Snillingurinn hún Rakel Tomas var að gefa út sína fyrstu listaverkabók sem ber nafnið Rakel Tomas – Um stundarsakir og er bókin samstundis orðin ein fallegasta bók sem ég hef flett. Í bókinni má skoða teikningar frá árunum 2017 – 2020 og er bókinni skipt upp í kafla eftir árum. Ég hef fylgst með Rakel allan þennan tíma með stjörnur í augum yfir ótrúlegum listrænum hæfileikum sem daman býr yfir og á hér heima tvær innrammaðar teikningar sem fegra svo sannarlega heimilið. Bókin er fallegt stofustáss og það er einstaklega gaman að fletta henni og velta fyrir sér teikningunum og lesa frásagnirnar á bakvið hverja seríu og það var margt sem kom mér skemmtilega á óvart.
Til hamingju elsku Rakel með þennan glæsta áfanga að hafa gefið út þessa veglegu bók. Þvílík fyrirmynd fyrir skapandi fólk og alla aðra, að láta drauma sína rætast og leyfa svona mörgum að njóta með þér ♡
“Ég lagði mikið upp úr hönnuninni á bókinni. Mér fannst mjög mikilvægt að hún væri eiguleg og að það sé upplifun að fletta í gegnum hana.
Innan á kápunni er speglapappír sem tekur á móti lesendanum þegar hann opnar bókina, en speglun og endurtekning er gegnumgangandi þema í verkunum mínum. Mér finnst mjög áhugavert hvernig mannveran notar speglun á líkamstjáningu til að skilja aðra betur. Þegar okkur líkar vel við fólk byrjum við t.d. ómeðvitað að herma eftir líkamstjáningu þeirra.
Skemmtilegast finnst mér samt þegar fólk speglar sig í verkunum mínum. Það er í rauninni það sem spegillinn fremst stendur fyrir. Ég bið fylgjendur mína á Instagram stundum um að túlka verkin mín og svörin eru alltaf mjög ólík þó svo aðeins sé um eina mynd að ræða. Mín kenning er sú að fólk sjái það sem eigin upplifanir eða tilfinningar hverju sinni, þar af leiðandi verði svörin svona ólík.
Textinn í bókinni er mjög persónulegur. Anna Marsibil, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og uppáhalds frænka mín, skrifaði textann og hún tók ruglingslegu frásagnirnar mínar og hnoðaði þær í ótrúlega fallegan texta. Enda þekkir hún mig inn og út. Allt sem gerðist í lífi mínu á þessum tíma sem hafði bein eða óbein áhrif á teikningarnar má finna í bókinni; Ferðasögur um fríköfun og brimbretta-námskeið á Balí og pottapartí á flutningaskipi í San Francisco en líka sögur af allskonar skvísum sem annað hvort brutu mig niður, byggðu mig upp eða bæði.”
Auk þess að gefa út listaverkabókina kemur út vinsæla dagbókin hennar í þriðja skipti og er hún orðin enn veglegri í ár, t.d. með lesborða og teygju utan um bókina til að halda henni lokaðri.
“Mér finnst mjög gaman að listin mín geti verið hluti af daglegu lífi fólks. Fólk gerir dagbókina að sinni og það þykir mér mjög vænt um.”
Tilvalið í jólapakkann! Fæst m.a. í Epal, Hrím, Nomad og Rammagerðinni.
Sjáðu fleiri verk og upplýsingar á www.rakeltomas.com
Skrifa Innlegg