Ef það er eitthvað trend sem ég myndi vilja sjá taka yfir öll hönnunartímarit og heimili þá væru það rósettur og skrautlistar í loftum. Þó það skuli varla kallast trend því það er fátt jafn klassískt við heimili og einmitt þetta. Ég fell alveg kylliflöt þegar ég heimsæki heimili þar sem rósetta er í loftum, hvað þá fleiri en ein, svo fallegar eru þær. Ég luma á einni slíkri ofan í skúffu sem ég hef lengi verið á leiðinni að smella upp í loft, það sem ég held að stofan mín yrði falleg.
Horfið núna á þessa mynd hér að ofan og ímyndið ykkur að það vanti rósettuna og skrautlistana? Ekki alveg jafn spennandi þá ekki satt.
Þvílík fegurð ♡
Það er varla hægt að fegra heimilið sitt á einfaldari máta en að smella einni rósettu í stofuloftið. Ég prufaði að fletta ‘rósettur’ upp á Google og það virðast fjölmörg fyrirtæki selja slíkt hér heima. Mikið vona ég að þetta verði aftur vinsælt því það var það fyrir einhverjum árum síðan.
En smá af mér… ég hef ekki náð að vera jafn virk hér og ég hefði viljað. Ég er nefnilega að vinna að nokkrum verkefnum í tengslum við HönnunarMars sem hefst núna í vikunni, en ég mun nefnilega missa af hátíðinni í ár vegna utanlandsferðar og er því að vinna mikið fram í tímann. Hinsvegar þá ætlar ein alveg frábær að spreyta sig sem bloggari á Svart á hvítu á meðan að ég verð í burtu. Ég lofaði henni að hún mætti hafa frjálsar hendur en eitthvað verður a.m.k. fjallað um sýningar HönnunarMars, sem er alveg frábært.
x Svana
Skrifa Innlegg