VINNINGSMYNDIN Í #BYKOTREND LEIKNUM

Þá er loksins komið að því að tilkynna sigurvegara í Instagram leiknum #BYKOTREND sem staðið hefur yfir síðustu vikur. Ég fékk að vera gestadómari ásamt aðilum frá Byko og hef ég því legið yfir innsendum myndum síðustu daga og skemmt mér stórvel, ég hef nefnilega einstaklega gaman af því að sjá fyrir mér hvað hægt er að gera við þreytt rými sem þurfa á smá breytingum og ást að halda. Nokkrar innsendar myndir voru svo ótrúlegar að ég gat ekki hætt að hugsa um þær og velt því fyrir mér hvað tískan breytist mikið, það að brún baðherbergi með brúnum innréttingum og hreinlætistækjum frá sjöunda áratugnum hafi þótt smart einu sinni þykir mér mjög skemmtileg tilhugsun og fær mig til að brosa. Hversu langt ætli sé þangað til slíkt kemst aftur í tísku?

Það voru ótrúlega margir sem tóku þátt enda vinningurinn afar glæsilegur, 100.000 kr. inneign í Hólf og Gólf í Byko sem kemur sér eflaust vel fyrir þá sem eru í framkvæmdarhugleiðingum. Það er líka gaman að minnast á að í Hólf og Gólf deildinni starfar stílisti sem gefur ráðgjöf varðandi gólfefni, liti á veggjum og innréttingum sem er frábært fyrir þá sem hreinlega vita ekki hvar skuli byrja í framkvæmdum!

Það var ein #Bykotrend mynd sem stóð upp úr og hlaut yfirburðakosningu dómnefndar og var það þessi hér,

@Sollabergs

“Iðnaðarteymið er óstöðvandi og undirbýr komu nýrra hurða! Nýtt klóak og dren, lagnir í gólf og nýir veggir. Við erum daglegir heiðursgestir í Byko þar sem okkur er heilsað með nafni og eftir 4 mánaða hark er íbúðin að taka á sig mynd þó það sé vissulega nóg eftir eins og sést.. “

Það er ómetanlegt að eiga góða að þegar staðið er í framkvæmdum og þessi mynd af þeim feðginum heillaði mig, falleg stund þar sem pabbinn hjálpar dóttur sinni að taka í gegn íbúðina sína. Stelpur geta allt eins og við öll vitum og kannski er @sollabergs þarna að kenna pabba sínum réttu tökin með borvélina að vopni;)

 

Til hamingju með vinninginn Sólveig Bergsdóttir, mikið væri gaman að fá að fylgjast áfram með framkvæmdunum hjá þér.

10 TRYLLT LJÓS

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

 1. Guðrún Gunnarsdóttir

  22. April 2017

  Hún Solla er svo sannarlega búin að standa sig vel frá fyrsta degi – líklega þarf hún einungis að taka 101 í flestum iðnskólagreinum varðandi smíðar, flísalagnir, innréttingar, röramál og fleira og fleira – eða jafnvel bara sækja diplómaskírteinið :)

  • Svart á Hvítu

   24. April 2017

   Haha en frábært:) Gott að vinningurinn fór á svona góðann stað!
   -Svana