Gustaf Westman er sænskur hönnuður á hraðri uppleið á stjörnuhimininn en hönnun hans hefur vakið ótrúlega athygli á undanförnu ári – og þar má sérstaklega þakka samfélagsmiðlum fyrir. Spegillinn hans Curvy er alveg einstakur og hefur verið eftirsóttur í myndatökum hjá tískuskvísum á Instagram enda sérlega myndvænn í pastellitunum sínum, með bogadregnar línur og með smá 90’s fíling. Gustaf kom af stað trendi sem sér ekki fyrir endann á, bogadregnu 90’s Ikea Krabb speglarnir mjóu sem margir muna eftir síðan á unglingsárunum sínum eru jafnvel í kjölfarið orðnir hrikalega eftirsóttir en ég vil meina að það tengist fallega Curvy speglinum. Núna var verið að veita hönnunarverðlaun Elle Decoration og hlaut Curvy verðlaun sem “augnakonfekt ársins” – bravó! Vel verðskuldað!
Takið eftir frauðborðinu á myndinni sem er einnig hönnun Gustafs, en hann kom þar af stað risa tískubylgju þar sem áhugasamir um hönnun hans gerðu sínar eigin útgáfur ‘DIY’ af frauðklæddum speglum og borðum sem vekur í dag mikla athygli á Instagram. Sjá betur hér að neðan –
Myndir : Gustaf Westman
Fyrir okkur hönnunarnörda þá er Ultrafragola spegillinn frá 1970 eftir Ettore Sottsass sá sem trónir þó hærra en Curvy enda algjör gullmoli hönnunarsögunnar. Með baklýsingu og því ekki furða að hann sé einnig einn eftirsóttasti spegillinn í dag en aðeins á færi þeirra frægu og ríku. – Smá skemmtilegur útúrdúr en það er gaman að para þessa tvo saman!
Skrifa Innlegg