Ég eignaðist nýlega nýja uppáhalds verslun en það er flaggskipsverslun H&M home í Stokkhólmi sem staðsett er á Drottningagötunni sem er jafnframt ein aðalverslunargatan í borginni. Verslunin var svo ótrúlega vel innréttuð og hugsað út í hvert einasta smáatriði með ekta baðkari á ljónaloppum sem sýndi baðvörurnar ásamt vel völdum húsgögnum frá sænska vini þeirra Ikea sem notuð voru til að búa til alvöru heimilisstemmingu. Toppurinn á þessu öllu saman var síðan að inni í versluninni var rekin blómaverslun sem búið var að skreyta allt svæðið með blómum frá. Ég gekk í nokkra hringi áður en ég var tilbúin að yfirgefa verslunina, þvílíka fegurðin sem þarna var að finna og upplifunin langt frá því að vera að þessar vörur séu úr lélegum gæðum (sem er því miður staðreynd um nokkra vöruflokka frá þeim). Ég hinsvegar er rúmfötum ríkari en ég hef góða reynslu af þeim, ásamt baðsloppi og smá fínerí í barnaherbergið. Ég mæli svo sannarlega með heimsókn þangað x
Þessar myndir hér að neðan eru frá H&M home þar sem vörurnar voru sýndar í alvöru heimilisumhverfi og var myndatakan stíliseruð af Lottu vinkonu minni, þeirri smekkdömu! Hún parar hér saman ódýrar H&M vörurnar við dýrari hönnunarvöru og er útkoman stórkostleg.
Eigum við að ræða það smá hvað Gubi Beetle stólarnir eru að koma inn með stormi! Stóllinn sem lenti á óskalistanum mínum árið 2014 þegar hægindarstóllinn var fyrst kynntur til leiks sló ekki samstundis í gegn þrátt fyrir mikla fegurð, en þegar borðstofustóllinn kom út í fyrra er varla þverfótað fyrir þessum elskum. Þvílík fegurð, og GamFratesi teymið enn og aftur að sanna snilligáfu sína.
Af öllum þeim H&M home vörum sem ég hef keypt mér hef ég bestu reynsluna af rúmfötunum þeirra, fín gæði fyrir gott verð. En á sama tíma hef ég einnig verið svikin með nokkrar aðrar vörur sem hafa ratað í ruslið.
H&M home er alltaf með gott úrval af skrautpúðum og hef ég verið dugleg að sanka að mér slíkum.
Krakkalínan er einnig skemmtileg og er mottan sem þarna glittir í nýjustu kaupin í herbergið hjá Bjarti mínum. Sýni ykkur innan skamms kaupin sem ég gerði á ferðalaginu mínu:)
Skrifa Innlegg