Hafið þið tekið eftir því hvað Páfuglastóllinn er að koma sterkur inn aftur eftir margra ára hlé? Hann sést núna reglulega á síðum tísku & hönnunartímarita en það hefur farið mjög lítið fyrir stólnum undanfarin ár/áratugi. Tískan gengur sem betur fer í hringi og það á svo sannarlega líka við húsgögn!
Talið er að stóllinn eigi rætur sínar að rekja aftur til 18.aldar og komi upphaflega frá Filippseyjum. Þó er Páfuglastóllinn í raun bara “exótísk” útgáfa af hefðbundnum Tágastól eða fléttuhúsgagni sem er margra alda gömul handverkshefð. Flest okkar tengja þó stólinn við hippatímabilið (enn aðrir við Addams Family þættina) og þeir sem áttu slíkan stól á þeim tíma eru kannski ekki alveg tilbúnir að meðtaka hann alveg strax. -Sem er gott fyrir okkur hin sem viljum komast yfir eintak:)
Einn daginn mun ég eignast einn svona fallegan Páfuglastól og hann mun fá að eiga sinn stað inni í barnaherbergi eða svefnherbergi. Stóllinn ber að sjálfsögðu þetta heiti því það sem einkennir hann er háa skrautlega bakið sem minnir að vissu leyti á stélfjaðrir Páfugls, það breiðir vel úr sér og stóllinn vill helst vera miðpunktur athyglarinnar á heimilinu, sem honum tekst svo sannarlega:)
Gullfallegur og glæsilegur stóll sem á ennþá mikið inni, þó er ekkert mjög auðvelt að komast yfir eintak. Það er helst að þræða vintage búðir og flóamarkaði eða þá að blikka frænku sína sem lumar á einum í geymslunni því henni þykir hann ennþá vera hallærislegur;)
Tískan gengur sem betur fer í hringi, Peacock stóllinn núna… bíðið bara eftir Lava lömpunum. Ég þori að veðja að það sé mjög stutt í að þeir komi “aftur”.
Lumar þú kannski á einum svona fallegum stól inni í geymslu? Ég myndi draga hann fram og leyfa honum að njóta sín. Ég veit allavega að amma mín felur einn svona inni á baðherberginu sínu, og föðursystir mín er með einn úti í garði að grotna niður og á hann lítinn séns. Svona er jú misjafn smekkur okkar:)
Skrifa Innlegg