fbpx

TENERIFE ♡

Persónulegt

screen-shot-2017-04-03-at-15-04-03

Mynd: Instagram.com/svana.svartahvitu

Tenerife ferðin okkar fjölskyldunnar var alveg fullkomin en við komum aftur heim um helgina eftir vikudvöl í sólinni. Ferðin var þó mögulega of stutt ef eitthvað er, en eftir 5,5 klst flug þá er vika í rauninni alltof stutt, sérstaklega með einn lítinn. Við fórum líka í fyrra til Tenerife og ákváðum að gista aftur á sama hótelinu sem hafði heillað okkur svona mikið, hótelið heitir Mediterranean Palace og er alveg við Amerísku ströndina og verslunargötuna “Laugaveginn” og er að mínu mati alveg frábært hótel og fullkomið fyrir barnafjölskyldur. Hótelið er systurhótel Cleopatra hótel sem er á bakvið Hard Rock en það hótel var ekki jafn barnvænt en höfðum við einnig aðgang að sundlauginni þar sem var virkilega falleg en mikið hafði verið lagt upp úr útliti hótelanna beggja. Ef þið eruð að leita ykkur að hóteli þá mæli ég mjög mikið með þessu hóteli, sjá hér hjá booking, en einnig á heimasíðu hótelsins þaðan sem við bókuðum herbergið. Mediterranean er ekki endilega ódýrasta hótelið en miðað við tímann sem maður eyðir á hótelinu og sérstaklega við sundlaugarbakkann þá vorum við tilbúin að eyða örlítið meira fyrir mjög góða aðstöðu og staðsetningin var frábær. Það er rosalega mikið að gera fyrir börn þarna og ég trúi því varla að önnur hótel bjóði upp á sambærilega aðstöðu. Risa krakka klúbbur með ólíkum leikstöðvum og margt starfsfólk og fjölmargir gestir sem skildu börnin eftir heilu dagana – þó svo að ég hafi aldrei skilið Bjart eftir.  Krakkadiskó öll kvöld og svo margt margt fleira í boði fyrir gamla sem unga:)

Ég varð alveg ástfangin af Tenerife eftir fyrstu ferðina okkar þangað í fyrra, en ég hafði áður smá fordóma viðurkenni ég fyrir svona sólarstöðum og kaus frekar stórborgarferðir og meiri menningu. En að fara með barn á svona stað er algjör draumur, þar sem nánast allt er í göngufæri, alltaf gott veður, og ég upplifði okkur mjög örugg þarna og Bjartur fékk að hlaupa um eins og hann vildi. Þar fyrir utan er Tenerife, sérstaklega við Amerísku ströndina, ótrúlega hreinlegur staður og snemma á morgnanna er hægt að rekast að þrífingarkonur skúra marmarann á göngugötunni – magnað.

Þetta var algjör afslöppunarferð og kom ég alveg endurnærð til baka með nokkrar freknur á nefinu. Ég er strax farin að láta mig dreyma um næstu ferð en þá ætla ég að draga systur mína ásamt fjölskyldu með því eini mögulegi gallinn við ferðina var sá að það hefði verið skemmtilegra hefði Bjartur beib haft leikfélaga ♡

Ef þið hafið einhverjar spurningar um þennan paradísar stað – skiljið endilega eftir athugasemd hér að neðan og ég reyni mitt besta að svara.

Núna hefst því strembin vinnuvika en það er alltaf dálítið erfitt að rífa sig í gang eftir svona notalegt frí og ég tala nú ekki um mælinguna sem er framundan hjá Fitsuccess.is – en það er ansi erfitt að halda sér á beinu brautinni í sólarfríi og er ég því spennt að sjá árangurinn! En margt spennandi í vinnslu fyrir bloggið og á morgun kemur inn djúsí gjafaleikur með einu uppáhalds vörumerkinu mínu í öllum heiminum…svartahvitu-snapp2-1

VELÚR & GYLLT SMÁATRIÐI

Skrifa Innlegg