fbpx

Hönnunarkópýur?

HönnunUmfjöllun
Ég er þessa stundina að vinna að lokaritgerðinni minni sem fjallar að miklu leyti um upphaf hugmynda og viðhorfsmun íslendinga þegar kemur að hönnunarstælingum. 
Þetta er ótrúlega loðið mál og erfitt að komast að einni niðurstöðu og flakka ég sjálf fram og til baka, ég byggi ritgerðina að miklu leyti upp á viðtölum við áhrifafólk í hönnun á Íslandi ásamt ýmsum greinum og bókum. Þessum degi eyddi ég með Gunnari Magnússon húsgagnahönnuði og Eyjólfi Pálsson í Epal sem hafa t.d gjörólíkar skoðanir á þessu máli. 
Er íslensk hönnun einungis samblanda af öðru sem áður hefur sést, og er það þá ástæða þess að erfitt er að skilgreina hvað íslensk hönnun er? En við jú vitum flest hvað dönsk, ítölsk og hollensk hönnun er!
Það ríkir mjög sterk sjálfsbjargarviðleytni í okkur íslendingum og vilja margir gera allt sjálfir. Og þegar skoðað er í verslunum eitthvað sniðugt heyrist oft í fólki “tjahh ég get nú alveg gert þetta sjálf” og þau hika ekki við að fara heim og búa hönnunina til sjálf og sýna jafnvel stolt á netinu.
Hér má sjá til vinstri hálsmen eftir Hlín Reykdal sem hefur verið selt í nokkurn tíma í Kiosk. 
Og til vinstri má sjá hálsmen sem ég fann á facebook eftir konu út í bæ.
Hér er í báðum tilvikum búið að lita trékúlur og blanda saman á skemmtilegann hátt og þræða upp á borða. Er þarna verið að stæla hönnun Hlínar án þess að geta í heimildir, eða er þetta fullkomnlega eðlilegt þar sem þetta er jú bara hálsmen búið til úr trékúlum sem fást í Litir og Föndur?

Hér má sjá Drottinn blessi heimilið mynd sem finnst á mörgum heimilum útsaumað eða málað. 
Ólöf Jakobína gerir það að sínu og hannar vegglímmiða, sama skrift og sama setning. 
Nýlega hófu mömmur.is sölu á álíka vegglímmiðum og þeim til varnar segja þær að það geti enginn eignað sér þessa hönnun? Þetta er jú bara “Drottinn blessi heimilið” sem til er á mörgum heimilum nú þegar.
Hér má sjá að ofan sófa sem Guðrún Lilja hannaði árið 2006 fyrir Kjarvalstaði og sófann fyrir neðan hannaði Hella Jongerius árið 2005. Sófarnir hafa í nokkurn tíma vakið smá undrun hjá þeim sem vel þekkja til í hönnun á meðan aðrir dásama þennann fallega sófa sem finna má á listasafninu.
Guðrún Lilja hannar hann augljóslega undir nokkrum áhrifum frá Hellu enda var hún nemandi hjá henni fyrir nokkrum árum síðan. Hún segist þó alfarið hafa hannað sófann út frá Kjarval sjálfum og arkitekt safnsins en einnig horft til Hellu sem er jú frábær hönnuður.
En hvar liggja þá mörkin? Er í lagi að hanna eitthvað sem áður hefur verið gert ef það er komið í nýjann búning?

Hér má sjá til hægri Hoch die Tassen hábollana eftir Hrafnkel Birgisson sem hefur verið hannaður í nýjum búning um heim allann. Að skeyta saman bolla og glasi er kannski ekki hans hönnun en er þó hans hugmynd. Má þá stæla hans hugmynd því hver sem er getur nálgast gamalt postulín og glös og leikið sér með lím?
Það virðist líka fara nokkuð eftir hentugleika hvenær má stæla og hvenær ekki!
Hér má sjá Krumma eftir Ingibjörgu Hönnu (hannað f.nokkrum árum síðan)
Og ég blandaðist í gær inní umræður á facebook síðu Lakkalakk systra sem var einmitt um hönnunarstælingu og þá á Krumma hálsmenum. 
Að ofan má sjá RIM design sem kemur með sýna útfærslu af krummanum í hálsmen og vegglímmiða. Hannað 2008. 
Hér að ofan má sjá Fóu Feikirófu með sitt krummahálsmen gert árið 2010.
Það sem ég sé er að í öllum tilvikum má nálgast svipaða krumma á netinu eða úr bókum, því fuglinn lítur jú nokkurnveginn svona út og það er enginn að segja mér að hann hafi hannað Krumma sjálfann. Og því er erfitt að eigna sér hönnunina sem sjá má hér að ofan? Eða hvað?
+
Fyrir þá sem þekkja hönnun vel hafa kannski tekið eftir Egginu eftir Arne Jacobsen sem finna má í 66 gráður norður á Bankastræti, en ekki allir vita að Arne Jacobsen hannaði Eggið aldrei í barnastærð! Sem þýðir bara það eitt: að okkar fremsta hönnunarmerki er með “stolna” hönnun til sýnis í búðinni sinni. Og ég efast ekki um að þau myndu ekki vera sátt ef dönsk búð væri með kópýur af flíspeysunum þeirra til sýnis í sinni verslun. Eða hvað?

Annað svona dæmi sem fáir vita af er að í Listasafni Reykjavíkur má finna ógrynni af Sjöum sem hannaðar eru af Arne Jacobsen. En þeir sem auga hafa fyrir sjá vel að inn á milli stólanna má sjá eftirhermur af stólunum… ekki marga, en þeir eru þó þarna í bland:) Listasöfn berjast fyrir því að ekki séu fölsuð málverk í umferð, en eiga aðrar reglur við þegar kemur að hönnun?

+
En eins og áður sagt, þá er þetta viðfangsefni svo ótrúlega loðið og virðist vera að hægt sé að teygja það og tosa í allar áttir svo henti að hverju sinni. En eitt er víst að ég mun eflaust ekki vera komin með niðurstöðu fyrr en daginn fyrir lokaskil. 
En þó reyni ég sjálf sem vöruhönnuður að hafa eitt í huga sem kennarinn minn bendir iðulega á, 
Að hanna ekki eitthvað sem er svo einfalt að hvaða föndurkona út í bæ geti gert nákvæmnlega eins! 
Og það er hið fínasta mottó!
En eitt veit ég þó, að á Íslandi er mikill skortur á virðingu fyrir verkum hönnuða og á fólk auðveldara að brjóta á hugverkaréttindum en öðrum réttindum því þau halda að hönnuðurinn finni minna fyrir brotinu en ef þau myndu stela snyrtivörum í Hagkaup.
Ef þú hefur skoðun á þessu máli, endilega tjáðu þig!:) 
x Svana

Mjúkt í jólapakkann?

Skrifa Innlegg

66 Skilaboð

  1. HandverkskonanHannaDjé

    13. December 2011

    já það þarf einhvern veginn að dýpka hugmyndirnar einmitt svo að hver sem er geti ekki leikið það eftir.
    Svo spyr ég mig stundum líka afhverju allt heitir hönnun núna, hvað er að því að kalla handverk handverk, föndur föndur etc. Ég er hönnuður en stundum er ég líka föndrari.
    concept ef maður gerði betur.

  2. HandverkskonanHannaDjé

    13. December 2011

    concept ef maður gerði betur =hluti af texta sem ég var að skrifa annars staðar.
    eða örljóð um málefnið.
    .itt er valið

  3. Svana

    13. December 2011

    Já það er mikið rétt Hanna Dís, það virðast allir geta orðið hönnuðir í dag. Föndra einn hlut heima í stofu og opna facebook síðu daginn eftir sem heitir Svana Design:)
    Mér þykir ekkert að handverki né föndri, bæði alveg hreint frábært en þrátt fyrir að orðið hönnun hafi ekki komið inn í íslenskuna fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar er þetta eitt ofnotaðasta orð á Íslandi.
    Halla Helgadóttir lýsti þessu best sjálf; Það þykir eðlilegt í dag að tala um 15 ára hönnuðinn frá Garðabæ í fjölmiðlum, en engum dytti í hug að tala um 16 ára lögfræðinginn frá Reykjavík.

  4. Anonymous

    13. December 2011

    Það er eitt að herma og föndra til eigin nota og ánægju, annað að herma og fjöldaframleiða og selja. Það finnst mér gróft.

