fbpx

HÖNNUNARMARS 2022 HEFST Í DAG!

Íslensk hönnun

Þá er HönnunarMars hafinn en í dag… miðvikudaginn 4. maí breiðir hátíðin úr sér um borgina með fjölbreytta og spennandi dagskrá frá miðvikudegi – sunnudags!

Dagskráin í ár samanstendur af rúmlega 100 sýningum og 200 viðburðum. Hér má sjá nokkrar sýningar sem mig langar ekki til að missa af en dagskráin í ár er ótrúlega fjölbreytt og þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Styðjum við okkar íslensku hönnuði og kíkjum á sýningarnar þeirra – ég lofa að það mun engum leiðast næstu daga.

LITRÍK ÍSLENSK HÖNNUN 

Epal sýnir úrval af áhugaverðri hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og sumir einnig á erlendri grundu.

Hvar: Epal Skeifan. Opnunarhóf fimmtudag milli 17-19. 

ANNA THORUNN

ANNA THORUNN kynnir til leiks tvær nýjar vörur; bómullarteppið Embrace og flauelspúðann Three seasons. Einnig verður sýnd prótótýpa af keramíkvasanum Dolce, rólan Freeedom og nýr litur af Bliss vasa og skál.

Hvar: Studio Austurhöfn, Bryggjugata 2a.

FÓLK

Íslenska hönnunarmerkið FÓLK hefur sölu á tveimur nýjum vörulínum eftir íslenska hönnuði á HönnunarMars 2022. FÓLK veitir einnig innsýn í aðferðir fyrirtækisins og hönnuða þess til að innleiða áherslur sjálfbærni, hringrásar og lágmörkun kolefnisfótspors.

Hvar: Kolagata, Hafnartorgi.

HAFNARTORG 

Það er mikið af spennandi sýningum á Hafnartorgi, þar má nefna Hugverk sem er samsýning félags Vöru og iðnhönnuða, FÍT – það besta í grafískri hönnun (FÍT stendur fyrir félag íslenskra teiknara), FÓLK Reykavík, ásamt Sögur af sköpun – tilvera hönnunar á The Retreat við Bláa Lónið. Meira hér að neðan.

VIGT 

Staðbundinn efnisviður, sá efnisviður sem íslensk náttúra gefur af sér, verður sýningarefni VIGT á HönnunarMars 2022. VIGT mun gefa eldri hönnun nýtt gildi með staðbundnum efnivið ásamt því að sýna nýja vöru með sömu gildum. VIGT hefur frá upphafi starfað í gamla Hafnarvigtarhúsinu í Grindavík. Nýlegar endurbætur á húsinu hafa skapað blandað rými – rými í þróun. VIGT er samstarf móður og þriggja dætra sem hafa hannað og framleitt vörur helgaðar heimilinu síðan árið 2013. Innblásturinn sækja þær aðallega í hvor aðra, uppruna sinn og bakgrunn.​

Hvar: Skólavörðustíg 28, Feel Iceland. 

66°Norður

Erm er vörulína eftir Arnar Inga Viðarsson og Valdísi Steinarsdóttur þar sem ermar af annars ónýttum flíkum frá 66°Norður eru notaðar sem áklæði á nýja gerð stóla. Verkefninu er ætlað að opna á samtal um hvernig hægt sé að framlengja líftíma neytendavara á framsækinn hátt þvert á vöruflokka.

66°Norður og Flétta sameina einnig hér krafta sína með það að markmiði að fullnýta hráefni frá framleiðslu 66°Norður. Flétta hefur síðustu mánuði gert tilraunir með afskurði frá framleiðslu á fatnaði 66°Norður, þeir hafa verið soðnir, saumaðir og vafðir saman í ólík form í leit að réttu samhengi fyrir hráefnið. Á sýningunni verður gefin innsýn í þetta tilraunakennda ferli sem oftar en ekki er hulið almenningi.

Hvar: 66, Laugavegi 17-19.

HLJÓÐHIMNAR

Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur á jarðhæð Hörpu. Á HönnunarMars opnar fjölskylduvæna sýningin ,,Undir Hljóðhimnum“ sem veitir innsýn í hönnunarferlið á bak við rýmið. Hvað gera hönnuðir eiginlega? Geta krakkar verið sérfræðingar hönnuða?

Hvar: Harpa.

HLUTI AF HEILD

Fagurfræði og notagildi mætast í nýjum og eldri verkum Rögnu Ragnarsdóttir á sýningunni en sýnd verða húsgögn, heimilisvörur og skúlptúra. Hér heldur Ragna áfram að rannsaka mörk þess manngerða og þess náttúru­lega og samþætting og sundrung á milli þessara þátta.

Hvar: Austurhöfn. 

