Það er engin önnur en Lotta Agaton vinkona mín sem á þetta gullfallega heimili sem birtist á dögunum í sænska tímaritinu Residence. Fyrir ykkur sem ekki þekkið til þá er hún fremsti sænski innanhússstílistinn í dag eða eins og þau segja á forsíðunni “Sveriges mesta stylist öppnar dörren” og ég fæ seint leið á því að birta myndir frá henni á blogginu mínu. Hún Lotta er nefnilega með alveg dásamlega fallegan stíl og hefur einstakann hæfileika að raða saman hlutum og skapa heimili sem hefur þetta heimilislega og hlýlega yfirbragð sem við sækjumst svo mörg eftir. Hún hefur hægt og rólega verið að færa sig frá þessum klassíska hvíta skandinavíska stíl en það er ekkert það langt síðan að heimilið hennar var alveg hvítt, og núna hefur hún tekið skrefið til fulls og málað alla veggi og loft heimilisins í dökkgráum lit! Ég bilast hvað útkoman er flott, dálítið eins og að vera komin inn í helli. Hún Lotta verður alltaf mín uppáhalds og fá því allar myndirnar að fljóta með – njótið!
Myndir Pia Ulin
Fullkomið er orðið til að lýsa þessu heimili, alveg sérstaklega fullkomið haustinnlit ♡
Ég er sjálf loksins búin að taka mitt fyrsta skref varðandi málningarpælingarnar mínar, – ég sótti mér nefnilega nokkrar prufur í gær í Sérefni og ég er hreinlega ekki frá því að grái liturinn sem ég heillaðist svona af sé svipaður þeim sem Lotta valdi sér:) Núna þarf að bretta upp ermar og drífa sig að velja litinn!
Skrifa Innlegg