  5. Stella

    13. December 2011

    Ef ég væri að búa til skartgripi eða annað slíkt, þá þætti mér afar leiðinlegt að vera ekki frumlegri en það að þurfa herma eftir þvi sem áður hefur verið gert. Ég gæti ekki selt svoleiðis eða auglýst mig sem e-h hönnuð. Svo skil ég ekki alveg, geta allir kallað sig hönnuði? Þarf ekki löglega gráðu til þess?

  6. Anonymous

    13. December 2011

    Langar líka að benda á að eftir að Hring eftir Hring kom með umfjöllun um hringa sína varð spreeenging í leirskarta gerð. Mana ykkur í að slá inn “Leir skart” á facebook. Það sem fæstir vita er að verið er að brjóta lög þar sem hönnunarvernd er á mörgum þessara mynstra.

    sjá hér. (bls. 69)
    http://www.rimur.is/?i=90

    Þetta er alveg svakalega leiðinleg þróun.

    Auður

  7. ingunn

    13. December 2011

    hæ hæ og takk fyrir góða grein. mikið er ég hissa á fólki sem getur ekki komið með sína eigin “original” vöru hvort sem er í handverki eða hönnun. virkilega lélegt hugmyndaflug og LETI að herma eftir öðrum. Hönnuðir berjast sífellt við þetta þar sem mjög erfitt er að verja sína frumgerðu hönnun. þeir sem herma eru letingjar og enginn ætti að kaupa þeirra lélega dót. og hana nú.

  8. Svana

    13. December 2011

    Auður, já einmitt Hring eftir Hring er líka gott dæmi og þegar allir fóru allt í einu að föndra í Fimo leir eins og enginn væri morgundagurinn:)
    En smá skondið að skrolla í gegnum þetta pdf skjal, þar má sjá fluguveiðiveski sem er með hönnunarvernd? Þetta virðist vera einfalt leðurveski? Það er ekki allt hönnun, og mestmegnið af því sem kallað er hönnun í dag er handverk í mínum augum!
    Það er ekki að ástæðulausu að maður leggi á sig 3-5 ára háskólanám til að læra að verða hönnuður, það er ekki til að draga hugmynd út úr rassinum á sér heldur liggur oft strangt og langt ferli að baki hverrar vöru.
    En hinsvegar elska ég líka að föndra en rugla því sko aldeilis ekki saman við þegar ég hanna!:)

  9. Anonymous

    13. December 2011

    Taktu Volcano Design “Vendinginn” fyrir? Efni í góða bók! Fólk hikar ekki við að sauma, selja og brosa! Sem manneskja væri eg hvorki til í að græða eða upphefja mig á kostnað annarra en svona er fólk misjafnt!

  10. Anonymous

    13. December 2011

    Fólk veður að passa að selja ekki sitt heimagerða “do it yourself”. Líka leiðinlegt fyrir fólk sem heldur að það sé að kaupa íslenska hönnun sem er í raun stolin erlend hugmynd.

  11. Anonymous

    13. December 2011

    Ég verð að fá að bæta hér orði í belg og segja að ég er hjartanlega sammála Ingunni hér að ofan – mér finnst þetta hrafnaskartgripamál algjörlega fáránlegt og verður það að skrifast á Fóu… skartið, mér finnst það litað af hugmyndaleysi og lélegri rannsóknarvinnu. Þó að hægt sé að færa rök fyrir því að aðrir hafi notast við krummasilúettuna (RIM og IHanna) þá finnst mér það engin afsökun. Ef þú ætlar að kalla þig hönnuð og taka starfið þitt alvarlega, þá er það lágmarksvinna að leggjast yfir google í 15 mínútur og skoða hvað er þegar búið að gera. Og að segja að þetta hafi líka verið til í Urban Outfitters?? er það eitthvað skárra???!! Fyrir utan það að Fóu hrafninn er copy/paste af Krummanum hennar I.Hönnu…. það sjá það allir sem vilja.

    Varðandi það að föndra sjálfur og DIY þá skilur þar himin og haf á milli þess að gera eitthvað fyrir sig sjálfur og svo aftur á móti að hagnast á annarra hugviti. Ég er algjörlega komin með upp í kok af því að einhverjar guggur út í bæ séu að kalla sig hönnuði. En hvað á að gera til að sporna við því? Jú, við erum komin með okkar eigin event – Hönnunarmars þar sem okkur gefst tækifæri á að sýna hvað í okkur býr og hvað það þýðir að hafa menntað sig í 3-5 ár í þessu fagi. Það þýðir ekki að tuða bara út í horni og á facebook – það þarf að sýna í verki hver munurinn er á föndri og handverki og svo hönnun. Það er í höndum okkar sjálfra að berjast fyrir því að starfstitillinn “hönnuður” sé ekki notaður óvarlega.

    Sóley, hönnuður

  12. Anonymous

    13. December 2011

    Hæ Svana frábær grein hjá þér mjög gaman að lesa hana – gangi þér rosa vel með ritgerðina og verður gaman að filgjast með hvernig þetta fer :)

    Kv Rakel Blom

  13. Anonymous

    13. December 2011

    Mjög góð grein og ég væri rosalega til í að lesa þessa ritgerð.
    Þróun á Íslandi hefur gerst svo rosalega hratt síðan 1950 og saga hönnunar nánast enginn. Við höfum ekki sömu rætur í hönnun eins og t.d frakkar og danir en við höfum hinsvegar góða sögu í handverki. Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að fólk á mjög erfitt að gera greinarmun á handverki og hönnun- þó svo að hönnuðir sjálfir eigi kanski auðvelt með að sjá muninn.
    Annað, ég skil ekki magnið af fólki á Íslandi sem kallar sig fatahönnuði en gerir síðan skartgripi..!? Það er eins og “glamúrinn” við það að vera fatahönnuður sé að tröllríða öllu hérna á Íslandi, en í rauninni er fatahönnun ekkert nema brjálað strit!
    Ég held að það sé hægt að sporna við þessari leiðindaþróun með því að upplýsa handverskfólk betur. Hönnuðir eru ekki í keppni við handverksfólk, þvert á móti er handverksfólk bráðnauðsynlegt fyrir hönnuði, en það er ekki hægt að segja að hönnuðir séu nauðsynlegir fyrir handverksfólk, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Þetta er ekki keppni þeirra á milli, heldur á þetta að vera samvinna.
    Svo á auðvitað að bera virðingu fyrir starfsheitinu hönnuður, þetta er háskólanám.

  14. Anonymous

    13. December 2011

    Ohhh ég er búin að tala fyrir þessu svooooo lengi. Fólk skildi ekki afhverju ég var ekki að “gera eitthvað” (fyrir fimm árum) eftir að ég kom heim úr námi. Ég hafði bara ekki geð á því að leggja tíma og vinnu í fallega vöru sem yrði svo kóperuð mánuði eftir að hún kæmi út. Sérstaklega líka þar sem maður þarf sterkt bakland og fjármagn til að reka hönnunarbatterí og vera stanslaust að þróa og koma með eitthvað nýtt á markað til að drukkna ekki í eftirlíkingum. Auk þess sem ég tel sjálfa mig ekki fullærða sem hönnuð ennþá og myndi ekki titla mig sem slíka, en það er annað mál!

    Hlakka annars til þess að lessa þessa ritgerð (eru þær ekki annars birtar á vefnum?)

    Bestu kveðjur
    maría rut – verðandi grafískur hönnuður!

  15. Edda Rós

    13. December 2011

    Ótrúlega góð grein Svana og mikið til í henni. Man vel eftir einu dæmi, með Emami kjólana. Þá gekk tölvupóstur á milli manna með uppskriftinni af kjólnum sjálfum. Greinilegt líka að miðlarnir eru ekki beint að sporna við þessari þróun þar sem það er auðveldara að komast að allri hönnun og gera hana að sinni eigin. Vonandi mun þetta breytast til betri vegar :)

  16. Anonymous

    13. December 2011

    Frábær grein Svana, svo þörf.
    Langar að benda þér á Farmers market. Það virðist óskiljanlegt fyrir fólk að skilja muninn á því að hanna uppúr gömlu og stela. Það virðist allt í lagi að reikna út farmets market peysurnar sem þeim er hvort eð er stolið.

    Mæli með því að þú gangir líka hinum meigin á Bankastrætinu og tékkar í gluggana á Glinggló og Aurum. Aurum er búin að fá sjónlistar verðlaun fyrir línu sína (t.d salka) og svo kemur copy/paste útgáfa af því. Þær hafa líka copy/pastað Kríu.

