BYLOVISA – EIN FALLEGASTA SKARTGRIPAVERSLUN LANDSINS

Íslensk hönnunUppáhalds
Ég fór í svo einstaklega skemmtilega heimsókn í -bylovisa- sem er falleg skartgripaverslun í Urriðaholtinu sem fagurkerinn og gullsmíðameistarinn Lovísa Halldórsdóttir Olesen rekur. Lovísa hannar og smíðar alveg ótrúlega fallega skartgripi svo eftir þeim er tekið, og hef ég margoft spurt vinkonur út í skartgripina þeirra sem hafa mjög oft verið frá Lovísu. Það er fátt skemmtilegra að mínu mati en að heimsækja skapandi fólk og fá að skyggnast á bakvið tjöldin og vonandi mun ég gera meira af því. Ég get þó ekki annað en mælt með heimsókn í Urriðaholtið til Lovísu en þar má finna ótrúlega mikið úrval af dásamlega fallegu skarti sem allt er hannað af Lovísu og er úr miklum gæðum, þar stendur Þura einnig vaktina og aðstoðar við valið með stórt bros á vör… og ef þið eruð heppin þá kíkir kisinn hann Gylfi reglulega við og sjarmar viðskiptavini uppúr skónum ♡
Ég fékk aðeins að forvitnast meira um Lovísu og nýju línuna Örk sem var að koma út, lestu lengra –
– Ö R K – tryllt ný handsmíðuð lína

Segðu okkur aðeins frá þér?

Jahá, ég heiti Lovísa, garðbæingur og menntaður gullsmíðameistari.
Ég er fagurkeri, elska að hafa fallegt í kringum mig og get dúllast endalaust í svoleiðis bæði hér heima og í búðinni. Ég opnaði bylovisa búðina í Urriðaholtinu í nóvember í fyrra en var áður heima með verkstæði og verslun, svo bylovisa er ekki eins ný og margir halda, bara meira áberandi og heldur upp á 7 ára afmæli í haust.

Getur þú lýst nýju línunni í fimm orðum?

Örk er kraftmikil, hrá og töff skartgripalína en um leið fínleg og heillandi.

Hvað er það skemmtilegasta við starfið þitt?

Úff það er svo margt – t.d. það að vera svona nálægt kúnnanum, verkstæðið mitt er fyrir aftan búðina og ég er því oft að afgreiða ásamt Þuru sem er mín hægri hönd. Ætli mér finnist samt ekki hönnunarferlið það skemmtilegasta við vinnuna mína – það getur verið ansi langt en alltaf jafn góð og nærandi tilfinning þegar heil ný skartgripalína lifnar við.

 

Hvaðan færðu innblástur?

Minn helsti innblástur er og hefur alltaf verið hversdagurinn. Auðvitað finnst mér gott að kúpla mig úr öllu svona við og við og ég finn það svo vel þegar ég þarf á því að halda og þá þarf hafið að vera nálægt mér.
Svo er það alltaf jafn magnað með haustlægðirnar… þær gefa mér svakalega orku. En hversdagurinn hann nærir mig, núið og litlu augnablikin.

Áttu þér þinn uppáhalds skartgrip sem þú tekur aldrei niður?

Ég á nokkra uppáhalds, númer eitt er giftingahringurinn minn fagri, hann er hlaðinn tilfinningum.  Og svo er það hálsmen frá Ömmu Lovísu – mjög persónulegt og tímalaust.

Hver er þinn helsti kúnnahópur?

Það eru í raun konur á öllum aldri,  mér finnst svo gaman að fá breiðan aldurshóp til mín í búðina.  Ég ætla samt að fara að huga að herralínu fljótlega.

Hvar er hægt að nálgast skartið þitt?

-bylovisa- búðin er í Vinastræti 16 í Urriðaholtinu Garðabæ, einnig erum við með öfluga netverslun bylovisa.is og svo síðast en ekki síst er ég með frábæra sölustaði víða um land – þá má finna á heimasíðunni.

Hvað er svo framundan hjá bylovisa?

Það er aldrei lognmolla hjá -bylovisa-, nýja línan okkar Örk er væntanleg á flesta sölustaði okkar í júní svo framleiðslan er í fullum gangi núna, einnig er ég að leggja lokahönd á mína fyrstu gull skartgripalínu sem ég kynni til leiks í haust. Hún er uppfull af fallegum og litríkum eðalsteinum og demöntum. Annars ætlum við að reyna að njóta sumarsins líka smá og erum að detta í sumaropnun hér í Vinastrætinu.
Takk fyrir spjallið elsku Lovísa,
Nýja línan Örk er ótrúlega falleg handsmíðuð lína þar sem margir skartgripirnir eru skreyttir perlum. Gyllt hálsmenið með perlum er ofarlega á óskalistanum mínum og er eitt það fallegasta sem ég hef séð. Það er erfitt að koma tómhent út úr þessari verslun því get ég lofað ykkur ♡ Fléttulínan er í miklu uppáhaldi, sem eru demantsskorin hálsmen og armbönd, og nældi ég mér m.a. í gullfléttu hálsmen sem er gaman að para við önnur hálsmen líka. Það er skemmtilegt hvað það er orðið vinsælt að bera nokkur hálsmen í einu og því hægt að safna úr mörgum vörulínum og skipta út eftir tilefni, það er líka svo gott að nota skartið sína hversdags og ekki aðeins við fín tilefni.

Þið sem eruð í leit að fallegri gjöf handa vinkonu eða öðrum ættuð að skoða þessa skartgripi, ég tók saman nokkra uppáhalds hér að ofan en sjáðu allt úrvalið með því að smella hér ♡

GEGGJUÐ HEIMSÓKN Í THE DARLING - KONFEKT FYRIR AUGUN

Skrifa Innlegg