Þetta íslenska heimili sem nú má finna myndir af á fasteignasölu er engu líkt. Það var mín kæra Karen Lind sem sendi mér þessar myndir í morgun og ég missti nánast andann í nokkrar sekúndur. Það er nefnilega sjaldan sem svona heimili birtast okkur og við verðum samstundis forvitin að fá að heyra hverjir búa svona skemmtilega. Ég ætla að leggja allt undir að þarna búi hönnuður eða listamaður, það hreinlega hlýtur að vera. Öll þessi listaverk og sérkennilegi stíll einkennir heimilið sem er í grunninn mjög hrátt, með hátt til lofts og vítt til veggja. En þó svo skemmtileg og kósý með öllum þessum ólíku gólfmottum á víð og dreif. Og ræðum svo aðeins dúkku listaverkið á eldhúsveggnum – það er nánast enginn sem kemst upp með svona veggpunt en hér kemur það manni ekki einu sinni á óvart. Alveg hrikalega skemmtilegt heimili og kemur sem ferskur andblær í flóru íslenskra heimila. Ég er alveg heilluð.
Og svo ég haldi áfram að giska hver búi hér, þá vil ég trúa því að þessi fjölskylda sé undir hollenskum áhrifum og hafa líklega búið þar um tíma. Þessi iðnaðarstíll og frábæra samansafn af hönnun er eitthvað sem ég sé nánast aðeins í Hollandi og eldhúsborðið/borðstofuborðið eftir hinn hollenska Piet Hein Eek er mín draumaeign.
Myndirnar eru fengnar af fasteignasöluvef Vísis – sjá nánar hér.
Skrifa Innlegg