    Þetta með hrafninn…ég veit ekki hvað mér á að finnast. Ég gerði líka svona hrafn og í plast hálsmen á sama tíma og fyrsta hálsmenið var að koma út. Mitt fór ekki í framleiðslu, er það þá bara óheppin ég að hafa ekkert gert með það og ég er bara að copy-era ef ég er með það? Bara smá spurning.

    Langaði líka að tala um að Ólöf steig fram með límmiðana sína og benti á fölsun. Vel gert og þarft. En svo er hún hinsvegar sjálf að hanna skálar sem minna mig óneitanlega mikið á skálar eftir Hella Jongerius. Tilvilun?

    Gangi þér vel með lokin.

    Kv. Thelma

  17. Anonymous

    14. December 2011

    eg nennti ekki að lesa öll komentin hérna. en eg er búin með hönnunarnám, ef ég er að föndra heima hjá mér, þá kalla ég það ekki hönnun. mér finnst hönnun og heimaföndur EKKI það sama.
    auðvitað er ekkert nýtt undir sólinni, og ég var til dæmis í kjallaranum hjá ömmu og þegar hun var ung var hún að búa til kökudiska með þvi að líma saman glös og diska eins og á myndinni að ofan.
    einnig gerði ég lyklakippu í mínu hönnunarnámi sem var krummi úr plexi, (reyndar glær) og það eru þó nokkuð mörg ár síðan.

    en alveg er ég sammála þér, þetta er viðkvæmt málefni, sérlega hart tekið á þessu í myndlistinni, sbr þegar listmunasali var dæmdur fyrir að hann Ætti að vita að verk væru fölsuð…. af hverju er ekki verið kæra t.d. efnabúðirnar sem selja sniðin af vendingum og emami og konunum sem eru að búa þetta til og selja í tonnavís?
    (ekki það að ég skoða hönnunarbúðir og síður reglulega og fæ innblástur og hugmyndir, bæði í fatavali og fyrir heimilið og fleira en myndi ekki fara að búa til kópíur af annarra manna hönnun, sama hvort að sú manneskja hafi hannað viðkomandi item eða fengið hugmyndina “lánaða” frá einhverjum örðum.

    gangi þér vel með ritgerðina, áhugavert efni :)

  18. Anonymous

    14. December 2011

    Mjög athyglisvert allt saman og ég hlakka til að lesa ritgerðina þegar hún verður tilbúin :)

    En það væri gaman að fá líka lagalegu hliðina á þessu öllu saman, t.d. með því að tala við lögfræðing sem sérhæfir sig í hugverkaréttindum. Hvar liggur línan? Hvenær er fólk að stela hugmynd og hvenær ekki? Og þá kannski líka til að ítreka hvað hönnuðir þurfa að gera til þess að öðlast einka- rétt og leyfi á sinni tilteknu hönnun. Því að það er eflaust mjög erfitt að kæra einhvern fyrir að stela þinni hönnun og sækja mál ef þú hefur ekki einkarétt á hugverkinu sjálfur.

    Hefur t.d. Ingibjörg Hanna einkarétt á að hanna eitthvað sem er í krummalíki? Og af hverju má Ólöf Erla copera “drottinn blessi heimilið” og gera það að sínu en ekki mommur.is?

    Og mér finnst það eiginlega fréttaefni og algjört reginhneyksli ef Listasafn Reykjavíkur er með eftirhermur af sjöunum, ekki nema það sé “ný” hönnun eftir einhvern annan nafngetinn listamann? Sama má segja með 66norður.

    kv. laganeminn

  19. Anonymous

    14. December 2011

    Eitt sem er eiginlega það besta af þessu öllu saman er að Emami kjólinn er ekki einu sinni upprunulega hannaður hjá Emami…
    En það eru engin lög til um hönnunarrétt í fatahönnun, en það er einmitt það sem að margir hönnuðir segja að geri hann svona áhugaverðan. Mæli með að fólk kynni sér fyrirlestur sem Tom Ford hélt um copy rights á TED ráðstefnu í fyrra held ég. Einhverra hluta vegna finn ég ekki linkinn núna samt…

  20. Anonymous

    14. December 2011

    *geri hann* þá er ég að tala um fatahönnunarbransann.

  21. Hrund

    14. December 2011

    Þetta eru ótrúlega skemmtilegar pælingar og skiljanlega hringsnýst allt og hægt er að teygja og toga hlutina en það bara hljóta að vera mörk einhversstaðar. Mér persónulega myndi ekki detta í hug að kaupa hálsmenið sem er eftirlíking af Hlín Reykdal hálsmeninu. Pabbi hafði einmitt hugsað sér að gefa mömmu svona hálsmen í jólagjöf og væri þá ekki bara réttast að hann keypti frekar hálsmenið hjá stelpunni á facebook, það er hvort eð er ódýrara en samt ''sama'' varan!?! Fáránlegt og ég veit það að pabbi mun kaupa hálsmenið í Mýrinni ef kemur til þess, mamma benti honum á það þar :) Sé samt fyrir mér fullt af fólki kaupa af þessari á facebook – því miður!
    Maður náttúrulega var á tímabili komin með ógeð á öllu leirskarti og ég gat ekki hugsað mér að ganga með Hring eftir hring eyrnalokka sem ég fékk í útskriftargjöf, því fólk spurði mig oft bara ohh! vá! varstu að FÖNDRA!!!
    Svo er eins og fólki finnist allt svo æðislegt EF það er hægt að fara í næstu efnabúð, föndurbúð eða verða sér úti um efni sem þarf, fara heim og búa sér til það sem annars hefði þurft að borga miklu miklu meira fyrir.
    Mamma er kjólameistari og hún var beðin um að sauma kjól á fegurðardrottningu, sú mætti til mömmu með myndir af kjól eftir Birtu í Júníform og sagðist svo bara vilja þannig kjól nema úr öðruvísi efni. Mamma saumaði á hana kjól, en ekki kjól eftir Birtu. Hún gat ekki hugsað sér að stela þeirri hönnun, merkja sér hana og fylgjast svo með fegurðardrottningunni ganga fram sýningarpallinn, ánægð í stolinni hönnun!
    Svona var ég alin upp og kennt að bera virðingu fyrir handverki og hönnun annarra. Ég kem til með að kenna börnunum mínum það líka þegar ég eignast börn :)
    Í sambandi við listasafnið þá finnst mér þetta algjör skandall og litla ''eggið'' er auðvitað fáránlegt. Sé fyrir mér Le Corbusier sófasett í barnastærð í barnafataverslun. Þetta er pjúra rangt !

  22. Hrund

    14. December 2011

    Gleymdi að segja, gangi þér ofboðslega vel með ritgerðina, hlítur að vera frábær innspýting að lesa þessi komment hérna ;)

  23. Anonymous

    14. December 2011

    Athyglisvert :

    VII. kafli. Refsi- og bótaábyrgð o.fl.
    37. gr. “Sá sem af ásetningi brýtur gegn hönnunarrétti skal sæta sektum. Sé brot alvarlegt, einkum ef ætlunin er að afla verulegs og augljóslega ólögmæts ávinnings með brotinu, getur refsing verið fangelsi allt að einu ári….. “

  24. Hafdís Sunna

    14. December 2011

    Mjög áhugaverð umræða.

    Það væri gaman ef þú myndir halda fyrirlestur á Hönnunarmars um þetta efni, út frá verkefnisniðurstöðum.

    Gangi þér vel með lokasprettinn!

    Bestu kveðjur, Hafdís Sunna.

