fbpx

HÖNNUNARMARS // WHAT TO DO

Íslensk hönnun

HönnunarMars var settur í gær við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur – ég er nú þegar búin að vera með íslenska hönnun beint í æð í tvo daga og get ekki beðið eftir að taka helgina í enn fleiri sýningar og opnanir.

Ég tók saman fyrir ykkur nokkrar sýningar sem ég mæli með að kíkja á um helgina en fyrir þá sem vilja baða sig í HönnunarMars þá er hægt að skoða dagskrána í heild sinni hér.

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd – Epal Skeifan

Ég byrjaði hátíðina á sýningunni Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd í Epal sem opnaði á miðvikudaginn, þar er samankomin fjölbreyttur hópur af íslenskum hönnuðum, sýningin er frábær í ár og mikil breidd. Á sama tíma og sýningin var opnuð þá var einnig frumsýnd ný stækkun í versluninni sem hentar fullkomlega fyrir svona sýningar. Hér má sjá húsgögn eftir okkar bestu íslensku hönnuði, skartgripahönnun, textíl og grafík. Mæli með!

Vítahringur – Kjarvalsstaðir

Vinkona mín Hanna Dís Whitehead vöruhönnuður sýnir hér ásamt keramíkhönnuðinum Raili Keiv á einum fallegasta stað landsins – Kjarvalsstöðum. Hanna Dís rannsakar möguleikana innan formsins með því að skipta því upp í hluta, skera, klippa og vinna svo í mismunandi efni. Úr verða óræðar áhugaverðar vörur sem eiga sér allar sama upprunann. Raili Keiv sýnir mismunandi tilraunir auk þess sem hún vinnur með eiginleika tveggja efna – mjúka hlýja viðinn og kalt postulín. Efnin fara í samtal í leit að einhverju sameiginlegu. Með hjálp listamannsins taka þau upp eiginleika hvors annars, postulínið breytist í við og viður í postulín.

Trophy – Ásmundarsalur, Freyjugata

Ég er skotin í þessu hönnunarteymi, Flétta er að skapa virkilega skemmtilega hluti og sýningin kom mér á óvart þar sem búið er að hanna fallega hluti fyrir heimilið úr gömlum verðlaunabikurum. Umhverfið í Ásmundarsal er glæsilegt og þar má einnig finna þrjár aðrar sýningar svo ég mæli með heimsókn.

“Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir eru tvíeykið á bakvið hönnunarstúdíóið Fléttu. Á HönnunarMars munu þær sýna afraskstur nýjasta verkefnis þeirra, Trophy, þar sem verðlaunagripir eru settir í öndvegi, þeir afbyggðir og séðir í nýju samhengi.”

Handgerðir vasar úr leir eftir Sigurrós Björnsdóttur og Gudrunu Havsteen, sýndir í samstarfi við blómastúdíóið Pastel í Ásmundarsal. Hver og einn vasi og blómvöndur er einstakur og engir tveir eins. „Með hlutunum okkar viljum við leggja áherslu á handgerðar og einstakar vörur í stað fjöldaframleiddra vara.”

Úlfur í sauðagæru – Listasafn Einars Jónssonar / Garðskálinn

Ilm- og húðvörumerkið URÐ og hönnunarstúdíóið Wolftown taka höndum saman með sýningunni Úlfur í sauðagæru. Sýningin samanstendur af táknrænum sápuskúlptúr og nýjum umhverfisvænum sápum úr íslenskum hráefnum. Listasafn Einars Jónssonar er dásamlegt og virkilega gaman að gera sér ferð þangað. Sýningin fer fram í garðskálanum.

1+1+1  Geysir Heima, Skólavörðustíg

Fallega verslunin Geysir Heima sýnir nýjar vörur frá hönnunarteyminu 1+1+1 sem samanstendur af Hugdettu frá Íslandi, Aalto+Aalto frá Finnlandi og Petra Lilja frá Svíþjóð. Í kjallaranum má einnig finna sýningu Theódóru Alfreðsdóttur, vöruhönnuðs, Mót – Tilraunir, þar sem hún sýnir afrakstur rannsóknar sem miðar að því að finna leið til þess að kanna möguleika á framleiðslu einstakra hluta með einu móti.

Fólk Reykjavík – Staðbundið landslag, Klapparstígur 29

Hönnunarmerkið FÓLK hefur unnið að þróun á nýrri hönnun fyrir heimilið í samstarfi við þrjá unga íslenska hönnuði. Á HönnunarMars í ár kynnir FÓLK ný verk eftir Jón Helga Hólmgeirsson, Ólínu Rögnudóttur og Theodóru Alfreðsdóttur vöruhönnuði.

Ég er skotin í Fólk Reykjavík, en hér er á ferð spennandi íslenskt hönnunarmerki sem er eftir að ná langt.

Now Nordic – Hafnarhúsið, Listasafn Reykjavíkur

Virkilega spennandi sýning á því nýjasta í norrænni samtímahönnun. Hönnunarteymið Adorno fékk til liðs við sig sýningarstjórar frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi sem leituðu uppi nýja hönnun í hverju landi fyrir sig.
Sýningin var fyrst sett upp á Chart listamessunni í Kaupmannahöfn haustið 2018, ferðaðist síðan til Lundúna og kemur nú til Íslands í tilefni HönnunarMars.

Í Hafnarhúsinu má finna fleiri sýningar m.a. vegleg samsýning FÍT (Félag íslenskra teiknara). Mæli með!

