Í dag rakst ég á áhugaverða umræðu um blogg og bloggara og kom það mér jafnframt mjög á óvart að búið er að skrifa heilu ritgerðirnar um þetta og jafnvel eina þar sem Trendnet spilar mjög stórt hlutverk í. Ég stóðst ekki mátið og las bæði ritgerðina, sjá hér ásamt öðru áhugaverðu erindi um bloggsíður sem flutt var á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunnar núna nýlega, sem var reyndar einnig töluvert betri úttekt á þessu málefni. Það vakti furðu mína að í hvoru tveggja er ekki leitað álits hjá bloggurum sem ætla mætti að gæfi hvað bestu innsýnina í þetta málefni. Enn og aftur eru allir bloggarar settir undir sama hatt eins og nýlega þegar íslenskir fjölmiðlar gerðu sér mat úr íslenskum bloggum, en þegar kemur að vöruumfjöllunum þá vona ég innilega að lesendur slíkra rannsókna átti sig t.d. á þeirri staðreynd að snyrtivörubloggarar eru alveg sérflokkur útaf fyrir sig og frábrugðnir flestum bloggurum og jafnframt sá hópur sem virkastur er í umfjöllunum. Það er vegna þess að snyrtivöruframleiðendur og dreifingaraðilar gera ráð þeim fyrir vörum sem gefnar eru til kynninga þá bæði til tímarita og bloggara sem er fyrst og fremst ástæða þess að svona mikið sé um umfjallanir hjá snyrtivörubloggurum. Ég get svo sannarlega sagt ykkur að stórfyrirtæki eins og Ikea eða Epal eru ekki að gefa mér mubblur til að prófa í þeirri von að ég skrifi um þær, en vá hvað það hlyti nú að vera næs! Ég ætlaði alls ekki að skrifa neina langloku um þetta þó svo að ég gæti rambað um þetta í heilt kvöld. Flestar þær vörur sem ég hef fengið gefins (sem eru ekki margar á mínum 6 ára bloggferli) hef ég fengið löngu eftir færslur um þar til gerða vöru, þá hafði hönnuðurinn eða viðkomandi verslun tekið eftir það miklum sölukipp að mér hefur verið færð varan í þakklætisskyni fyrir “hjálpina”. Þó svo að færslurnar hafi einfaldega verið skrifaðar útfrá áhuga mínum og ekki í nokkru samstarfi við einn eða neinn. Ég vona að þið sjáið hvert ég er að fara með þetta, en það er alltaf góður ávani að dæma ekki þegar þú veist ekki allar staðreyndir. Við erum jú ólík eins og við erum mörg og það á svo sannarlega líka við bloggflóruna:)
P.s. ég rakst á svo fáránlega hressandi ummæli um bloggið mitt í master-ritgerðinni að ég á til með að deila því með ykkur:)
“…mér finnst oftast með þessa bloggmenningu að þússt það eru allir með þetta sama, hjarðhegðunin. Þússt það eru allir með Iittala, og margir með eitthvað svona svartáhvítu, ég meina ok sorrí ég bara æli ef ég á að sjá enn eitt bloggið af svörtu, gráu og hvítu með vott af við. Og ef þú vilt vera djörf, smá bleikt. Þússt, það er eins og hún sé alltaf að pósta sömu íbúðinni, það er bara sami stíllinn, það er enginn fjölbreytileiki…”
Ahhhh það sem ég elska svona skvettu af hreinskilni, point taken!…
Hér er ein sérvalin fyrir færsluna, svart, grátt, hvítt og viður… með smá bleiku til að vera djörf. Það er ekki að ástæðulausu að ég heillist af slíku:)
Skrifa Innlegg