  25. Anonymous

    14. December 2011

    Ég hef svo oft látið þetta fara í taugarnar á mér, sérstaklega þegar (eins og ég kalla þá) “heimaföndrarar” eru að kalla sig hönnuði. Góður punktur með að það myndi enginn fara að kalla sig lögfræðing eftir að hafa lesið lagasafnið.
    Pabbi minn er einmitt mikill handverksmaður, er flinkur í höndunum og hann hefur gott auga fyrir vandaðri vöru. Hann hefur oft haft orð á því hvað þessar eftirlíkingar eru miklu verr unnar og illa gerðar. Það er t.d alltaf handverkshátíð á Hrafnagili í Eyjafirði á sumrin og þar hefur handverksfólk komið árum saman með dótið sitt og kynnt og selt. Pabbi sagðist hinsvegar hafa tekið eftir því síðustu 3-4 ár að ef einhver hefur komið með flotta, vel unna hugmynd eitt árið koma amk 5 með “sömu hugmynd” ári seinna til að reyna að selja. Ég veit samt að mikið af þessu handverksfólki eru ekki lærðir hönnuðir, en þau eru kannski lærð í einhverri annarri iðn, t.d trésmíði eða eitthvað.
    Mér finnst svo ótrúlega lágkúrulegt af fólki að kalla sig hönnuði og gera þannig lítið úr svo óendanlega mikilli vinnu og námi sem hönnuðurinn hefur lagt á sig.
    Mikið er ég ótrúlega ánægð að það sé einhver að skrifa um þetta, það þarf í alvörunni að stoppa þetta facebook-föndursölu fár sem virðist vera að gera allt vitlaust. Svo finnst fólki skrýtið að það sé rólegt á Laugarveginum…nú því það eru allir heima að versla “Íslenska hönnun” á facebook!
    Þetta er svo ótrúlega flott iðn sem almenningur þarf að fara að (afsakið orðbragðið) drullast til að bera virðingu fyrir!
    Gangi þér ótrúlega vel að skrifa-væri gaman að fá að lesa ritgerðina :)
    kveðja,
    Adda

  26. Anonymous

    14. December 2011

    Ég held að skýrari reglur fyrir hönnun og hönnuði sé fyrst og fremst mikið þarfaþing fyrir hönnuðina sjálfa. Við hin sem verslum erum kannski ekki eins upptekin af þessum vangaveltum (eða það er ég amk ekki). Mér finnast flott föt, húsgagna og skartgripahönnun góð og blessuð en ég er bara þannig að ég kaupi það sem mér finnst flott (svo lengi sem buddan leyfir) en velti mér ekki uppúr hönnuði og hönnunarrétti. Ég er persónulega á móti dýrkun á einstaka hönnuði og merki. Flott vara er flott vara og styð ég rétt neytandans að finna sér ódýrustu/bestu vöruna og finnst mér að hönnuðir ættu kannski að líta á svona eftirhermur sem hrós.

    -Valdís

  27. Anonymous

    14. December 2011

    Skemmtileg grein hjá þér Svana !! Finnst þetta góðar pælingar og eitthvað sem ég hef aldrei spáð neitt af viti í.

    …nenni samt ekki að lesa öll þessi komment ! haha

    Gangi þér vel með ritgerðina !

    – Bára

  28. Svana

    14. December 2011

    Já þetta er svo sannarlega frábær innspýting fyrir mig að lesa kommentin ykkar, ég sem er að gróa föst við sófann minn við þessi skrif!:)
    Og sérstaklega gaman að fá svona mismunandi sjónarmið, lögfræðihliðina sem er t.d eitthvað sem ég var ekki búin að kynna mér nægilega vel. Og svo eins og Valdís nefnir hér að ofan “réttur neytandans að finna sér ódýrustu/bestu vöruna og finnst mér að hönnuðir ættu kannski að líta á svona eftirhermur sem hrós.”
    ?
    Hvernig viðhorfsmunurinn skiptist oft eftir því hvort þú sért faglærð eða ófaglærð. Það er erfitt að banna fólki það að vilja eiga fallega hluti fyrir lítinn pening.

    En ég verð nú líka að segja að þetta er mjög mikil pressa líka haha, ég sem hélt að ég, mamma og kennarinn yrðu þau einu sem myndu lesa ritgerðina:)

    Knús á ykkur öll!

  29. Anonymous

    14. December 2011

    Skemmtilegar og þarfar pælingar :)

    Svoldið erfitt að rata á einu réttu og beinu brautina í þessu, hvað er stolið og hvað stæling! Hver stal frá hverjum og hver er fyrstur, því að eins og einhver benti á, þá hannaði t.d. enginn Krummann sjálfann!

    Svo er t.d. Ólátagarður sem byggir sína hönnun á því að breyta Ikea-hönnun, þannig að hvar á að draga mörkin?

    Gangi þér vel með þetta :)

  30. Hanna endrumogeinsföndrari

    14. December 2011

    En ef varan er til dæmis B.A verkefnið þitt. Þú vannst alla rannsóknarvinnuna ákvaðst efni gerðir tilraunir þangað til þú fannst það rétta osfram. Framleiðir vöruna og svo mánuði seinna er hún komin í ódýrari útgáfu á facebook. Er þá ekki búið að stela BA verkefninu þínu, er það hrós? Er það hrós þegar einhver stelur til dæmis Ba ritgerð í lífefnafræði frá einhverjum öðrum og skilar inn sem sinni hönnun/hugsun/skrift? Er sá hinn sami ekki stimplaður algjör lúser, hvað ef þetta er einhver sem aldrei hefur svo mikið sem lesið staf í lífefnafræði? Segjum að þeir gefi hana svo báðir út í bók. 'otrúlega sepnnandi bók og þú veist að annar stal henni en hinn skrifaði hana myndi maður kaupa hana af manneskjunni sem átti engan þátt í að skrifa hana bara prentaði hana út eða þeim sem actually skrifaði hana. Segjum að sú sem væri copy paste væri ódýrari til sölu á facebook og allir hrúgast til að kaupa hana og svikarinn myndi græða væri þá í lagi að sá sem skrifaði hana myndi tapa á því fjárhagslega en hinn græða. Á sá sem skrifaði hana bara að liggja púrrlaukslegur upp í sófa með hamingjusvip og líta á það sem hrós að hinn hafi ekki bara hermt eftir bókinni heldur líka grætt á henni?
    maður smyr sig?
    ég er hönnuður og auðvitað hef ég lent í því að finna hjólið sem ég hélt ég væri að finna upp einhverstaðar.það kemur sennilegast fyrir marga sérstaklega á meðan á námi stendur.
    Það kemur líka pottþétt fyrir að fólk velji ég sér sama efni til að skrifa ritgerð um. En það sem getur breytt útaf er þinn persónuleiki og þau gleraugu sem þú lítur hlutinn á.þá fæst kannski ekki sama niðurstaða upp á orð.

  31. Anonymous

    14. December 2011

    Vá mjög áhugavert efni, og ekki skrítið að þú eigir í erfiðleikum með að komast að niðurstöðu í ritgerðinni þinni, því að þetta er einmitt svolítið ,,loðið” eins og þú segir…. En eins og hefur komið fram hérna að ofan að þá er munur á hönnun og föndri, mér finnst til dæmis mjög rangt að vera að græða pening á hönnun annara, en t.d. ef ég fer heim og föndra mér leir-hring þá finnst mér ég kannski ekki endilega að vera að brjóta lög (veit reyndar ekkert hvað lögin segja…) en ef ég fer heim og föndra 20 stk af leir-hringjum og sel þá síðan á 5.000 kr stk þá finnst mér það vera algjört stuldur því þá er ég náttúrlega að græða pening á hönnun annara… auðvitað er það glatað fyrir hönnuðinn að enginn sé að kaupa vöruna hans/hennar heldur eru allir heima hjá sér að föndra en það er heldur ekki hægt að banna fólki að föndra heima hjá sér, það ætti því allavega (ef það er ekki þannig) að banna það að græða á annara manna hönnun. (mín skoðun)

    En gangi þér vel með ritgerðina :)

  32. Anonymous

    14. December 2011

    eitt sinn heyrði ég að ef einstaklingur breytir hönnun 50% (hver dæmir fyrir sig) eða meira teljist hún hans hönnun.

    ég ætla ekki að segja að ég stundi slíkt enda erum við fámenn þjóð og eigum því öll að vera vinir.

    Ef ég man rétt var LHÍ með kynningu á verkum nemenda sem fólust í því að breyta/bæta hönnun annara, þar var nemandi sem notaðist við kolla frá Ikea
    og gerði kross saum í seturnar á þeim, hvort það hafi ekki farið á sýningu erlendis og eithvað fleira gæti hafa verið 2006 eða um það leiti.

    ef þetta er kennt í LHÍ og nemendur ganga þaðan út með þessa þekkingu á ástandið eingöngu eftir að versna, einnig má spyrja sig að notagildi slíkrar þekkingar
    þar sem í raun var hún kanski ekki að stela hönnuninni að kollunum sjálfum en með því að bæta hana hefur hún bundið sig þeim efni við sem Ikea framleiðir,
    hvað myndi þá gerast ef Ikea myndi hætta framleiðslu á þessum kollum?? þyrfti hún þá að stela þeirra hönnun til að geta haldið áfram að bæta hana??

