér finnst hann eiga að vera í öllum afmælum. Ég elska að skreyta með honum og afmælisbarnið fær yfirleitt fánann um morguninn með afmælissöngnum. Þetta er gamall fáni síðan ég var barn og er alltaf dreginn fram á 17. júní og afmælum ásamt ódýri fánalengju sem fæst víða.

Takk fyrir að lesa ♡

Þú getur einnig fylgst með á Instagram @svana.svartahvitu 

HEIMILI Í BLÓMA

Skrifa Innlegg