Páskarnir eru rétt handan við hornið og sumir eru jafnvel nú þegar komnir í páskafrí. Þá er tilvalið að byrja á því að huga að páskaskreytingum, það er eitthvað svo voðalega huggulegt við það að útbúa smá heimaföndur fyrir páskana bæði til að skreyta greinar með og einnig til að skreyta veisluborðið. Handmáluð egg er algjör klassík en einnig er hægt að teikna á þykkan pappír eða klippa út falleg mynstur, setja í þráð og hengja á greinar sem standa í vasa. Svo getur verið mjög smart að hafa fjaðrir til skrauts, þá í litlum vasa, hengdar á grein eða sem borðskraut. Ég sé fyrir mér að reyna í ár að fá litla gorminn minn og son systur minnar til að skreyta egg aðalega upp á sportið en við reyndum einnig í fyrra þrátt fyrir takmarkaða listræna hæfileika hjá hálfs árs barni:)
Hér hafa handmáluðu eggin sett sinn svip á veisluborðið og búið að klippa út marmara egg til að hengja á greinarnar.
Það getur verið fallegt að notast við sömu litapallettuna með öll eggin en þó með ólíkum mynstrum.
Ferm Living er svo meðetta eins og svo oft áður en allar þessar myndir eru úr þeirra smiðju.
Ég kem ekki til með að halda páskamatarboð með steik og öllu tilheyrandi, en það þýðir þó ekki að ég geti ekki skreytt veisluborð. Það er tilvalið að nýta frídagana og bjóða vinum eða fjölskyldu í páskabröns og hvað er þá betra (fyrir utan félagsskapinn) að vera með smekklega skreytt páskaborð!
Þá vitum við hvað við þurfum að gera á næstu dögum… skreyta egg!
Eigið annars ljúfa helgi x
Skrifa Innlegg