  33. Anonymous

    14. December 2011

    ” það ætti því allavega (ef það er ekki þannig) að banna það að græða á annara manna hönnun. (mín skoðun) “

    til að svara þessari umræðu, þá kallast það einkaleyfi og bæði tekur langan tíma sem og kostnað og því ekki allra að gera slíkt, einnig má þá kasta því fram að hönnuður sem ekki vill nota þessa leið hætti að framleiða sína hönnun þegar viðkomandi er búin að þéna x háa upphæð þar sem það virðist oftar en ekki vanta að fjöldaframleidd vara ætti ekki að halda verði um fram kostnað.

  34. Anonymous

    14. December 2011

    Þetta eru mjög áhugaverðar og nauðsynlegar vangaveltur og ég vil endilega lesa ritgerðina. Ég er sjálf hönnunarnemi og velti því oft fyrir mér hvort heimaföndrarar viti í rauninni hvað felst á bak við hönnunarvöru. Það er yfirleitt langt ferli af hugmyndavinnu sem liggur að baki, margir vinnutímar og hönnuðurinn endar með vöru sem er eðlileg þróun á þessu ferli. Hönnuðurinn er kannski með lausa hugmynd um hvers konar vöru hann endar með en lokaniðurstaðan stjórnast algjörlega af hvernig vinnuferlið hefur verið. Hönnuður segir ekki, nú sauma ég kjól, gerir snið og voila – tilbúið. Það eru handversmanneskjur sem sjá um þá hlið. Hönnuður sækir innblástur einhvers staðar frá og tekur útgangspunkt þaðan. Hins vegar getur oft verið erfitt ef t.d. innblásturinn er fenginn frá einhverju sem hefur verið hannað áður að hanna eitthvað sem ekki líkist upprunalegu hönnuninni. Fyrir mér er aðaltrickið í hönnun að geta sett sitt fingrafar á vöruna, að hafa komist að einhverju nýju og sýna fram á að þetta er ekki eftirlíking heldur endurhönnun á fallegri vöru.

    Smá eins og remix af lögum, þegar tónlistarmönnum finnst eitthvað lag svo gott að þeir vilja vera með og bæta við. Maður verður bara að vita hvar mörkin liggja.

    Hönnuður er lögverndaður titill er það ekki? þetta snýst um breytt hugarfar og skilning á því hvað felst í starfi hönnuðarins.

  35. Anonymous

    14. December 2011

    Vöruhönnuður er ekki lögverndað starfsheiti – það er kostnaðarsamt, erfitt og ákaflega mikið vesen að fara í það ferli að fá lögverndun á starfsheiti sem fer inn á jafn mörg svið eins og vöruhönnun. Það hefur því enn ekki verið gert. Um grafíska hönnuði og arkitekta er hins vegar ekki sömu sögu að segja, þeirra starfsheiti eru varin með lögum.
    Vöruhönnuðir geta sótt um aðild að félagi vöru- og iðnhönnuða og eru aðeins þeir sem eru með tilskylda menntun teknir inn í félagið. Félagi er þá með nokkurs konar vottun á íslenskri grundu að hann sé með þá menntun sem þarf til að kalla sig vöruhönnuð. Sama fyrirkomulag er hjá fatahönnuðum.

    Varðandi föndur og handverk. Það geta allir, hönnuðir, hjúkrunarfræðingar, kokkar etc.. föndrað heima hjá sér hvað það sem þeim dettur í hug. En að herma eftir, og beinlínis stela, hugverki annarra er samkvæmt þeim sem hafa kommentað hérna að ofan, ÓLÖGLEGT. Það er því skylda okkar sem neytenda að ýta ekki undir ólöglegt athæfi!

    Ég held að flestum hönnuðum sé sama hvort að einhver dundi sér við að prjóna Farmers Market peysu heima hjá sér eða leiri sér blómahring – en þegar farið er að selja hönnunina sem sína eigin og græða á því pening – það er bara allt önnur ella!! Ég vil samt árétta að ég ber mikla virðingu fyrir handverki og föndrinu líka, ef út í það er farið, en ég sé algjörlega rautt þegar að hugverki annarra er stolið.

    Ég held að við hönnuðir þyrftum að vera miklu duglegri við að taka þátt í þessari umræðu, og á sama tíma að standa vörð um starfsheiti okkar og menntun.

    Takk fyrir frábært innlegg í umræðuna Svana og gangi þér vel með skrifin.

  36. Anonymous

    14. December 2011

    Stakk smá í augun commentið þarna um LHÍ. Það er nauðsynlegt fyrir hönnuð að sjá hvað hefur miður farið í hönnun og breyta og bæta og líka sýna hvað annað hefði verið hægt að gera.
    Það eru vissulega svona kúrsar í LHÍ, en þeir snúast ekki um að stela heldur að læra. Þetta eru æfingar.
    Vil benda á að það hafa verið samkeppnir um breytingar á Panton stólnum. Þeir sem tóku þátt eru þeir þá bara að stela og slæmir hönnuðir þar sem hönnuðurinn er dáinn og hefur ekkert með þetta að segja?

    Kv Thelma

  37. Anonymous

    14. December 2011

    Smá input í umræðuna. Því miður þá er ekki til óskráð hönnunarvernd á Íslandi. Það verður að skrá hönnun hjá Einkaleyfastofu svo hún njóti verndar.

    Hins vegar vísa hönnuðir oft til höfundaréttar, hönnun getur verið varin af höfundarétti en sönnunarbyrðin getur verið erfið.

    Þess vegna er best að skrá hönnun sína vilji maður geta bannað öðrum að nota hana.

    Ein lögfróð ;)

  38. Anonymous

    14. December 2011

    Sæl Thelma

    varðandi skotið á LHÍ, þá er ég fullkomlega sammála því að eðlilegt sé að hönnuðir læri en engu að síður að setja það útí samfélagið að hönnunin hafi verið bætt eða breytt bíður upp á stuld, ekki þannig að þessir einstaklingar séu að stela en þá má vel taka dæmið með hálsfestarnar sem dæmi. einhver í heima föndri selur bættar hálsfestar af hennar hönnun af því hlýst ekki lærdómur en einstaklingur getur tekið því sem hann/hún sé að bæta hlutina.

    sama má segja um barna eggið í 66°N, hönnuðurinn er dáinn og hefur ekkert með barnaútgáfuna að segja en engu að síður þá er það áhugavert concept til að sjá börn meðhöndla annars þekkta hönnun.

    Mitt skot var því eingöngu að setja fram þá spurningu að sjá hvar mörkin liggja þegar einstaklingur á lærður telur sig vera að bæta líkt og umfjöllun um námið gæti hafa leitt til kynna, af mínu augnliti þá er þetta ekki bein kópering heldur breyting á útgáfu annars (sem ég sjálf myndi kjósa að fólk myndi ekki gera án samþykkis upprunalega hugmyndasmiðsins.)

  39. 14. December 2011

    Hey beib. Ég minnist þeirra mörgu skipta sem við höfum rætt þetta mál og ég get sagt þér að ég get ekki beðið eftir að lesa ritgerðina þína! Löngu kominn tími á þessa umræðu!

  40. Anonymous

    15. December 2011

    Mjög mikilvæg og jafnframt skemmtileg umræða hér á ferð.

    Mér finnst breytingin undanfarin ár sú að í dag vilja allir vera hönnuðir á Íslandi. Einginn vill vera handverkskona/ -maður. Ef fjallað er um fólk sem býr eitthvað til í fjölmiðlum á Íslandi þá er nær alltaf talað um hönnuð, en ekki um handverkskonu / -mann.
    Jafnvel á Handverkshátíðinni á Hrafnagili hef ég heryt fólk tala um hvað mikið af fallegri hönnun sé til sölu, en ekki um hvað mikið af fallegu handverki sé þar. Það þarf að fræða almenning og fjölmiðlafólk betur um hvað sé Hönnun, hvað sé handverk og hvað sé föndur og að ekkert af þessum flokkum sé eitthvað verri heldur en hinn. Skilin eru reyndar oft á tímum mjög óskýr þarna á milli, en þes vegna er mjög mikilvægt að fólk lærir hver munurinn sé og er það ábyrgð okkar hönnuða að fræða fólk. Það þýðir ekki bara að kvarta og kveina, við þurfum að skapa umræðu um þessi mál (þess vegna er þessi pistill og sú umræða sem á sér stað hér alveg frábær!).
    Íslendingar eru mikil handverksþjóð og erum við vön því að deila uppskriftum af lopapeysum og útsaumsmynstrum. Það er því mjög skiljanlegt að fólk verði því doldið ruglað þegar Farmers Market peysurnar komu á markaðinn, þar sem þetta var jú bara hin klassíska lopapeysa, eða hvað?
    Það er lagalega ekki bannað að búa til eftirlíkingar af hönnun til einkanota. Það er hinsvegar bannað að selja eftirlíkingar og græða á því. Hönnuðir og handverksfólk eru að reyna að lífa á sinum hugmyndum eða handverki. Alveg eins og kennarar, læknar, félagsfræðingar eða lögfræðingar. Virðum það. Facebook eftirherman sem selur eftirhermur af vörum hönnuða á facebook er oft í fastri vinnu og því bara að drýja tekjurnar. Hönnuðurinn er að reyna að lifa af þessu.
    Við þurfum að standa saman, það er ótrúlega sorglegt að jafnvel hönnuðir séu að stela frá öðrum hönnuðum, það þarf því að fræða hönnuði alveg eins og almenning!

