Mmmmm ég hætti ekki að hugsa um þessa ljúffengu köku sem ég er nú þegar búin að baka tvisvar sinnum í sömu vikunni. Uppskriftin kemur upphaflega frá Guðrúnu Ýr sem heldur úti matarblogginu Döðlur og smjör og gaf mér góðfúslegt leyfi til að deila með ykkur. Afmælin okkar Birtu voru í síðustu viku (bloggfærsla um þau á leiðinni) og mér finnst alveg nauðsynlegt að bjóða líka uppá sykurlausar kræsingar við slík tilefni.
Í uppskriftina má að sjálfsögðu nota gott súkkulaði sem er ekki endilega sykurlaust, en ég kýs að nota sykurlaust Valor súkkulaði sem ég held mikið uppá og á alltaf til í mínum skúffum *samstarf.
Döðlukaka // upphaflega frá Döðlur & Smjör blogginu
1 dl döðlumauk (6 ferskar döðlur & u.þ.b. ½ vatn)
4 eggjahvítur
100 g döðlur, saxaðar
50 g Valor sykurlaust súkkulaði (hægt að nota venjulegt suðusúkkulaði)
1 dl kókosmjöl
Setjið saman döðlur og vatn í pott á miðlungs stillingu og leyfið að malla þangað til það er orðið að mauki. (Mér finnst best ef ég á ekki til ferskar döðlur að saxa allar döðlurnar og bæta út í döðlumaukið ásamt smá aukavatni og kremja létt með sleif eða skeið þegar þær hafa mallað smá.) Þannig blandast döðlurnar betur við kökuna.
Stillið ofn á 170°c blástur.
Stífþeytið eggjahvíturnar, hægt er að kaupa saxaðar döðlur en ef þið notið heilar skerið þær niður í litla bita ásamt súkkulaðinu. Setjið döðlumaukið, döðlurnar, súkkulaðið og kókosmjölið saman við eggjahvíturnar og hrærið varlega saman með sleikju.
Spreyið 20 cm form að innan en einnig hægt að setja bökunarpappír í botninn. Skellið deiginu í formið og bakið í 15-20 mín. Leyfið kökunni að kólna.
Krem
100 g dökkt súkkulaði – Ég nota Valor sykurlaust ýmist ljóst eða dökkt:)
2 msk kókosolía
½ dl kókosmjólk (hægt að nota rjóma líka að mínu mati)
Setjið hráefnin saman í skál og bræðið saman yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni, leyfið því að kólna og taka sig í smá tíma, dreyfið kreminu síðan yfir kökuna.
Dásamlega góð kaka sem ég féll kylliflöt fyrir. Eina breytingin sem ég gerði er að nota sykurlaust súkkulaði og nota þá yfirleitt það sem ég á til af Valor í skúffunni, stundum með fyllingu eða hreint mjólkur- eða dökkt súkkulaði. Get sagt ykkur að allar útkomur eru góðar! Einnig hef ég prófað með ferskum og þurrkuðum döðlum, og finnst áferðin með ferskum döðlum nær skúffuköku því þá blandast allt svo vel saman, eða þá að hita þær þurrkuðu í potti með döðlumaukinu og smá aukaskvettu af vatni.
Mmmmm.
Ég er í samstarfi í dag við Valor – eftir langan tíma að hafa elskað þetta súkkulaði og keypt sjálf hundrað stykki.
Uppskriftin er mjög einföld og hver sem er getur bakað þessa snilld!
Mæli svo sannarlega með að prófa og berið fram með rjóma!
Eigið góðan dag kæru lesendur – fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg