fbpx

DRAUMAVINKONUFRÍ TIL KÖBEN & FALLEGA VIPP CHIMNEY HOUSE

Persónulegt

Nú er mánuður liðinn frá einni skemmtilegustu ferð sem ég hef farið í og þá er tilefni til að taka saman nokkrar myndir og rifja upp góðar minningar. Við Andrea, Aldís og Elísabet heimsóttum glæsilega Chimney House sem er í eigu danska hönnunarmerkisins Vipp og er í raun eitt af nokkrum hótel gistingum sem þau bjóða upp á og er ekkert nema stórkostlega fallegt. Vönduð hönnun var í hávegum höfð og dönsk nútímalist í hverju rými, sannkölluð upplifun fyrir alla fagurkera að gista á slíkum stað og fá innblástur. Hér var mikið hlegið og eins og sjá má þá voru einnig teknar “nokkrar” myndir en það er ekki á hverjum degi sem við ferðumst með einum besta og skemmtilegasta ljósmyndara landsins, henni Aldísi okkar sem var alltaf með vélina á lofti ♡

Tilgangur ferðarinnar var einfaldlega að njóta í góðum félagsskap, sofa vel, borða góðan mat og skoða hönnun, list og tísku. Þessi ferð gaf svo mikið í minningarbankann og bætti einnig við nokkrum broshrukkum. Takk fyrir mig kæru vinkonur,

Myndir hér að ofan eru eftir elsku snillinginn hana Aldísi Páls ljósmyndara með meiru. Í svona fallegu húsi var varla annað hægt en að mynda hvern krók og koma og dást að hönnuninni. Myndirnar hér að neðan eru svo símamyndir frá ferðinni – sitthvað úr öllum áttum, af húsinu, frá verslunarferðum og fleira ♡

Upphaflega var Chimney House byggt árið 1902 sem vatnsdælustöð og hafði staðið autt í mörg ár þegar Vipp keypti húsið og fékk það danska arkitektinn Studio David Thulstrup til að endurhanna það sem glæsilega Vipp gistingu. Haldið var í sjarma gömlu byggingarinnar og hár reykháfur sem Chimney House dregur nafn sitt frá fær sín vel notið á móti nútímalegri viðbótinni. Stærðarinnar stálstigi er hjarta hússins í dag og tengir saman opið eldhúsið og stofurými við glæsilega efri hæð sem skartar rúmgóðum svefnherbergjum, annað með skemmtilegt útsýni yfir borðstofuna og hitt með litlum svölum sem horfir yfir hverfið og er einnig með walk inn fataskáp. Húsið er allt innréttað með Vipp vörum og fer þar fremst í flokki Vipp eldhúsinnréttingarnar sem þykja mjög eftirsóttar. Það var algjör draumur að gista hér og upplifa einstakan arkitektúr og hönnun á þennan hátt. 

Mikið vona ég að ég fái að endurtaka svona skemmtilega vinkonuferð en fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur Vipp hótel gistingarnar þá mæli ég með því að smella hér

Ég hef undanfarnar vikur verið mikið í Danmörku og kem til með að deila með ykkur fleiri myndum þaðan á næstu dögum. Kaupmannahöfn er í miklu uppáhaldi og að fá að njóta hennar í góðum félagsskap er best í heimi að mínu mati!

BYLOVISA - EIN FALLEGASTA SKARTGRIPAVERSLUN LANDSINS

Skrifa Innlegg