fbpx

JÓLASÆLGÆTIÐ Í ÁR // FYRIR ÞÁ SEM KUNNA EKKERT Í ELDHÚSINU

DIYJólMæli með

Ég hef á síðustu árum komist að því að mínir hæfileikar liggja ekki í eldhúsinu og leita ég því reglulega ráða eða fæ aðstoð hjá systir minni og mömmu sem eru alveg ótrúlegar í bakstri og eldamennsku. Við héldum hinsvegar upp á 4 ára afmæli sonar míns í gær (3 mánuðum of seint) og á vafri mínu á Pinterest í leit að hugmyndum rakst ég á þetta ofur einfalda og fallega piparmyntu jólasælgæti sem mér tókst að búa til á nánast engum tíma og það sló í gegn. Þið hafið líklega mörg nú þegar útbúið svona, eða smakkað. En þetta er hinsvegar glænýtt fyrir mér ♡

Það besta við þetta er að það er hægt að nota hvaða súkkulaði sem er, sykurlaust, vegan eða gamla góða suðusúkkulaðið. Svo er hægt að útfæra þetta jólasælgæti á ótalmarga vegu, bæta við Oreo, saltkringlum.. jafnvel væri spennandi að prófa með pipardufti? Mmmmm.

UPPSKRIFT

  • Dökkt súkkulaði – brætt í vatnsbaði og dreift yfir bökunarpappír á ofnplötu og svo sett í frysti / kæli þar til harðnað.
  • Hvítt súkkulaði – brætt í vatnsbaði og dreift yfir dökka súkkulaðið (þegar það er harðnað).
  • Piparmyntubrjóstsykur – ég keypti Bismarck í Krónunni, ekki með fyllingu. Hakkaði í 2-3 sekúndur í blandara og dreifði yfir hvíta súkkulaðið á meðan það er ennþá bráðið. Að lokum er platan sett í annað sinn í frysti eða í kæli í nokkrar mínútur.
  • Ég braut súkkulaðið með því að stinga hníf hratt yfir alla plötuna, þá koma óregluleg brot.
  • Þar sem að ég er með mjög rúmgóða frystiskúffu þá komst öll ofnplatan þangað inn og tók þetta mig ótrúlega stuttan tíma. Ég ætla einmitt að skella í aðra svona uppskrift í dag fyrir næstu gesti. Eini höfuðverkurinn við þetta er líklega sá að ákveða hvort eigi að vera ofan á, hvítt eða dökkt.

Hér er mín útkoma!

Og fleiri fallegar myndir frá Pinterest

Hér að neðan má svo sjá fleiri einfaldar útfærslur….

 

Myndir frá Pinterest 

Ég mæli með að prófa, við sem kunnum ekki að baka þurfum nefnilega líka að geta montað okkur yfir einhverju heimatilbúnu! Ég væri annars mjög til í að vita hvað svona jólakonfekt kallast á íslensku?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

JÓLAGJAFALEIKUR ÁRSINS // 250.000 KR. GJAFABRÉF Í FALLEGUSTU VERSLUNUM LANDSINS

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1