fbpx

TOPPLISTINN #1

Persónulegt

Sambloggarar mínir á Trendnet hafa oft skrifað svo skemmtilegar færslur sem ég hef svo gaman af, þar má nefna t.d. Helga Ómars og Hildi Sif. Dálítið brot úr lífi – núna. Ég ætla að prófa ♡

Ég er að hlusta á : Snæbjörn talar við fólk, Rut Kára. Vá þetta er einn áhugaverður hlaðvarpsþáttur, Ítalska mafían, byssur, hönnun, heimili, greifingi – blanda sem ég vissi ekki að væri til. Rut Káradóttir kemur svo sannarlega á óvart!

Föt dagsins: Þröngar íþróttabuxur og kósý peysa er staðalbúnaður – er einnig búin að taka ástfóstri við lillabláu húfuna mína frá Andreu og lillabláa trefilinn minn í stíl sem poppar upp dressið þegar ég er á leið út. Ég bíð þó spennt eftir að AndreA framleiði trefla í nýja lillabláa litnum. Minn trefill er frá Asos úr 100% polyester og þannig efni eru ekki langlíf, en ég á bleikan trefil frá Andreu úr 100% bómull sem ég hef notað í mörg ár. Gæði skipta máli og ég er oftast mjög meðvituð um það, en gerði skyndikaup með þennan “plast” trefil minn því ég var sko skotin í litnum haha. Fjólublái liturinn er gleðilitur skal ég segja ykkur – mæli með í skammdeginu! 

Skap dagsins: Svo ótrúlega gott – undanfarnir mánuðir finnst mér ég hafa verið frekar dofin. Fæðingarorlof, lítill svefn, ástandið í þjóðfélaginu og að missa ömmu og afa tók mjög stóran toll og finnst ég fyrst núna farin að kannast aftur við mig. Svo góð tilfinning en tók sinn tíma.

Lag dagsins: Spurningar með Birni og Páli Óskari. Þetta er ekki beint tónlistin sem ég hlusta venjulega á – en það hitti í mark og kemur mér í svo gott skap samstundis. Einnig Ef ástin er hrein með Jón Jónssyni og GDRN, svo ótrúlega fallegt. 

Það sem stóð uppúr í vikunni: Að hafa keypt nýjan blandara eftir að ég braut minn í desember þegar ég setti hann í gang með skeið ofan í (típískt ég haha). Mikil gleði skal ég segja ykkur að fá aftur boost! Og að fá uppáhalds dagbókina mína í hendurnar frá MUNUM sem ætlar að koma mér í gegnum þetta þokutímabil. Lagði einnig inn pöntun fyrir draumaljósinu mínu sem ég er ótrúlega spennt að fá heim.

Matur dagsins: Boost með kaffibragði…. ég slumpa yfirleitt einhverju saman, kaffi, vanilluskyr, frosið mangó, banani, hnetusmjör og annað ef til. Mjög gott!

Óskalisti vikunnar: Ég skrifaði færslu í gær með óskalistanum mínum sem finna má hér. Þar má finna ýmislegt fallegt ♡

Plön helgarinnar: Fullt skemmtilegt, bröns með vinkonum, gistipartý heima með Bjarti Elíasi og uppáhalds frændanum, og svo er ég einnig að aðstoða mömmu með bás í Extraloppunni þar sem við ætlum að selja fallegar flíkur af ömmu skvísu (langmest var gefið) en þarna eru allskyns fallegar úlpur og vesti (fleirtala) frá Uniqlo og vandaðar blússur fyrir smekklegar konur.

Þetta var skemmtilegt – held ég skrifi oftar færslur í þessum dúr. Eigið góða viku kæru lesendur!

Á FEBRÚAR ÓSKALISTANUM

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Sigrún Víkings

    4. February 2021

    Elska að fá svona viku update! :D

    • Svart á Hvítu

      5. February 2021

      Já!:* sendi þér annars bara bréf með þessum lista til Svíþjóð og fæ á mót frá þér haha!