fbpx

SPENNANDI TINNA MYNDLISTARSÝNING Í EPAL GALLERÍ

Í gær opnaði myndlistarsýningin Tinni á Íslandi í Epal Gallerí og stendur sýningin yfir dagana 2. júní – 31. júlí.
Ég er alveg innilega heilluð af þessum verkum og er að sjá Tinna í alveg splunkunýju ljósi, en ég man helst eftir bókunum um ævintýri Tinna frá því í æsku heima hjá ömmu og afa en það er einhver viss nostalgía sem fylgir þessum teikningum í dag og skemmtilegt að sjá aðalsöguhetjuna í íslensku umhverfi. Virkilega flottar og líflegar myndir sem mættu svo sannarlega prýða mitt heimili.
Sýningin samanstendur af verkum eftir Óskar Guðmundsson þar sem hann hefur komið með Tinna og félaga heim til Íslands. Óskar var frá barnsaldri mikill Tinnaaðdándi og bækurnar lesnar þar til kjölur þeirra gaf sig. Óskar átti sér þann draum heitastan að Hergé myndi senda frá sér bók sem gerðist alfarið á Íslandi. Það rættist að hluta til þegar Tinni og Kolbeinn stöldruðu stutt við á Akureyri í Dularfullu Stjörnunni. Það nægði Óskari ekki sem hefur nú málað og teiknað Tinna og félaga á fjölbreyttum stöðum í íslenskri náttúru.
Óskar hefur málað frá barnsaldri og haldið nokkrar myndlistarsýningar. Hann starfar einnig sem rithöfundur og hefur sent frá sér fjórar spennusögur.
Á sýningunni verða árituð og númeruð grafísk verk ásamt plakötum til sölu. Ég hvet ykkur til þess að líta við og skoða verkin. Epal Gallerí er staðsett við Laugaveg 7, 101 Reykjavík.

Í STÍL

Skrifa Innlegg