    Ég er hinsvegar ekki alveg viss um að mér finnist bara útskrifaðir hönnuðir eigi að geta kallað sig “hönnuð”.
    Hönnuðir vinna út frá konsepti, þeir prófa sig áfram með mismunandi efnivið þróa hugmyndina og reyna að finna lausnir. Þetta er oft á tímum mjög langt og strangt ferli.
    Hönnuðir geta hinsvegar líka föndrað og búið til handverk, er það þá hönnun bara út af því að hönnuður bjó það til?

    En já, þetta er orðið alveg nógu langt í bili. Höldum umræðunni gangandi og fræðum fólk.
    -Bergdís
    Fatahönnunarnemi í Þýskalandi

  41. Anonymous

    15. December 2011

    Frábær grein! Takk fyrir að deila.
    kveðja frá einni sem var að klára sitt hönnunarnám.

  42. Anonymous

    15. December 2011

    Ég skil það ver að hönnuðir vilja ekk láta herma eftir sér en t.d. eins og með Hring eftir hring, þegar ég sá það fyrst hugsaði ég strax þetta er ekkert nýtt, hún er ekki sú fyrsta með þessa hugmynd.

    Er í lagi að hönnuður steli hugmyndum frá einhverjum öðrum bara af því þeir eru hönnuðir og manneskjan sem kom fyrst með hugmyndina er það ekki?

    Og þetta drottinn blessi heimilið, þar finnst mér Ólöf Jakobína ekki geta eignað sér þessa hönnun þar sem hún hannaði þetta ekki beint sjálf, breytti þessu bara í límmiða.

  43. Anonymous

    16. December 2011

    Algjörlega þörf umræða en mjög flókin… mér finnst t.d. ekki hægt að eigna sér “Drottinn blessi heimilið” sem búið er að sauma út í öllum mögulegum leturgerðum í áranna rás – bara af því að þér datt í hug að prenta það á límmiða án þess að svo mikið sem breyta formatinu á þessu. Hitt er síðan annað mál að taka upp nákvæmt snið af flík sem hefur einhver séreinkenni hönnuðar, sauma og selja sem þitt eigið. En það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni – þrír menn fundu upp ljósaperu á sama tíma á mismunandi stöðum í heiminum en aðeins sá sem var fyrstu að fá einkaleyfi er sá sem fann hana upp!!!

  44. Anonymous

    16. December 2011

    Flott grein, og þörf umræða í samfélaginu okkar. Ég er sammála um að það þarf að fræða almenning sem og hönnuði um að það er bannað að stela og selja eftirlíkingar af hönnun.

    Ég er mikið að föndra og gera sjálf og er á þeirri skoðun að flest allir geti skapað og hannað og líka börn.

    Mér finnst ekki allir geti kallað sig hönnuð og fer ekki fram á að hönnuður síni mér einhverjar Háskólagráður, frekar hvað hefur viðkomandi gert. Námsferill er frekar persónulegur og segir ekki allt um viðkomandi. Við verðum ekki endilega það sem við lærðum. Listamaður verður sjónvarpsmaður, læknir fer í pólítík, Arkitekt verður kennari, tónlistamaður gerist rithöfundur.

    Skemmtilegir fallegir hlutir, vörur, föt, skartgripir, hús, bílar, bækur osfrv… verða til þegar höfundur er frumlegur.

    Gangi þér vel með þetta.
    Kveðja
    Flínk í höndunum

  45. Hrafnkell

    16. December 2011

    Frábær grein og gód umræda. Bandaríkjamenn fundu snemma áhugaverda lausn á thessu: patent. nákvæm lýsing, greinargerd og teikning af hönnuninni, hvort sem um er ad ræda tæknilega uppfinningu, listræna hönnun eda frædilega uppgvötun. Greinilega tharf ad skýra thessa hluti betur heima. skodid google patents.

  46. hádjésinnepsgulurruglugludynjandi

    16. December 2011

    en pólitíkus verður aldrei læknir, svo mikið er víst, kennarinn getur líka ekki kallað sig arkitekt.
    Að vera góður í að föndra eða fá góðar hugmyndir er ekki endielga að vera hönnuður. Hvað er aðþví að vera bara gellan sem fékk þessa líka geggjuðu hugmynd framkvæmdi hana bjó til því hún er góð í höndunum og allt þetta gat hún þrátt fyrir að vera ekki hönnuður.
    Er það slæmt?
    Afhverju þarf að titla sig hönnuð afhverju ekki bara snilling.
    Eða kalla sig hugdettara. Er það ekki skemmtilegra.
    Börn er geggjað skemmtileg klár og frábær, þau geta allt, þau geta búið til allskonar sniðuga hluti og fundið upp allskonar leiki og skapað, en eitt er víst að þau gætu ekki lokið námi í hönnun.
    Það að búa eitthvað til er ekki endilega hönnun það er málið.
    Eins og ég segi getur það ekki bara verið snilligáfa, einstök færni með prjóna, fagmennska í því að líma,nákvæmis tréspýtusamanrekandinn osfram. Ef fólk er frumlegt getur það ekki fundið sér einhvern meira töff titil.
    Ég er allaveganna að hugsa um að hætta að vera hönnuður og velja mér eitthvað annað, bara hugmyndasmiðjandi eða vörubiðjandi eða sinnepsgulurruglugludynjandi.

  47. ingunn þráinsdóttir

    16. December 2011

    hæ aftur og VÁ! frábært hvað það eru mörg komment hérna inni, þessi umræða er virkilega áhugaverð.
    mig dauðlangar að bæta aðeins við kommentið mitt frá því áður.
    ég er með 4 ára listaháskólanám á bakinu frá NSCAD University í kanada í samskiptahönnun. ég er alls ekki haldin menntahroka, vil taka það sérstaklega fram, EN, í hönnunarnámi lærir fólk auðvitað HAUG sem “heimaföndrari” lærir aldrei og getur ekki byggt hönnun sína og hugmyndafræði á. eitthvað verður að búa að baki vöruþróun, hugmyndasmíði, efnisrannsókn og fl. og fl. Hönnuð vara sprettur ekki bara einmitt út úr rassinum á viðkomandi (eins og einhver orðaði svo skemmtilega hér að ofan).
    Það sem vantar svo sárlega í Íslendinga er VIRÐING fyrir hönnuðum og námi þeirra og reynslu. Það sem vantar einnig er löggilding titilsins “hönnuður”. ég man þegar “grafískur hönnuður” var loksins skilgreindur sem löggilt starfsheiti að þá hættu að poppa upp alls konar guggur og hnakkar sem kölluðu sig grafíska hönnuði, það eiginlega bara steinhætti! sjúkk hvað ég varð glöð :) og efalaust fleiri.
    sko. ef ég kann á skrúfjárn og tifsög þá get ég ekki kallað mig trésmið, svo einfalt er það bara.
    það sem hönnunarmiðstöð íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið ásamt menntastofnunum landsins þurfa að vinna í núna er að löggilda starfsheitin: iðnhönnuður, vöruhönnuður, fatahönnuður og fl. titlar sem ég man ekki í augnablikinu!
    mig langar líka örstutt að tala um íslenska hönnun og verðlagningu. auðvitað er íslensk hönnun dýrari en erlend, það segir sig sjálft, sérstaklega vegna þess að íslensk hönnun (sem nb langflest er framleidd á íslandi) er framleidd í svo fáum eintökum. á bakvið hverja vöru er ekki stórt fjársterkt batterí (nema þá 66° og slíkir gaurar sem láta sauma dirt cheap í kína og ættu að skammast sín fyrir það meðan ekki er hægt að reka saumastofur á íslandi vegna verkefnaskorts).
    að lokum hvet ég alla til að hætta að versla ódýrar eftirhermur, sérstaklega á fb, með því að spara nokkrar krónur er verið að drulla yfir hugvit og sköpun einhvers annars og sýna hönnuðum algjört virðingarleysi.
    áfram íslenskir hönnuðir – við rokkum feit í miðri krepputíð!