IN BLOOM

Hildur Yeoman kynnir nýja vor og sumarlínu, IN BLOOM á HönnunarMars. Hönnunarmerkið Hildur Yeoman hefur verið áberandi í fatahönnun á Íslandi og einnig vakið mikla athygli út fyrir landsteinana. Merkið er þekkt fyrir draumkennd og dulræn prent, kvenleg snið og að skapa ævintýraheima í kringum hverja línu.

Hvar: Yeoman, Laugavegi.

Kaffiboð: studio allsber x sjöstrand

Sjöstrand og studio allsber bjóða til kaffiboðs! Kaffiboð eru í grunninn alltaf eins, kaffið er nauðsynlegur fasti þó veitingarnar breytist með tíð og tíma. Kaffiboð er vettvangur fyrir samverustundir, gott spjall, slúður, veðratal eða bara sitja saman í þögninni og sötra kaffi.

Hvar: Sjöstrand, Hólmaslóð 4. Hvenær: 6. maí frá 17-19.

Upp á borðum – hlaðborð Rammagerðarinnar í Hörpu: Rammagerðin setur saman draumkennt matarborð í samstarfi við einvala hóp íslenskra hönnuða en auk þess sem munu tónverk og ilmur leika stórt hlutverk.

Hvar: Harpa.

Shapes and Shaped – In dialogue with Icelandic nature

Dansk íslenska listakonan Þóra Finnsdóttir sýnir í Norræna Húsinu. Þóra er forvitin um  íslenska náttúru og hefur löngun til að miðla einstökum eiginleikum hennar til annars fólks. Með vinnu sinni rannsakar hún tilfinningu fyrir djúpri tengingu við náttúru Íslands.
Vinnuferlið er að hluta til steinþrykk á staðnum, skúlptúrar innblásnir af landslagi og lífrænum formum íslenskrar náttúru. Með sköpun sinni vinnur hún úr hughrifunum og leitar að sögu innan efnisins.
Hvar: Norræna húsið, Sæmundargata 11.

Snúningur

Á sýningunni Snúningur verður leitast við að blanda nýjum aðferðum við fyrri hugmyndir. Efnistilraunir, húsgögn, litríkir og líflegir innanstokksmunir og textíll.

Hanna Dís Whitehead tekur annan snúning á fyrri verkum þar sem áhugaverðum efnivið, litum, formum og sögu er blandað saman á nýjan hátt.

Hvar: Gerðasafn, Hamraborg.

Snert á landslagi

Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu Gunnarsdóttur vöruhönnuðar, þar sem áhersla er lögð á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta.

Hvar: Hafnarborg, Hafnarfirði.

Speglar

Á sýningunni verða frumsýndir speglar eftir Theódóru Alfreðsdóttur. Markmið verkefnisins er að upphefja eitt tiltekið efni í hverjum hlut með því að búa til notagildi og karakter úr einu og sama efninu, með því nýta efniseiginleika þess til hinst ýtrasta. Hugmyndin er að hver efnistilraun verið að vörulínu. Á þessari sýningu má sjá spegla þar sem eiginleikar ryðfrírra stálplata fá að njóta sín, bæði með tvennskonar yfirborðsmeðhöndlun og með því að nýta það hversu auðvelt er að beygja plöturnar.

Hvar: Mikado, Hverfisgata 50.

Uppskölun

Uppskölun er sýning á verkum valdra hönnuða sem hafa unnið sérstaklega með Carrara marmara. Markmið hönnuðanna er að hylla gæðaefni á borð við marmara, að skoða nytjahluti sem að finna má í hversdagslífinu en fá ekki verðskuldaða athygli og virðingu, að laga hluti sem að hafa orðið fyrir skemmdum þannig að þeir öðlist nýtt líf.

Hvar: Listasafn Íslands.

Erna

Ný lína hönnuðarins Ernu Einarsdóttur er innblásin af danskri móðurömmu hennar en hún hafði einstakt lag á að skapa hlýju og notalegheit í sínu nánasta umhverfi. Í því liggur kjarni merkisins. Erna leggur einnig mikla áherslu á vistvæn hráefni og góð gæði.

Hvar:Andrá Reykjavík, Laugavegur 16.

Sund

Opnun á verkinu Sýndarsund eftir Hrund Atladóttur, sem er gerð í tengslum við sýninguna SUND í Hönnunarsafni Íslands. Sýningin nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi.

Hvar: Hönnunarsafn Íslands, Garðatorg 1.

 

Þessi listi er svo sannarlega ekki tæmandi og margt fleira sem ég mun án efa skoða og mæli ég með að áhugasamir skelli sér í betri fötin og skoði skemmtilega hönnun, tísku og fyllist af innblæstri á næstu dögum.

Sjáumst á Hönnunarmars?

Sjá HÉR þær sýningar sem Andrea okkar ætlar ekki að missa af!

SJARMERANDI DANSKT SVEITASETUR Í EIGU VIPP

Skrifa Innlegg