Á miðbæjarrölti mínu síðustu daga í kringum Hönnunarmars komst ég ekki hjá því að rekast á nýopnaða My concept store verslun á Laugaveginum. Upphaflega fylgdist ég spennt með framkvæmdunum sem ég gerði aldrei ráð fyrir að gætu tekið enda fyrir Hönnunarmars, en jú það rétt tókst fyrir horn og opnaði búðin á laugardaginn var.
Það fyrsta sem ég rak augun í var að sjálfsögðu fronturinn á húsinu, þarna hafa ýmsar verslanir verið þar sem lítið var hugsað um heildarumgjörðina. En Heiða og Eiríkur eigendur verslunarinnar eru fagurkerar miklir og létu mála allan frontinn í fallegum dökkum lit ásamt því að setja upp fulningar sem gefa versluninni dálítinn Parísarbrag að mínu mati.
Mér leið dálítið eins og ég væri í útlöndum þarna inni, stemmingin er ólík því sem við erum vön í verslunum hér heima, þægileg stemmingstónlist og fullt af vörum sem stilltar eru upp eins og hver og ein þeirra sé einstök…sem að margar þeirra eru reyndar:)
Dökki liturinn teygir sig inn í verslunina þar sem veggir, loft og innréttingar eru einnig dökkmálaðar. Ljósmyndin eftir Sissu sem hangir á veggnum setur alveg punktinn.
Allskyns fallegar ljósmyndabækur.
Þessir loftbelgir bræða mig, einn svona í barnaherbergið takk:)
Prentaraskúffur (að öllum líkindum kallað eitthvað annað), en engu að síður ótrúlega fallegt húsgagn og þetta eintak eflaust nokkurra tuga ára!
Þessi hátalari er kominn á óskalistann, þvílík fegurð.
Ég mæli með að kíkja á Laugaveginn á þessa fegurð, þvílík lyftistöng fyrir bæjarlífið sem svona fallegar verslanir geta verið. Og mikið verð ég ánægð þegar verslunareigendur sýna ábyrgð og leggja sitt að mörkum til að bæta götuna með því að hugsa ekki aðeins um innanhússhönnunina heldur líka um útlitið utan frá.
Fleiri svona “Parísar” búðir í miðbæinn takk!
P.s. til að koma í veg fyrir misskilning þá verður gamla My concept store verslunin ennþá opin við Nýbýlaveg, ég kannaði það einmitt:)
-Svana
Skrifa Innlegg