Vinkona mín og snillingurinn hún Bergrún Íris gaf út á dögunum ásamt Ragnheiði Gröndal bókina Næturdýrin sem við Bjartur erum núna búin að lesa nánast öll kvöld síðan þá (og stundum hlusta líka á geisladiskinn). Bjartur Elías á að ég held allar barnabækurnar sem Bergrún Íris hefur gert, þær höfum við keypt fyrir okkur að eiga, gefið í gjafir og svo síðast en ekki síst verið svo heppin að fá líka í gjöf frá Beggu.
Núna viðurkenni ég fúslega að mér þykja margar barnabækur (oftast þýddar) ekki uppfylla mínar væntingar og stend ég mig stundum að því að byrja að bulla texta þegar ég les á kvöldin fyrir son minn bækur sem við fáum t.d. á bókasafninu, þar sem mín útgáfa er stundum bara miklu miklu betri. – Sem betur fer sjaldan. Barnabækur eru nefnilega eitthvað sem við viljum öll að séu vandaðar og við foreldrar eigum líka að gera kröfur.
Ég hreinlega elska bækurnar hennar Beggu. Þær eru fallega skrifaðar, skemmtilegar, ljúfar, frumlegar, oft fræðandi og síðast en ekki síst eru myndskreytingarnar hennar ævintýralega fallegar. Begga er vissulega vinkona okkar, en ég segi það satt – þetta eru frábærar bækur fyrir lítil kríli með góðum boðskap sem ég gæti ekki mælt nógu mikið með.
Smá um bókina góðu – Næturdýrin:
Systkinin Lúna og Nói vita fátt skemmtilegra en að leika sér saman – líka á nóttunni! Foreldrarnir þurfa hins vegar sinn nætursvefn og örmagna af þreytu leita þau til prófessors Dagbjarts. Með hjálp prófessorsins uppgötva systkinin hið stórskemmtilega draumaland þar sem þau geta hoppað og skoppað í skýjaborgum en samt vaknað úthvíld.
Í þessarri gullfallegu barnabók sameinast kraftar tveggja einstakra listakvenna. Báðar búa þær Ragnheiður Gröndal og Bergrún Íris yfir einstakri næmni sem endurspeglast í töfrandi tónum, heillandi teikningum og ljúfri sögu. Saman eru bókin og geisladiskurinn sannkölluð perla og ómetanlegt framlag inn í íslenska barnamenningu.
Við erum reyndar ekki byrjuð að lesa Elstur í bekknum og Elstur í Leynifélaginu, þær koma seinna;) En við elskum hinar og höfum lesið þær ótalmörgum sinnum. Hér eru svo nokkrar myndir úr útgáfuhófinu sem við Bjartur kíktum í um daginn sem haldið var í fallegu versluninni Bíum bíum:)
Myndirnar úr partýinu tók Sandra Karen
Takk Begga fyrir partýið – fyrir bækurnar og að vera svona skemmtileg!
// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg