Ég er með hugann við barnaafmæli þessa dagana þar sem styttist (alltof hratt) í 2. ára afmæli sonarins. Ég virðist líka vera umkringd hugmyndaríku fólki sem gefa mér innblástur og ein þeirra er hún Auður Guðmundsdóttir sem ég var svo heppin að kynnast smá í gegnum mömmuhóp sem við vorum báðar í. Hún hélt upp á tveggja ára afmæli sonar síns á dögunum og það er ekki annað hægt að segja en VÁ þegar myndirnar frá veislunni eru skoðaðar. Hún er þó alvön að henda upp slíkum veislum og baka kökur og mér heyrðist nú á henni að þessi veisla væri frekar “metnaðarlaus miðað við síðustu ár” en hún á líka einn eldri son. Í mínum augum fær þessi veisla þó fullt hús stiga svo ofsalega fallegt veisluborðið og dýrin sprengja alla krúttskala. Það má svo sannarlega fá hugmyndir frá þessu fallega afmæli.
Þessi súkkulaðikaka er nokkrum númerum of sæt ♡
Segðu okkur aðeins frá veislunni og hvaða þema varstu með? Mér finnst virkilega skemmtilegt að halda veislur og tek mér alltaf góðan tíma í að safna hugmyndum og skipuleggja. Pinterest, Instagram og blogg eru það helsta sem ég skoða í leit af skemmtilegum hugmyndum. Oftast verður þemað til útfrá einhverri hugmynd sem ég sé og byggi svo útfrá henni. Í ár var það afmæliskakan en ég sá köku á Pinterest sem var svo einföld en samt svo falleg. Þar með var ákveðið að hafa dýraþema en strákurinn minn er mikill dýrakall svo að þetta átti vel við. Þemað var í raun dýr-blár-grár og silfur.
Hvernig veitingar varstu með? Veitingarnar voru svona nokkuð hefðbundnar, kökur og heitir réttir. Ég er mjög dugleg við að prufa nýjar uppskriftir í kringum afmælin og er dugleg að vista ef ég rekst á eitthvað sniðugt. Ég var með cupcakes með hvítsúkkulaðikremi skreytt með hvítu Oreo, Herseys og litlum sykurpúðum, súkkulaði cupcakes með súkkulaði rjómaostakremi, kökupinna, Babyruth, marengs, mjúka súkkulaðiköku með hvítsúkkulaðikremi og Herseys eins og cupcakes-ið, rice crispies með bananarjóma, heita rétti með snakki yfir, ostakúlu með papriku, rauðlauk og ristuðum hnetum, twixbita, Oreo sykurpúða, döðlugott með lakkrís, melónu ásamt möffins sem ég setti í ísform og með súkkulaðikremi sem vakti mikla lukku hjá krökkunum.
Hvað finnst þér vera “möst have” á veisluborðinu fyrir krakka? Must have fyrir krakka finnst mér að hafa ávexti en svo er spurning með aldur, mér finnst alltaf gaman að gera eitthvað fyrir eldri krakkana, t.d. þessi ísmuffins og eins hef ég haft nammibar og fleira fyrir þau en fyrir litlu hef ég haft ávexti og svo er það misjafnt í fyrra var t.d. kalt pastasalat sem er þægilegt fyrir þessi yngstu.
Hvaðan eru öll dýrin sem skreyta borðið? Dýrin sem ég notaði á kökuna fékk ég hjá Krumma.is þar er mikið úrval af vönduðum dýrum. Hin dýrin sem ég notaði í skraut voru bara þau sem voru til í dótinu hjá strákunum.
Hvað bauðstu mörgum? Í heildina voru þetta um 40 manns en við skiptum afmælinu alltaf í tvennt, fjölskylda kl.13 og vinir kl.16 þar sem plássið bíður ekki upp á annað.
Sérðu sjálf um allar veitingar? Ég geri yfirleitt langflestar veitingarnar sjálf en plata mömmu stundum í að gera litaðar pönnsur og tengdó bakar alltaf fyrir okkur eina köku sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur, jú mágkona mín kom og aðstoðaði mig líka aðeins.
Og svo tvær myndir hér að neðan frá 1. árs afmælinu í fyrra
Það hefur verið vinsælt að safna Froosh flöskum og hreinsa miðann af eins og Auður hefur gert hér að ofan. Einnig er hægt að búa til merkingar í sama þema og veislan og líma á flöskurnar. Þessa æðislegu poppvél keypti Auður á Barnalandi fyrir nokkrum árum og hefur hún slegið í gegn í veislum!
Ef þið viljið sjá fleiri hugmyndir fyrir barnaafmæli þá eru hér að neðan nokkrar færslur af blogginu sem ég held uppá og tvær þeirra úr veislum hjá góðum vinkonum mínum:)
1. árs afmælið hjá syni mínum, Bjarti Elíasi
Mörgæsa afmæli hjá Rakel Rúnars
Systraafmæli hjá Áslaugu Þorgeirs
Skrifa Innlegg