Ef það er eitthvað sem ég virðist aldrei fá nóg af þá eru það ilmkerti eða annarskonar heimilisilmir. Núna þessa stundina er ég með um 5 ólík ilmkerti um alla íbúð og hef ég einnig farið í gegnum margar aðrar tegundir í gegnum tíðina og nýti öll tækifæri til að finna nýja góða ilmi. Ég ákvað að taka saman nokkur sem standa upp úr hjá mér en ilmkerti og ilmstangir er eitthvað sem flestir geta á sig bætt þrátt fyrir að “eiga allt” svona fyrir ykkur sem eruð í jólagjafahugleiðingum.
1. Ég verð að byrja listann á jólakertinu frá Skandinavisk, ég fékk mér eitt slíkt síðustu jól og það eru allar líkur á því að ég kaupi mér annað í ár, þetta eru einfaldlega jólin í krukku svo jólalegur er ilmurinn. Fæst í Epal. // 2. Tom Dixon ilmkertin heilluðu mig upphaflega útaf fallegu krukkunum en ilmirnir eru ekki síðri. Fást í Lúmex og Epal. // 3. Home ilmlínuna frá Laugar Spa varð ég líka að prófa og hún er æði, við skulum reyndar ekki ræða hversu sjaldan ég hef farið í ræktina á árinu, en í eitt af þeim skiptum þá kom ilmurinn Lemon grass með mér heim, einstaklega frískur og góður. Fæst í Laugum Spa. // 4. Ég vann í verslun sem seldi Scintilla vörur þegar ég kolféll fyrir kertunum frá þeim, ilmurinn er mjög sérstakur en afskaplega góður, reynt var að fanga ilm íslenskrar náttúru í kertalínu og þetta er útkoman. Fæst hjá Scintilla. // 5. Við erum ófá sem elskum Völuspá kertin, ég hef hingað til alltaf keypt mín erlendis og hef prófað margar týpur frá þeim, þessi fersku þ.e. berjailmirnir standa uppúr hjá mér. Völuspá fæst t.d. í Aftur, Maia og Kastaníu. //
Fínni ilmkerti og ilmstangir kosta oftast örlítið meira en önnur vörumerki, það er alveg vel hægt að kaupa sér ódýra ilmi fyrir heimilið, en það þarf að hafa í huga að þessi kerti hér að ofan brenna hægar og betur og ilmurinn endist því lengur:)
Skrifa Innlegg