fbpx

FEBRÚAR : UPPÁHALDS

Persónulegt

Þið eruð líklega eftir að halda að þið séuð stödd á vitlausu bloggi miðað við færsluna – en nei þetta er ennþá bara ég en komin í örlítið annan gír svona uppá síðkastið. Ég hreinlega get ekki að því gert en heilsan og líkaminn hefur átt hug minn allan í febrúarmánuði og því er “uppáhalds” listinn minn að þessu sinni örlítið litaður af því. Ég vil ekki tala um þetta sem Meistaramánuð þó svo ég taki svo sannarlega þátt í því snilldar átaki en það sem ég er að gera nær töluvert lengra en einn mánuð, tjahh ég var svona að vona út lífið. Það eru nokkrir hlutir sem ég hef tekið ástfóstri við undanfarið og fá nokkrir af þeim hlutum að rata inn á listann.

februar

Ég er að vinna í því að koma mér upp hollari venjum og koma í leiðinni hreyfingu inn í mína daglegu rútínu eftir ótrúlega langt hlé – engar öfgar, bara hollur matur og hreyfing samkvæmt ráðleggingum þjálfara. Ég hef fallið nokkrum sinnum síðan ég byrjaði um miðjan janúar en þó tekst mér alltaf að standa upp aftur og það er það sem skiptir máli. Þrátt fyrir að ég ætli alls ekki út í neitt spjall hér og nú um kíló og slíkt þá get ég sagt að vá hvað ég finn mikinn mun á mér eftir að ég minnkaði sykurinn, þá á ég við andlegu heilsuna. Það sem ég er orkumeiri og léttari í lund – þvílík dásemd. – Vonandi meira um það síðar!

// 1. Ég hef varla tekið af mér trackerinn sem ég fékk í jólagjöf frá foreldrum mínum. Svona trackerar/armbönd hafa hingað til ekkert heillað mig vegna of íþróttalegs útlits en ég er mjög skotin í þessu, bæði vegna þess að mér þykir það vera fallegt sem armband eitt og sér en einnig vegna þess að með því fylgist ég með hversu mikið ég geng og hvernig svefn ég fæ. Keypt í USA í Micheal Kors. 

// 2.  Ekki beint heilsutengt, en það að hafa sig til og eyða nokkrum auka mínútum á dag í að snyrta sig, lakka neglurnar, skrúbba húðina og hugsa um hárið – það skilar sér í betra sjálfstrausti. Síðan ég keypti mér þennan lit, Ladylike frá Essie hef ég ekki sett neitt annað á neglurnar og er bálskotin í þessum lit.

// 3. Það að skrúbba húðina er eitt besta dekrið og ég finn rosalegan mun á húðinni minni eftir að ég fór að mæta í ræktina og fer síðan beina leið heim í sturtu og skrúbba húðina vel til að koma blóðflæðinu af stað en einnig til að vinna á appelsínuhúð. Hún Theódóra mín hjá Angan gaf mér þennan saltskrúbb og mér finnst hann æðislegur. Fæst m.a. í Snúrunni. 

// 4. Þráðlausu heyrnatólin mín eignuðust nýtt líf eftir að ég byrjaði aftur í ræktinni og ég ætlaði varla að trúa því eftir æfingu hvað ég tók mikið betur á með mína uppáhalds tónlist í eyrunum algjörlega ein í mínum heimi. Áður voru þau aðeins notuð á ferðalögum ásamt því að vera svona líka fínt heimilispunt haha. H8 heyrnatól frá B&O fást á Íslandi í Ormsson. 

// 5. Skipulag, skipulag, skipulag. Eitt af mínum markmiðum í Meistaramánuðinum var að ná betri tökum á skipulagi og ég get ekki sagt annað en að ég sé að minnsta kost á réttri leið. Munum dagbókin mín er alltaf uppivið:)

// 6. Þið megið kalla þetta það sem þið viljið…  en ég viðurkenni alveg að mér líður vel með fallega hluti í kringum mig og það hefur alltaf verið þannig. Og það að hafa holl fræ, hafra, kókos og fleira í fallegum krukkum hefur mjög hvetjandi áhrif á mig til að borða það frekar en annað. Ég þarf meira að segja að bæta við fleiri glærum Iittala Kastehelmi en þær eru uppáhalds – láta allt líta svo girnilega út!

// 7. Ég keypti mér þessa Nike æfingarskó á klink í Boston fyrir jólin og hef verið í þeim síðan, það má líklega deila um það hvort þetta séu bestu æfingarskórnir en það er annað mál haha. Ég er sátt!

// 8. Og síðast en ekki síst þá verður þetta ilmvatn að rata á listann áður en ég klára síðustu dropana. Ég fæ æði fyrir ilmvötnum og vil helst bara nota þann ilm í nokkur ár helst og núna er það Bronze Goddess frá Estée Lauder. Þetta er mín önnur flaska sem ég er að klára og best er að lýsa ilminum eins og sumar í flösku mmmmm. Þarf að næla mér í þriðja glasið sem fyrst ♡

Svo langar mig til þess að bæta við einum auka uppáhalds “hlut” en það eru þessar elskur hjá Fitsuccess sem hafa tekið mig undir sinn væng. Ég þarf reyndar helst að eiga til eintak af þeim öllum ofan í vasa svona þegar ég þarf á smá sparki að halda, mikið sem það væri nú ljúft.

screen-shot-2017-02-21-at-15-34-27

En ég stend víst og fell með sjálfri mér þó svo ég sé töluvert öruggari með þessar mér við hlið. Mig langaði bara agalega mikið til að sýna ykkur nýju vinkonur mínar haha – fyrir áhugasama þá eru fleiri upplýsingar að finna hér. Áfram gakk!

svartahvitu-snapp2-1

ENN EITT MEISTARAVERK JAMIE HAYON

Skrifa Innlegg