Það eru nokkrar myndir í tölvunni minni og sem ég hef birt hér á blogginu sem ég leita alltaf aftur og aftur í. Í þetta skiptið er það heimili dönsku listakonunnar Tenku Gammelgaard sem ég hreinlega elska í ræmur. Heimilið hennar var notað í bækling Louis Poulsen árið 2012 (sjá á bakvið tjöldin hér) sem útskýrir þetta fallega úrval af ljósum. Það er helst myndin úr svefnherberginu sem þið hafið flest séð enda einstaklega fallegt og Köngullinn svo glæsilegur í öllu sínu veldi. -Vissuð þið að ef þú kaupir þér svona ljós þá kemur sérfræðingur Louis Poulsen frá Danmörku til að setja það saman fyrir þig… skemmtileg staðreynd dagsins:)
Það er þó meira en svefnherbergið sem er að veita mér innblástur í kvöld, en alvöru listamenn eiga að sjálfsögðu listastúdíó og hún Tenka á eitt afar glæsilegt…
Ég er nefnilega farin að íhuga hvað ég ætla að gera í haust þegar fæðingarorlofinu (lesist: fæðingarvinnan) lýkur. Ég er nefnilega farin að sakna þess alveg hrikalega mikið að vinna með höndunum og skapa eitthvað. Það er jú það sem ég menntaði mig í en ekki að skrifa í tölvu. Svona áður en ég fer að skuldsetja mig uppfyrir haus þá ætla ég að taka nokkra mánuði og vinna að mínu eigin. En ég mun þó halda áfram tveimur verkefnum sem ég er þegar í sem tengjast því að skrifa um hönnun og ég hef mjög gaman af, það þarf jú eitthvað að borga reikningana, en ég ætla a.m.k. ekki að taka að mér fleiri verkefni sem ég hefði venjulega gert. Þegar Bjartur Elías fer til dagmömmu þá fæ ég dálítinn auka tíma sem ég ætla að nýta í mitt eigið. Vá hvað mér finnst það hljóma vel.
Þessvegna veitir þetta fallega stúdíó mér innblástur í kvöld.
Skrifa Innlegg