Um helgina hélt ég upp á þrítugsafmælið mitt og heppnaðist veislan svo vel að ég á til með að gera færslu um hana. Ég var búin að ákveða þema nokkrum vikum áður en ég mæli með því fyrir ykkur í partýhugleiðingum til að geta séð fyrir ykkur veisluna sem þið viljið og ákveða stemminguna útfrá því, þá er líka auðveldara að finna til skreytingar og veitingar sem passa við heildina. Ég ákvað að hafa tropical þema sem er alveg tilvalið á sumrin og er svo skemmtilegt. Ég pantaði flest allt skrautið að utan til að spara mér smá pening en það er svakalegur verðmunur á t.d. blöðrum hér heima og ég mun láta alla linka fylgja með neðar í færslunni.
Veitingarnar gerði ég flestar sjálf en ég viðurkenni að eldamennska er ekki mín sterka hlið og ég var því búin að ákveða að vera með nóg af mojito og makrónum því þá myndi allt hitt líta vel út sem það svo gerði, veitingarnar slógu allar í gegn. -Tek þær líka allar saman neðar í færslunni.
Hér má sjá smá moodboard sem ég byrjaði að setja saman löngu áður, svona er ég bara gerð mér finnst alveg agalega skemmtilegt að spá í skreytingum og finnst þær oft vanmetinn partur í veislum.
Þegar ég skoða þessar myndir í dag þá er þetta nánast alveg sami fílingur og ég var svo með en hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr sjálfu boðinu. Það sem ég pantaði að utan var fyrst og fremst bleikur flamingófugl (!) mögulega óþarfi en ég hef alveg hrikalega gaman af svona dóti, svo gylltar “Happy birthday” blöðrur ásamt risastórum “30” ára blöðrum, bleikar blöðrur, hvítar veifur og tropical laufblöð. Ég tek það fram að ég sendi mitt á vinkonu í UK sem sameinaði alla pakkana og sendi mér sem gjöf.
Þetta var ekki matarboð en þó er alltaf gaman að geta boðið upp á veitingar til að enginn verði svangur. Það sem ég bauð upp á voru makrónur frá Ellu, tómatcrostini með þeyttum fetaost, ofur ljúffengt brauð ala mamma -uppskrift síðar því það báðu allir gestirnir um hana, lakkrískubba, döðlu og ólífupestó, ofnbakaðan brie með mango chutney og ostadisk með vínberjum, melónu og parmaskinku. Ásamt því var Mojito bolla, hvítvín og óáfengt fyrir óléttu vinkonurnar:)
Servíetturnar eru úr Söstrene Grene, dúkurinn frá Hay og litlu bleiku flamingóarnir eru úr Tiger
Ég er búin að fá margar fyrirspurnir varðandi glasaskrautið sem heitir Bongó blíða en þetta er íslensk hönnun sem er því miður hætt í framleiðslu. Þetta fékkst í Spark design space fyrir nokkrum árum og mér áskotnaðist heill bunki af þessu fyrir 25 ára afmælið mitt og á þetta því ennþá til ofan í skúfffu. Algjörlega æðisleg hönnun sem mætti vel vera enn í sölu:)
Veitingarnar gerði ég flestar sjálf en leyfði mér þó að kaupa makrónur til að setja punktinn yfir i-ið, mér þykja þær vera guðdómlega góðar og svo eru þær svo hrikalega fallegar á veisluborðið. Ég fékk mínar hjá Ellu franskar makrónur -þið finnið hana á facebook, en hafði heyrt mjög gott af þeim látið og þær voru algjört æði, og ég má til með að mæla með þeim! Ég valdi saltkaramellu, lakkrís og hindberja makrónur og fékk líka að velja litina. Mmmm ég er í alvöru ennþá að hugsa um þessar makrónur. Þær eru í raun líka tilvalin tækifærisgjöf, t.d. til að taka nokkrar með í matarboð og færa gestgjafanum:)
Þegar leið á kvöldið urðu 30 blöðrurnar hin besta skemmtun og mjög fínt myndaprops en ég er ekki ennþá búin að taka niður veifurnar né blöðrurnar, finnst óvenju skemmtilegt að vinna heima þessa dagana;)
Fyrir áhugasama þá er þessi geggjaði marmarabakki úr Kokku… ég elska hann í tætlur:) P.s. ég vil taka það fram vegna fyrirspurna að það er aðeins loft í mínum blöðrum enda er helíum gas alltof verðmætt til að eyða í blöðrur:)
Eitt veisluráð sem ég fékk frá mömmu eftir veisluna var að skrifa niður allar veitingarnar, vínið og fjölda á gestum til að eiga til fyrir næstu veislu sem ég kem til með að halda, þá veit ég hvað hefði mátt fara betur og hvað hefði mátt vera til meira eða minna af. Fínt ráð fyrir okkur sem erum ekki þaulvanir partýhaldarar en ég lenti í miklum tímaþröng því ég var alveg búin að vanmeta tímann sem fór í undirbúning og þurftu því fyrstu gestirnir að klára að græja með mér ýmislegt. Mun klárlega skrifa það niður að byrja fyrr á næstu veislu til að hafa þá tíma til að gera sjálfa mig reddý og klára allar skreytingarnar sem ég ætlaði að búa til en náði svo ekki. Er annars mjög sátt með útkomuna og átti alveg magnað kvöld♡
Ef þið höfðuð gaman af færslunni megið þið endilega smella á like hnappinn hér að neðan eða skilja eftir nokkur orð, það er alltaf svo gaman að heyra í ykkur!
Skrifa Innlegg