Fyrir nokkrum dögum síðan héldum við vinkonurnar í saumaklúbbnum upp á árlega árshátíð og fékk ég að koma að skipulagi hennar sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Það er alveg nauðsynlegt að lyfta sér upp reglulega og styrkja sambandið við vini sína. Ég er ekki frá því að ég hafi einnig lengt líf mitt um nokkur ár því það var svo mikið hlegið í ferðinni – algjörlega frábær dagur með skemmtilegum vinkonum.
Við erum með hefð fyrir því að ca. tvær úr hópnum skipuleggi allt og komum svo hinum á óvart en þó leggjum við allar jafnt út fyrir deginum. Ég vona að þetta geti komið ykkur að gagni sem eruð að skipuleggja vinkonu/vinaferðir:)
Við byrjuðum daginn á því að hittast fyrir utan Sundhöllina á Selfossi þar sem við áttum bókaðan tíma í Trampolín fitness í World Class. Ég man eftir að hafa séð stelpurnar í RVK fit (snapchat) fara þangað nýlega og það virkaði svo hrikalega skemmtilega að við vildum einnig prófa. Við vorum einar með salinn og borguðum fyrir klukkustund með kennara sem var alveg frábær. Hún blandaði saman æfingum og hópeflisleikjum sem var hressandi að byrja árshátíðina okkar á. Ég mæli endilega með því að prófa!
Eftir það þá keyrðum við í bústaðinn minn þar sem við gistum í eina nótt og elduðum góðan mat og vorum í misgáfulegum leikjum langt fram á nótt. Við erum með smá steiktan húmor og ákváðum að hafa keppni okkar á milli varðandi klæðnað og fékk hver og ein þemalit sem hún átti að klæða sig eftir og voru haldnar kynningar. Sú sem gekk lengst með þemað sitt hlaut svo verðlaun – en einnig voru veitt aukaverðlaun fyrir besta fylgihlutinn í þemalitnum. Ég veit varla afhverju ég er að skrifa þetta hérna haha. En það er alveg nauðsynlegt að taka sig ekki of alvarlega og geta ennþá fíflast þó við séum ekki ennþá 16 ára. Við lögðum okkur allar mikið fram við þemað og það var mikið hlegið og myndirnar sem náðust af mér fá ekki að fara á alnetið – en verðlaunin komu heim með mér;)
Morguninn eftir var síðan vaknað snemma og haldið í bröns í Þrastarlundi sem okkur var boðið á – en þangað hef ég verið á leiðinni síðan að bústaðarævintýrið hófst en þetta er jú hverfisstaðurinn okkar fjölskyldunnar núna. Það sem kom mér svo á óvart að þrátt fyrir að hafa heyrt mjög marga tala um brönsinn þá er staðurinn sjálfur alveg einstaklega fallegur og vel hannaður en það hefur alveg gleymst í allri umræðunni. Stærðarinnar gylltar ljósakrónur og háir leðurbekkir setja sinn svip á staðinn og grófir og töffaralegir leðurstólar eru við borðin. Það voru þau Dóra Björk Magnúsdóttir og Leifur Welding sem hönnuðu staðinn og heppnaðist svona líka vel. Ég get ekki sleppt því að minnast síðan á brönsinn sjálfan sem var virkilega ljúffengur en það besta var líklega þjónninn okkar hann Marek sem dekraði við okkur. Við tókum nokkrar myndir af staðnum og gátum ekki sleppt því að taka klassísku -bloggari í bröns- myndina (haha) sem við skemmtum okkur mikið yfir. Við vorum mættar alveg við opnun sem mér þótti kostur því þá nýtur maður umhverfisins og útsýnisins sem er svo fallegt betur. Ég mæli því hiklaust með Þrastarlundi ef þið eruð á ferðinni og ég mun eiga næsta deit þarna með fjölskyldunni minni en við keyrum þarna framhjá um hverja helgi nánast.
Þessar fjórar sáu svo um að þrífa bústaðinn eftir partýlætin og fáum því að öllum líkindum að kíkja aftur!
Við saumaklúbburinn höfum haldið árshátíð í nokkur ár núna og er alltaf mjög fjölbreytt dagskrá en í fyrsta sinn núna gistum við saman. Ég tek fram að við erum fleiri í hópnum en sést á myndinni – mér yrði þó líklega ekki fyrirgefið ef ég birti myndir af þeim hér á Trendnet sveittum í leikfimifötum eða fullum um kvöldið. Núna krossa ég fingur að næsta árshátíð verði haldin í L.A. þar sem að ein kær vinkona úr hópnum er að flytja þangað.
x Svana
Skrifa Innlegg