Ég tók saman nokkra viðburði sem standa uppúr árinu mínu þegar ég lít til baka. Ég vil þó taka fram að þetta er mögulega bara áhugavert fyrir vini og fjölskyldu. Færslan er svo skreytt símamyndum í mjög lélegum gæðum, þið afsakið það! Það er mjög gott ár að baki sem ég er þakklát fyrir, ég kynntist ótalmörgu góðu fólki (og eignaðist fullt af fallegum hlutum) það sem stendur þó uppúr er fjölskyldan og vinirnir, væmið en þó satt:)
////////////////
Í janúar fagnaði ég 10 ára sambandsafmæli með Andrési mínum ♡
Stuttu eftir það var mér boðið til Frankfurt á hönnunarsýningu. Ég er orðin mjög spennt að fara aftur eftir nokkrar vikur, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, að vafra um sýningar og skoða nýja hönnun.
Í apríl bauð uppáhalds ólétta systir mín mér til Boston þar sem við versluðum allt sem þurfti fyrir komu erfingjans, borðuðum góðan mat og skoðuðum borgina sem er núna ein mín uppáhalds.
Í apríl tók ég svo þátt í minni fyrstu listasýningu í Gerðubergi og sýndi útskriftarverkefni mitt frá Lhí.
Hönnunarmars var tekinn með trompi þetta árið og kynntist ég á sama tíma ofurbloggaranum Emmu Fexeus og áttum við góðan tíma saman, besti Hönnunarmars so far.
Í sumar byrjaði ég í þjálfun hjá Lindu Jóns í World Class Það er búið að vera eitt það skemmtilegasta en á sama tíma eitt það erfiðasta við árið. Hún er erfið, ég er erfið og æfingarnar eru erfiðar. Þó hafa um 12 kg farið, (þangað til “eftirjól” mælingin er hoho). Eftir að ég kynntist Lindu fór allt í gang í hausnum á mér, ég þurfti virkilega að endurhugsa svo margt við sjálfa mig og læra mikið upp á nýtt. Ég hef margoft byrjað í hinum ýmsu átökum í gegnum árin og prófað flest allt en það hefur enginn náð til mín eins og Linda gerir. Það hefur kannski eitthvað að segja að ég er á sama aldri og krakkarnir hennar, hún gæti s.s. verið mamma mín, bara grimmari útgáfan af henni;) Svo skemmdi ekki fyrir að vera með aðgang í Baðstofuna sem er ein besta leiðin til að fá sig til að mæta í ræktina, það þarf nefnilega alltaf að verðlauna sig!
Í maí var haldið á Beyoncé tónleika í London með bestu vinkonunum, það er ein skemmtilegasta utanlandsferð sem ég hef farið í, án efa einn af hápunktum ársins. Það toppar jú enginn Queen B og stelpuslúður. Ferðin endaði í Leicester ásamt köllunum okkar þar sem við tróðum okkur í litlu íbúðina hennar Rakelar. Mjög góðar minningar.
Einn af mínum draumum rættist í sumar þegar við eignuðumst kisuna okkar hann Betúel (stórir draumar haha!).
Í lok júlímánuðs átti systir mín sitt fyrsta og langþráða barn, hann Svein Rúnar sem hefur brætt mig upp til agna frá fyrsta degi.
(Mynd af snappchattinu mínu) :)
Sumarfríinu var eytt í tjaldútilegur, sumarbústað í Skorradal með góðum vinum og á fegursta stað Íslands, Vestfjörðum.
Ég og Andrés fluttum enn eina ferðina, í þetta skiptið stoppum við þó vonandi í lengri tíma þó að íbúðin sé sú minnsta hingað til:) Þröngt mega sáttir búa.
Árshátíð saumaklúbbsins stendur alltaf uppúr, eintómir snillingar þar á ferð:)
Okkur Andrési var svo boðið í glæsilegasta brúðkaup sem við höfum farið í hjá Svövu frænku og Skúla, yndislegur dagur og kvöld sem seint verður toppað:)
Ég fór svo til Eindhoven og Amsterdam í október á hönnunarsýningu og samgladdist góðum vinum sem voru að útskrifast. Ljúfsár ferð þar sem að ég kvaddi marga góða vini sem ég sé fæsta aftur, en sem betur fer var mikið skálað!
Ég sagði svo upp í vinnunni minni í lok árs og er þessa stundina atvinnulaus en sátt, það er jú það eina sem skiptir máli.
Það er svo ótalmargt sem ég hlakka til að deila með ykkur á næsta ári, ég finn nefnilega á mér að þetta verði besta árið mitt hingað til. Ég þakka kærlega fyrir lesturinn á árinu sem er að líða, eigið gott kvöld.
Áramótakveðjur, Svana
Skrifa Innlegg