fbpx

6 TIPS HVERNIG Á AÐ FÁ SEM MEST ÚR FATASKÁPNUM

Ráð fyrir heimilið

Hvenær hreinsaðir þú síðast úr fataskápnum þínum? Vel skipulagður og snyrtilegur fataskápur getur sannarlega gefið okkur hugarró en þrátt fyrir það höldum við í alltof margar flíkur sem aldrei eru notaðar. Ég er mjög sek um það og fyrir nokkrum dögum síðan þá flæddi úr skápunum mínum er þeir voru opnaðir. Það er nauðsynlegt að taka góða skápahreinsun og byrjun nýs árs er tilvalinn tími!

1. 

Sjáðu nú hvað leynist aftast í skápnum og tæmdu út allar flíkur en flokkaðu í nokkra bunka; buxur, peysur, bolir, kjólar o.s.frv. Hversu vel passar flíkin og hvenær var hún síðust notuð? Fækkaðu um nokkrar flíkur í hverjum bunka og núna gætir þú þurft að taka erfiðar ákvarðanir! Ef flíkin hefur ekki verið notuð í yfir 2 ár þá eru litlar líkur á því að það muni gerast núna. Við skulum þó leyfa uppáhalds sparifötunum að njóta vafans þar sem óvenju lítið hefur verið um veisluhöld nýverið;)

2.

Bókaðu þér bás í t.d. Extraloppunni og fáðu nokkrar auka krónur fyrir vel með farnar flíkur, einnig er gott að gefa vel farnar flíkur til hjálparsamtaka svosem Konukot, Fjölskylduhjálpar eða setja í fatagáma Hjálpræðishersins (hjá Krónunni t.d.). Slitin föt eða ónýt skaltu einnig setja í fatapoka og í merkta gáma í Sorpu þar sem slitin klæði eru einnig endurnýtt og endurunnin af Rauða Krossinum, en ekki henda pokanum í almennt rusl.

3. 

Þegar þú hefur ákveðið hverju skal halda þá er kominn tími til að fríska við þær flíkur sem þurfa. Sumar flíkur eru farnar að hnökra, en það þýðir ekki að þær séu búnar að vera. Heldur þarf einungis að fjarlægja hnökrana með t.d. hnökravél. Lagfærðu einnig göt og rifur ef þarf eða farðu með flíkina á saumastofu ef þú kannt ekki sjálf/ur til verka. Elínborg í Hafnarfirði er t.d. dásamleg. Fjárfestu í margnota fatabursta í stað þess að nota límrúllur sem eru óumhverfisvænni, og burstaðu fötin þín til að halda þeim fallegum. Steamery vörumerkið (Epal) er með vandaðan fatabursta sem ég mæli með en hann fjarlægir ló, hár og ryk af öllum efnum. 

4. 

Láttu fötin þín anda! Þegar fötin hafa hangið mánuðum saman í fataskápnum geta þau orðið smá krumpuð og þá er oft okkar fyrsta hugsun að skella þeim í þvottavélina, sem hinsvegar fer verr með fatnaðinn og því er frekar mælt með að gufa fötin til að láta þau endast betur og lengur. Sjá færslu hjá Andreu um Steamery gufurnar; látum fötin okkar endast. Ég á mjög fallegt bleikt ferðagufutæki frá Steamery sem ég keypti mér einmitt í Epal og er að venja mig á að nota oftar.

5. 

Endurraðaðu fataskápnum. Þegar öll fötin eru orðin fersk og búið er að taka saman þær flíkur sem þú vilt nota, fara þér vel og veita ánægju er kominn tími til raða í skápinn uppá nýtt. Leyfðu þér að falla aftur fyrir gömlum flíkum og finndu nýjar leiðir til að klæðast þeim upp á nýtt. Það gæti verið góð hugmynd að fá vinkonu til að gefa hugmyndir hvaða flíkum hún myndi para saman úr þínum skáp? Bættu við sniðugum skipulagslausnum, kössum eða fjölnota fatahengjum (nokkrar flíkur á sama hengið) sem gefa þér betra aðgengi að skápnum þínum. Ef þú ert með stóran fataskáp getur verið gaman að leyfa fallegum hlutum að njóta sín og taka á móti þér þegar skápurinn er opnaður. Falleg veski, litríkur kimono eða skópar stillt upp eða jafnvel lúxus poki úr þessari verslunarferð sem lifir enn í minningunni.

Enn mikilvægara er að raða vandlega í skápa sem eru opnir og þá mega fallegir hlutir fá að njóta sín enn betur og veita þér í leiðinni gleði.

6. 

Nýttu núna tækifærið með vel skipulagðan fataskáp og góða yfirsýn yfir það sem þú átt til. Sagt er að við notum aðeins 20% af þeim fötum sem hanga í fataskápnum okkar sem er sorgleg staðreynd og eitthvað til að taka sér til umhugsunar. Hugsaðu þér hvernig þú getur byggt upp tímalausan fataskáp, sem samanstendur af vandlega samettum litum, efnum og stíl sem fellur að þínum persónulega smekk. Ef þú getur, reyndu að velja flíkur sem þú sérð fyrir þér að nota í mörg ár og þú munt einnig spara pening með því að versla sjaldnar flíkur úr ódýrum efnum sem endast stutt. 

Það getur verið góð hugmynd til að fylgjast með því sem þú notar úr skápnum að snúa öllum herðatrjám í sömu átt – og þegar flíkin hefur verið notuð er herðatrénu snúið við og þegar nokkrar vikur / mánuðir eru liðnir sérð þú vel hvaða flíkur þú hefur ekki snert og þá er tilvalið að gefa henni nýtt líf. Eða hreinlega klæðast henni!

Texti innblásinn af hluta til úr grein frá Steamery. Ekki er um samstarf að ræða heldur aðeins vörumerki sem heillar mig og ég hef notað lengi. 

Njóttu þess núna að vera með vel skipulagðan fataskáp sem er laus við allan óþarfa ♡

Instagram @svana.svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI : BRATTAKINN

Skrifa Innlegg