Fagurkerinn Sólveig Andrea er einn fremsti innanhússhönnuður landsins og ég elska að fylgjast með henni og öllum þeim glæsilegu hönnunarverkefnum sem hún tekur að sér. Stíllinn er klassískur og elegant og er hún virk á samfélagsmiðlum þar sem hún deilir gjarnan myndum frá hönnunarferlinu og mæli ég með að fylgja henni @solveig.innanhussarkitekt fyrir enn meiri innblástur. Ég fékk Sólveigu í smá spjall um hönnun og heimili og ásamt því deilir hún með okkur fallegum myndum frá sínu nýjasta verkefni, stórglæsilegt einbýlishús –
Hvernig myndir þú lýsa þér í 5 orðum? Hvatvís – skemmtileg – hress – dugleg – ákveðin.
Hvað er það skemmtilegasta við vinnuna þína? Skemmtilegast að hitta fólkið og sjá verkefni í uppbyggingu og hvernig lokaútkoman verður – er alltaf eins og jólin hjá mér þegar allt er tilbúið.
Hvað er besta ráðið sem mamma þín hefur gefið þér varðandi að halda fallegt heimili? Besta ráðið og það sem ég tók með mér inn í mitt líf, eftir að ég flutti að heiman, er að ganga í verkin strax og halda heimilinu alltaf í standi. Gott að þrífa vel þegar maður þrífur og svo er gott að gera “partý fínt” inn á milli. Halda þvottahúsinu í standi og búa um rúmin áður en maður byrjar daginn. Þá er alltaf gott að fara að sofa á kvöldin eftir annasaman dag.
Lumar þú á einföldu ráði til að bæta heimilið án þess að breyta miklu?
Einfaldasta ráðið til að breyta heima hjá sér og hagstæðasta er að mála – skipta um gardínur – kaupa nýja púða og fullt af fallegum kertum.
“Það eru forréttindi að elska vinnuna sína.”
Hvernig hljómar draumaverkefnið þitt? Draumaverkefni mitt væri að gera fallega “penthouse” lúxus íbúð, þar sem ég fengi opið veski og fengi að sjá um allt frá A-Ö.
Núna ert þú öllu vön varðandi breytingar og framkvæmdir á heimilum, hvað er það sem margir gleyma oft að gera ráð fyrir? Mér finnst lýsing mjög mikilvæg til að fá punktinn yfir i-ið. Þegar kemur að breytingum þarf að hugsa allt verkið frá byrjun til enda. Fallegustu heimilin eru alltaf þau sem hafa heildarútlit og að grunnurinn sé góður. Ef hann er góður er alltaf hægt að breyta með húsgögnum og öðru tilfallandi til að gera heimilið fallegra.
Hversu mikilvægt er það að þínu mati að fá hönnuð með í stærri breytingar? Mér finnst alltaf mikilvægt að fá hönnuð inn í verkið sem fyrst. Gott er að fá okkur fyrr en seinna. Oft er ekki búið að hugsa um uppröðun á baðherbergjum og eldhúsi og öðru þegar húsið er teiknað. Og þá er gott að við komum inn sem fyrst til að hafa pláss til að breyta grunnmynd.
Hvað er svo skemmtilegt framundan? Það er alltaf eitthvað skemmtilegt framundan. Sem betur fer er maður í þeirri forréttinda stöðu að geta valið um verkefni og hafa nóg að gera. Einnig eru forréttindi að elska vinnuna sína!
Uppáhalds rétturinn fyrir matarboð með stuttum fyrirvara er… Nautalund með bernaise. Klikkar ekki og auðvelt að elda. Ef þú værir litur þá værir þú… Guð ég væri örugglega hvít og svört, með slatta af jarðlit með. Besta borgin er… New York – elska þessa borg sem aldrei sefur. Bókin á náttborðinu… Er alltaf með margar bækur á náttborðinu og les mikið, er núna samt að klára bók eftir Freida McFadden – Undir yfirborðinu. Uppáhalds listamaður… Sólveig Hólm. Besta árstíðin… Haust.
Hér að neðan má svo sjá enn fleiri myndir af verkefnum,
Skrifa Innlegg