  48. Anonymous

    17. December 2011

    Vildi óska að þessi umræða væri á Facebook svo að maður gæti “lækað” allar athugasemdirnar sem að ég er sammála :)

    Annars þá líður mér alltaf þannig að mig langar mikið frekar að kaupa ekta/upprunalegu hönnunina. Margir kalla það snobb (það er það að vissu leyti) en rosalega finnst mér það jákvætt fyrir hönnuðina að það sé til fólk eins og ég ;)

    -KT

  49. Anonymous

    17. December 2011

    sammála KT með lækin… var að hugsa þetta :D

    kv. Rut

  50. Anonymous

    17. December 2011

    Frábær og tímabær grein! Nú var ég að ljúka námi af textíl og hönnunarbraut fjölbrautarskólans í breiðholti og ég varð að koma einu að í tengslum við lagalegt comment hér að ofan:

    VII. kafli. Refsi- og bótaábyrgð o.fl.
    37. gr. “Sá sem af ásetningi brýtur gegn hönnunarrétti skal sæta sektum. Sé brot alvarlegt, einkum ef ætlunin er að afla verulegs og augljóslega ólögmæts ávinnings með brotinu, getur refsing verið fangelsi allt að einu ári….. “

    Í einum áfanga sem ég lauk var okkur KENNT að sauma Emami kjólinn. Skólinn skaffaði efni og okkur leiðbeint hvernig ætti að stela hönnun og hugverki annars. Rétt er að Emami er ekki íslensk hönnun en hönnun er það þó og afskaplega finnst mér rangt að skóli sem kennir ungu fólki inn á hönnunarferli, sköpunarvinnu og 'originality' skuli ýta undir þetta. Þessi áfangi var þó bara kenndur þessa einu önn og grunar mig að þetta hafi ekki verið vinsælt.

    Einnig er ég í hljómsveit sem hefur gefið út disk og borgar í STEF, ég get ekki lýst því hversu óskiljanlegt mér þykir að ekki sé komið jafn hnitmiðuð og aðgengileg samtök og STEF sem sjá þá um höfundarrétt hönnunar. (eða er það kannski til en þau eru í felum fyrir almúga-mér?) Þar eru sérstök eyðublöð ef þú vilt gefa út “ábreiðu” sem myndi þá snúast í “betrum bætur” í hönnunarlegu samhengi. “Betrum bætarinn” borgar þá vissa prósentu af seldum betrum bættum hlut til upprunalegs hönnuðar. En að sjálfsögðu má ekki betrum bæta neitt ef hönnuður/tónlistarmaður ekki leyfir.

    Enn aftur takk fyrir fráb grein
    Ása wannabe fatahönnuður

  51. Anonymous

    17. December 2011

    flott grein og þörf umræða!
    styð það að þú kynnir ritgerðina þína með upplestri á Hönnunarmars 2012!
    ég mun örugglega mæta :)
    bestu kv.
    Sigga Heimis

  52. Anonymous

    18. December 2011

    Ég er eiginlega sammála kennaranum þínum. Þrátt fyrir að það sé glatað að fólk stundi svona þjófnað og selji kópíur af hönnun, þá hlýtur það að vera stærsta áskorun hönnuðarins að hanna og framleiða vöru sem hægt er að selja á þannig verði að fólk sjái sér ekki hag í því að fara í samkeppni.

    Þetta var það fyrsta sem ég lærði í námskeiði í HR þar sem við áttum að hanna og þróa viðskiptahugmynd. (t.d. bility hefur tekist mjög vel upp með þetta)

    Markaðsöflin virka þannig að ef það er markaður fyrir einhvera vöru þá myndast samkeppni um sölu hennar og það gildir um hönnun og allt annað. Hvað hafa t.d. sprottið upp margar hópkaupssíður undanfarið.

    Fyrir hinn almenna meðaljón (eða Jónu) snýst þetta á endanum um spurninguna “Afhverju ætti ég að eyða tugum þúsunda í eitthvað sem ég get keypt efni í fyrir nokkra hundrað kalla út í næstu föndurbúð og gert sjálf yfir sjónvarpinu?”

    Ég persónulega elska að kaupa Íslenska hönnun og t.d. eru allar jólagjafir sem ég gef í ár eftir íslenska hönnuði (ekki föndrara) en ég skil líka vel hitt sjónarmiðið og hef sjálf gerst sek um að stæla hluti sem mér ofbýður verðið á að vísu ekki til að hagnast á því en samt.

    Annað sem mér finnst góð pæling og ég veit að nokkrir hönnuðir og listamenn eru að gera. Ef þú sem hönnuður færð góða hugmynd og framkvæmir hana en þú sérð fram á að tugir manna verði farnir að stæla hana á engum tíma afhverju býðuru þá ekki upp á námskeið þar sem þú kennir fólki að búa hana til og þannig smá sneið af kökunni. Þannig færðu tekjur fyrir hugmyndina en ekki endilega vöruna sem slíka.

    Mér finnst þetta ótrúlega áhugaverð pæling og hefði ekkert á móti því að lesa ritgerðina þína! Gangi þér vel :)

  53. Anonymous

    18. December 2011

    Frábær grein Svana – gangi þér vel með ritgerðina þina! /GM

  54. Anonymous

    19. December 2011

    Mig langar að koma með eitt innlegg í þessa umræðu í tengslum við mína þekkingu.
    Mál eru þannig að ég er lögfræðingur og mikill föndrari og hef ég ósjaldan saumað, perlað, smíðað o.s.frv. það er lítið sem ég hef ekki allavega einu sinni prufað. Þetta geri ég allt eingöngu fyrir mig persónulega og stundum handa fjölskyldunni minni (ömmu finnst alltaf jafn gaman að fá eitthvað frá flinka barnabarninu).

    Ég er ekki sérfræðingur í hugverkarétti en það sem ég veit er að fólk má alveg taka “hönnun” einhvers og gera fyrir sig, mörkin er þegar þú ferð að græða á því. Svo er þetta með einkaleyfin, það eru til nokkrar tegundir af þessum leyfum og hafa þau öll mismunandi gildistíma og umsvif, fólk verður að kynna sér þetta.

    Annað sem ég hef verið að reka mig á er að aðilar sem eru með búðir að selja sína “hönnun” eru að taka upp gamlar hannanir og gera að sínu, veit t.d. um tilfelli þar sem aðilinn tók snið úr Burda blaði (sem er með patent) og gerði að sínu og seldi. Don't get me wrong, frábært hjá fólki að taka sig til og gera eitthvað úr sér en það eru mörk fyrir því hvað þú getur gert.

    Annað sem mér finnst að eigi soldið heima í þessari umræðu eru verðin. Ég skil vel þegar fólk vill ekki vera að setja mikinn pening í einhverja “hönnun” þó þeim langi, er nú ekki langt síðan ég var nemi og hefði verið til í að kaupa af íslenskum hönnuðum en maður hafði bara ekki efni á því. Ég skil vel að allt ferlið í kringum þetta er dýrt en þeir hönnuðir sem eru að byrja ættu kannski ekki að vera með búð á Laugarveginum og afsakasig bakvið háa leigu. Persónulega hefði ég hér áður keypt mun meira af íslenskri hönnun ef ég hefði getað það og er ég í dag það heppin að vera búin að mennta mig og vera í vel launuðu starfi og get keypt þá íslensku hönnun sem mig langar í og það beint frá hönnuðinum sjálfum.

    Annars vil ég bara segja, við eigum svo mikið af frábærum hönnuðum, handverksfólki, fatahönnuðum o.s.frv. sem við verðum að styðja við en á þeir verða líka að gera okkur það kleift því það geta ekki allir keypt sokkabuxur á 30 þús.

    mbk,
    Margrét

  55. Dossa G

    21. December 2011

    Frábær umræða! Þetta minnir mig á umræðu sem var mikil í Garðyrkjuskólanum varðandi Blómaskreytinn. Það er ekki til búið að löggilda vinnuheitir Blómaskreytir á Íslandi, það er ekki hægt að taka sveinspróf hér. Þess vega er ekki hægt að gera kröfur til þess að fagmenntað fólk sé að starfa í blómabúðum. Flestir hugsa þá: so what?