HAF STORE, Geirsgata

Hönnunarsnillingarnir hjá HAF STUDIO kynna nýjasta verkefnið HAF FRONT sem er ný lína af framhliðum sem passa á hefðbundnar IKEA innréttingar. Einnig verður til sýnis nýr stóll fyrir íslenska skóla þar sem rík áhersla er lögð á notagildi, þægindi og stílhreint útlit. Einnig verður frumsýnd ný vörulína frá Ker Reykjavík.

Akkúrat – Aðalstræti 2

Þakrennur, speglanir, brot, braml, hrosshúðir, 1920’s glamúr og jólatré sem endast að eilífu koma við sögu í opinni verslun á Akkúrat HönnunarMars!
@10, +Keramik, Agustav, Guðný Haf, Huginn Muninn, Kristjana S. Williams, Sif Benedicta og VVERAA Reykjavík verða með sérstaka innsetningu í Akkúrat.

Hafnarborg – Hafnarfjörður

Í Hafnarborg verða tvær sýningar á HönnunarMars. Brynjar Sigurðarson og Veronika Sedlmair sýna í aðalsal Hafnarborgar. Á þessari sýningu verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið, mismunandi stig hugmynda eru sýnd og opnuð almenningi til skoðunar. Sýningin Fyrirvari miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu – þ.e.a.s. náttúru-, borgar- og menningarumhverfi – við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“.

Kristín Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður sýnir í Sverrissal skissur og teikningar í leir og textíl, unnar með margvíslegum aðferðum, ofnar úr íslenskri ull í hátæknivefstól, pressaðar í steinleir og brenndar í gasofni, steyptar í postulín og fléttaðar úr leir.

DesignMunch – MUN, Barónstíg 27

MUN er vinnustofa og verslun í hjarta Reykjavíkur. Nafnið MUN er tilvísun í muni og minningar og leggja hönnuðirnir upp úr klassískri, hágæðahönnun. Hönnuðir MUN þær ANNA THORUNN, BYBIBY, FÆRIÐ og IHANNA HOME ásamt þremur gestahönnuðum VAKIR Jewelry, SANÖREYKJAVÍK og Nina Fradet munu sýna glænýjar og spennandi vörur.

NORR 11 – Denim on denim on denim, Hverfisgata 18a

Flétta og Steinunn Eyja Halldórsdóttir sýna gólfmottur í húsgagnaversluninni NORR11. Motturnar eru unnar úr gallabuxum sem safnast í fatasöfnun Rauða krossins en nýtast ekki hérlendis vegna ástands þeirra eða útlits. Tilvalið að kíkja við í Norr11 á rölti um miðbæinn, enda sérstaklega falleg verslun.

Rammagerðin – Leirkerasmíði, Skólavörðustígur

Rammagerðin og Aldís Bára Einarsdóttir, einn okkar færasti leirkerasmiður á Íslandi fagna áratuga samstarfi og bjóða gestum og gangandi að upplifa nálægðina við leirkerasmiðinn og handverkið. Aldís situr við rennibekkinn og handrennir á staðnum. Munirnir eru sérstaklega hannaðir fyrir Rammmagerðina og Hönnunarmars. Innblásturinn er sóttur í náttúruna sem endurspegla andstæður og blæbrigði ljóss og skugga.

Norræna húsið, Sæmundargata 11

Norræna húsið býður upp á nokkrar sýningar í tilefni HönnunarMars og tilefni til að gera sér ferð þangað. Sýningin Sjálfbærir stólar er áhugaverð en síðastliðið haust fór fram norræn samkeppni um hönnun sjálfbærra stóla. Markmiðið var að auka meðvitund um sjálfbæra hönnun og að hvetja til hönnunarmiðaðrar hugsunar í loftslagsumræðunni. Sigurverkefnin fimm verða kynnt í Norræna húsinu á HönnunarMars.

Ég er einnig spennt að sjá sýningu Formex Nova í Norræna húsinu. Íslenski hönnuðurinn Ragna Ragnarsdóttir hlaut Formex Nova verðlaunin árið 2018 og mun hún sýna verk sín í Norræna húsinu á HönnunarMars. Einnig munu þeir hönnuðir sem fengu tilnefningu í ár sýna en það eru Falke Svatun (NO), Hilda Nilsson (SE), Kasper Friis Kjeldgaard (DK), Studio Kaksikko (FI) and Theodóra Alfreðsdóttir (IS).

The Wanderer – Hafnarhúsið 29. mars – 19:30–21:00

Hér ætla ég að ljúka föstudeginum á glæsilegri tískusýningu Hildar Yeoman. “My witness is the empty sky” Hildur Yeoman kynnir vor og sumar línu sína fyrir árið 2019, The Wanderer. Á sýningunni er áhorfendum boðið í ferðalag um auðnir og svartar strendur.

Þeir sem vilja enn meira af hönnun um helgina þá mæli ég með heimsókn í  Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ, Skúmaskot á Skólavörðustíg, hönnunarverslunina S/K/E/K/K, Hofsvallargötu 16 og verslunin Fischer, Fiscersundi 3. Listinn er þó að sjálfsögðu endalaus og ég hef valið saman sýningar sem henta mínum hönnunarsmekk og áhuga. Mæli svo sannarlega með að kynna ykkur dagskrána í ár!

Ég vona að þið eigið gleðilegan HönnunarMars og sjáið sem mest af íslenskri hönnun um helgina. Ég hlakka svo til að fjalla nánar um spennandi hönnun af HönnunarMars hér á blogginu.

Góða helgi!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEG ÍBÚÐ Í HLÍÐUNUM

Skrifa Innlegg