fbpx

SNILLDARHÖNNUN FYRIR HJÓLREIÐAFÓLK

HönnunPersónulegt

Það verður að viðurkennast að það er algjört hjólaæði í gangi og hef ég aldeilis þurft að finna fyrir því þar sem að minn maður vill helst vera úti að hjóla í spandex öllum stundum og er genginn í hjólreiðafélag. Það er að skapast skemmtileg hjólamenning en á meðan að margir eru að eltast við racer hjól í dag þá kýs ég bara mitt gamla klassíska götuhjól með blómakörfu á. Ég hef þó í mörg ár átt í smá baráttu við sjálfa mig að þykjast alltaf gleyma hjálminum þegar ég fer út að hjóla, mér hefur nefnilega ekki þótt mjög smart að vera búin að dressa mig upp og hjóla um með blómakörfu en þurfa svo að vera með bláan sporthjálm á höfðinu! Systir mín sem starfar sem hjúkrunarfræðingur hefur jú aldeilis skammað mig fyrir svona hugsunarhátt enda er ekkert grín að vera án hjálms en vandamálið hefur verið að það er hreinlega ekki mikið úrval af hjálmum fyrir okkur hin sem erum ekki alveg tilbúin í þetta sportlúkk. Ég veit að það eru margir þarna úti sem skilja nákvæmlega hvað ég er að meina.

Ekki fyrir svo löngu síðan var hér á blogginu fastur liður þar sem ég tók fyrir flotta hönnun sem vakti athygli mína og núna finnst mér tilefni að endurvekja þann lið. Ég á nefnilega smá séns í hjóladellumanninn minn eftir að ég rakst á þessa snilld hér sem er samanbrjótanlegur hjálmur sem unnið hefur alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaunin frægu og er auk þess til sölu í MoMa hönnunarsafninu í New York þar sem aðeins fæst það besta af því besta í hönnun. En ég endurtek, samanbrjótanlegur hjálmur? Fyrir utan það hvað mér hefur þótt hjálmar oft á tíðum ljótir (sportlegir) þá eru þeir rosalega fyrirferðamiklir og maðurinn sem fann þessa snilld upp á hrós skilið!

   

   

Það að hægt sé að brjóta hjálm saman án þess að minnka öryggi hans er eitt það besta sem ég hef heyrt og það er langt síðan ég rakst á hönnun sem mér þykir svona mikið vit vera í og toppurinn er að geta stungið hjálminum ofan í veski þar sem ekkert fer fyrir honum. Hjálmurinn sem um ræðir er frá spænska fyrirtækinu Closca og hefur hann raðað á sig verðlaunum bæði vegna hönnunar og öryggis.

P.s. þetta hér er dálítið stemmingin sem ég vil þegar ég hjóla, nema þessum skvísum vantar hjálm ♡

Núna verð ég að fá að heyra frá ykkur hvað ykkur finnst um þessa hönnun? Ég er kannski orðin svona smituð af hjólaáhuga fjölskyldunnar en mér þykir þetta algjör snilld og þurfti að “googla” þetta fram og tilbaka til að trúa því að svona hjálmur geti virkilega verið öruggur. Fyrir áhugasama þá fæst hjálmurinn hér heima á Hjólahjálmur.is en þessa færslu skrifa ég aðeins af einlægum áhuga. Ég veit um eina sem er einmitt á leið erlendis í stelpuhjólaferð og hún er eftir að verða jafn skotin og ég.

BLEIK & FALLEG STOFA

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

  1. Elva Björk Sigurðardóttir

    11. May 2017

    Sæl! Mér finnst hjálmurinn smart og er sammála þér varðandi það hvað hjálmarnir eru oftast mjög sportlegir og ljótir. Það er nátturulega aukaplús að þessi er samanbrjótanlegur og tekur þá minna pláss :) Ég myndi hiklaust fjárfesta i einum svona :)

  2. Hrefna Dan

    11. May 2017

    Ég fékk einmitt að vita af þessum hjálmum áður en þeir mættu á íslenskan markað, þar sem að vinafólk mitt er jú fólkið á bakvið hjolahjalmur.is! Þetta er svo brill og ég er einmitt að fara að fjárfesta í einum slíkum.. ég er engin aðdáandi hjólahjálma en þegar Raggi sagði mér frá þessum þá breyttist það.

    Við verðum mega fínar með svona hjálma Svana xx