    En á móti kemur, viltu að einhver útbúi krans í útför ástvinar, eða brúðarvöndinn þinn, sem að ekki hefur kunnáttu, menntun eða oft hreinlega getu til?

    Það þarf að taka á svona málum á Ísland, í fjölda starfsgreina.

    Abbsakið útúrdúrinn og gangi þér vel með frægustu ritgerðina á Íslandi :)

  56. Magga Beta

    31. December 2011

    Vegna þess að mjög er býsnast yfir því að verið sé að stela hugverkum, þá langar mig til að benda á að bæði íslenskt handverk og myndlist fyrr tíma, hvort sem menn kjósa að kalla slíkt list eða alþýðumenningu, er menning eftirmyndarinnar. Í þessu landi hefur verið fengist við að búa til eftirmyndir af erlendum (og innlendum) (hug)verkum frá því menn byrjuðu að skrifa, skera út og mála altaristöflur. Ég er þar með ekki að réttlæta hugverkastuld, heldur aðeins vekja athygli á þessu. Það er ekki “eðli” alþýðumenningar að vera frumleg – ef hægt er að tala um eðli – heldur að gera að sínu það sem þykir eftirsótt. Það má því líta svo á að allar kópíurnar sem verið er að geta af hönnuðum hlutum á Íslandi í dag séu hluti af nútíma alþýðumenningu.

  57. Anonymous

    1. January 2012

    Það má ekki gleymast að nánast ,,ekkert er nýtt undir sólini” og margir sem eru að ,,hanna” eitthvað sem ekki hefur sést hér á landi áður,eru í raun að stæla eða betrumbæta eitthvað sem til er út í hinum stóra heimi. Skoðið bara Etsy!
    Það er sárt að sjá fólk stela hönnun annara en munið að sumt sem kallað er hönnun í dag, getur ekki talist annað en föndur og öllum er jú frjálst að föndra!
    Sýnið öllum virðingu!

  58. Anonymous

    2. January 2012

    Mér finnst oft svolítið leiðinlegt viðhorf hjá þeim sem hafa útnefnt sjálfa sig “viðurkennda” hönnuði, hvort er heldur með námi eða reynslu, gagnvart handverksfólki og föndrurum sem geta verið mjög hæfileikaríkt fólk.

    Annars er ég sammála því fullkomlega að þetta er óþolandi þegar sífellt er verið að stela hönnun sem mikið hefur verið lagt í að móta. Mér finnst það ekki síst afskaplega leiðinlegt hvernig slíkar eftirhermur rýra í rauninni oft verðgildið því að t.d eins og mér persónulega hefði alveg dottið í hug að kaupa mér svona krummahálsmen en langar það ekki baun eftir að þetta fór “út um allt”. Sama með Farmers Market peysurnar og þessi blessuðu herðatré. Allt í einu var þetta ekki eftirsóknarvert lengur.

    Skemmtileg umræða og gaman að lesa. Vona að ritgerðin verði opin á Skemmunni :) Gangi þér vel að klára.

  59. Thorunn Arnadottir

    4. January 2012

    Vá það er slatti af kommentum hérna, verð að viðurkenna að ég skannaði bara aðeins yfir þau. En ég tók eftir kommentinu um LHÍ “Ikea” verkefnið. Hugmyndin á bak við það verkefni var ekki að stela eða kópera Ikea hönnun, heldur lít ég frekar á að þetta hafi verið einskonar ádeila / komment á t.d. þá staðreynd að fullgert húsgagn úr Ikea er ódýrari en efniviður í að smíða nýtt frá grunni. Þannig er verið að velta fyrir sér spurningum um skilgreiningu á “hráefni” og verðgildi handverks. Af hverju ekki að líta þá á Ikea vörur sem ódýrt hráefni sem hægt er að auka verðgildi á með því að breyta þeim? Ég myndi nú ekki halda að Ikea tapi á því að einhver kaupi kolla af þeim, breyti þeim og selji á hærra verði… heldur þvert á móti!

  60. Thorunn

    4. January 2012

    En þetta er mjög þörf og góð umræða. Ég veit ekki hvort lögverndun á starfsheitinu “hönnuður” muni breyta nokkru um eftirlíkingar. En hins vegar finnst mér svolítið vanta svolitla umræðu um hlutverk hönnuðarins. Nú tala rosalega margir um að “kaupa beint af hönnuði” og að skilgreiningin á hönnun og handverki sé mjög loðin. Hönnuður er (yfirleitt) sá sem útfærir/stýrir hugmyndinni sinni í eitthvað form sem svo er hægt að kaupa (í fáum eða mörgum eintökum). Það að hönnuður framleiði, markaðssetji og dreifi sjálfur vörunni sem hann hannaði er ekki sjálfsagt, enda erum við þá að tala um þrennskonar sérhæfð störf sem ein manneskja (hönnuðurinn) er þá að leysa af hendi. Margir hönnuðir gera þetta þó allt saman sjálfir og standa sig mjög vel í því. En aðrir kjósa frekar að einbeita sér að því sem þeir gera best: að hanna fleiri hluti, í staðinn fyrir eyða tíma sínum í framleiðslu og dreifingu á færri vörum, og selja þá hugmyndina til framleiðanda/dreifingaraðila. Ég veit að þetta er aðeins út fyrir efnið um að stela og græða á hönnun annarra, en það sem ég er að reyna að vekja athygli á er að e.t.v. erum við setja undir sama hatt “hver bjó til hlutinn” og “hver hannaði hlutinn”. Ég held að vandamálið hjá okkur hönnuðum sé mjög nátengt vandamáli tónlistarmanna, þ.e. að fólk kaupir ekki lengur “hlutinn” (geisladiskinn) og hugmyndir/tónlist er auðvelt að nálgast á netinu og nýta sér hvernig sem maður vill. Kannski þarf hönnun bara að aðlagast aðeins betur að tíðarandanum, hinum upplýsingavædda heimi, og verða aðeins meira “open source”? En ég sé reyndar ekki alveg sjálf hvernig hönnuðurinn græðir á því, en kannski er bara þörf á að hugsa aðeins meira út fyrir boxið, og þá veit ég ekki hvort það hjálpar okkur mikið að vera að reyna að setja einhver lög og skilgreiningar á starfsheiti (þau eru flest orðin hálf úrelt nútildags, sérstaklega innan skapandi geirans).

    Engin svör svosum hjá mér en mig langaði bara að reyna að opna aðeins umræðuna betur.

    7 ára frændi minn skilgreindi mig sem “fattara”, mér finnst það ansi gott starfsheiti. Spurning hvernig það myndi samt þýðast á ensku?? :)

  61. Svart á hvítu

    5. January 2012

    Vá en gaman að umræðan skuli halda áfram. Og Ingibjörg takk fyrir að benda á þennann fyrirlestur, hann er alveg frábær og mjög áhugaverð komment sem koma þar fram.
    Hvernig það væri ef frægir vöruhönnuðir færu oftar í samstarf við t.d IKEA (samanber t.d H&M+Karl Lagerfeld)
    Jú Hella Jongerius gerði það að vísu, en ég kveiki ekki á fleiri nöfnum í augnablikinu. Vasarnir hennar slógu svoleiðis í gegn á meðan það eru fáir sem geta svo mikið sem keypt eina skal frá stúdíóinu hennar.
    IKEA ætti að gera meira af þessu, en nýlega sýndu þeir á blogginu sínu hvernig hægt væri að DIY gera replicu af hillu frá Muuto, sem að sjálfsögðu mjög rangt. Ég spyr mig afhverju þeir fengu Muuto ekki í staðinn til að hanna vöru fyrir þá svo fólk gæti eignast upprunalega hönnun, ekki DIY kennt af Ikea til að að eignast Muuto. Æj þið fattið mig:)

  62. Anonymous

    8. February 2012

    Mjög áhugaverð umræða og frábært efni í ritgerð! Eins og það er margt hérna að ofan sem ég er sammála þá er ég sérstaklega sammála því að maður getur alveg gert flotta hluti þó maður sé ekki hönnuður. Ég til að mynda föndra rosa mikið fyrir sjálfa mig og finnst gaman að eiga hluti sem aðrir eiga ekki og verða þannig oft til hlutir sem ég í raun hef “hannað” þó ég sé ekki að titla mig sem löggildan hönnuð. Þá finnst mér allt í lagi að selja þá hluti til þeirra sem hafa áhuga á að eignast slíka hluti og er verðið þá meira til að svara efniskostnaði:) En eins og svo oft hefur komið fram hérna er þetta “eilíf kafloðin hringavitleysa”…