Í gær fékk ég loksins langþráðan pakka sendan frá Danmörku en í honum leyndust gögn fyrir námið mitt til að ég geti loksins byrjað, tollurinn er nefnilega svo dásamlegur að hann ákvað að sitja aðeins á þessu svakalega góssi mínu og leyfa mér að bíða bara örlítið lengur til að geta hafið lærdóminn. Það gerðist svo reyndar annað alveg stórmerkilegt í gær en það var að ungfrú Svana ákvað að byrja aftur í ræktinni eftir að hafa tekið pásu frá því að ég var gengin 39 vikur á leið… og reikniði nú hversu langt það er síðan ég hreyfði mig almennilega:) Þannig að í dag er ég sest aftur á skólabekk og byrjuð á enn einu áramótaheitinu sem var heilsan! Ég er ekki frá því að ég finni mun, (róleg ekki útaf ræktinni) heldur það að vera komin með smá tilbreytingu í hversdaginn, það er nefnilega ansi ljúf tilfinning, mæli svo sannarlega með því að breyta til, þó svo að það sé bara eitthvað örlítið. Ég hef nefnilega fundið fyrir örlitlu andleysi undanfarið (já það má viðurkenna það) sem ég þurfti að rífa mig uppúr. Kannski spilar reyndar þar inní að ég er í tvíburamerkinu og get ekki verið of lengi í sama farinu áður en ég kafna eða mögulega stress sem ég hef verið undir uppá síðkastið. Svo er ég ekki frá því að ég hafi fengið smá vorfíling í mig í morgun þegar ég opnaði út… er ég nokkuð orðin full bjartsýn?:)
Hér er annars eitt fallegt heimili í tilefni dagsins áður en ég sný mér aftur að vinnu, úr smiðju einnar afar smekklegrar hennar Pellu Hedeby.
Þessi heimaskrifstofa hennar fær 5 stjörnur, ég ákvað að láta fylgja með restina af heimilinu þó svo að mig gruni það að ég hafi birt brot af því áður. Það er þó svo smart að svona heimili er hægt að skoða aftur og aftur.
Myndir via
Ég er síðan að fara að byrja með mjög skemmtilegan og nýjan lið hér á blogginu, það var aldeilis kominn tími á eitthvað nýtt og ferskt. En ég ætla að fá að fylgjast með vinafólki okkar Andrésar taka í gegn sína fyrstu íbúð! Það er alltaf jafn gaman að skoða fyrir og eftir myndir en það er enn skemmtilegra að fá að fylgjast með öllu ferlinu frá A-Ö og fá góðar hugmyndir, ég er að minnsta kosti mjög spennt fyrir þessu og vona að þið fylgist með. Fyrsta færslan birtist í kvöld!
Skrifa Innlegg