Heimildamyndin Aalto er ástarsaga þeirra Alvars og Aino Aalto, finnsku meistaranna í nútíma arkítektúr og hönnun. Þessa mynd ætti áhugafólk um fallega hönnun og arkitektúr ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Myndin er á dagskrá RIFF í Norræna húsinu á laugardag.
Að lokinni sýningu verður leiðsögn um Norræna húsið, sem hannað er af Aalto, undir leiðsögn arkitektsins Guju Daggar Hauksdóttur. Bæði Alvar og Aino hafa verið sterkur innblástur í nálgun Guju að hönnun og byggingarlist, allt frá því að hún var í námi við Arkitektaskólann í Árósum.
„Eftir að ég flutti til Íslands að loknu námi og starfi í Danmörku hef ég unnið kynningarefni og séð um leiðsagnir, auk þess að hafa skipulagt fjölda viðburða í húsinu. Ég hef einnig verið sýningarstjóri og sýningarhönnuður á sýningum fyrir Norræna húsið tengt Aalto svo sem á sýningunni Japönsk áhrif í verkum Alvars Aalto, Aalto og Norræna húsið og Öld barnsins. Fyrir sýninguna Aalto og Norræna húsið hannaði ég eins konar fjársjóðskort, sem býður upp á uppgötvun gesta á helstu hönnunarmunum arkitektanna sem finna má í húsinu,“ segir Guja.
Hún segist halda að fólk hrífist helst af því hvað hönnunin er hlýleg jafnframt því að vera smart. Hún höfði svo vel til líkamlegrar skynjunar s.s. aðlaðandi áferðar og lífrænna forma og tilvísana í náttúruna auk þess að skrifa sig inn í stærra samhengi fagurfræðilegrar heimspeki.
Aðspurð um sinn uppáhalds hlut eftir Aalto segir Guja erfitt að velja en nefnir stóra trébrettið sem er formað eftir finnskum skógarvötnum (uppr.l. 1937) eða Bölgeblick glerlínu Aino Aalto (1936).
Miðasala á viðburðinn fer fram á heimasíðu RIFF www.riff.is
Skrifa Innlegg