fbpx

DRAUMA SAUMÓ & UPPSKRIFTIR

iittalaMatur & baksturPersónulegtSamstarf

Síðustu dagar hafa verið þéttbókaðir af skemmtilegum viðburðum og broshrukkunum hefur aldeilis fjölgað. Í síðustu viku var ein vinkonan gæsuð, ég hélt gúrmet matarboð fyrir mínar uppáhalds og síðan var brúðkaupspartý um helgina sem toppaði öll partý sem ég hef áður farið í. Svo á ég nú aldeilis eftir að skella í færslu um Santorini ævintýrið mikla, en ég ætla að byrja á að birta myndir frá matarboðinu en ég fékk ófáar fyrirspurnir um uppskriftir eftir að hafa birt nokkrar myndir á Snapchat. Ég bauð upp á Santorini salat, kjúklingarétt með döðlum og fleiru og heimabakað brauð sem ég mæli með að prófa.

Ég viðurkenni að mér þykir skemmtilegra að leggja á borð en elda. Ég gat loksins notað rósagylltu iittala skálarnar í boðinu sem ég hafði verið svo spennt að eignast og hafði í þeim Santorini salat. Diskamotturnar bleiku eru frá Södahl (fást í Bast), hnífapörin voru keypt í Fjarðarkaup, og svörtu matardiskarnir eru mjög svo langþráðir Bitz (fást í Snúrunni, Bast og Dúka).

Brauðið er kannski ekki fallegt en þetta er í alvörunni allra besta og einfaldasta brauð sem hægt er að baka! – Þið verðið að prófa!

LÚXUSBRAUÐ MEÐ FETAOST & SÓLÞURRKUÐUM TÓMÖTUM

600 gr. hveiti

1 bréf af þurrgeri

2 tsk. salt

500 ml. volgt vatn

– Öllu hrært saman , ekki hnoða því deigið á að vera blautt. Best er að hræra deigið kvöldið áður og passa að hafa skálina dálítið rúma. Setja skálina svo í ískáp í a.m.k. 8 klst.

Þegar deigið hefur hefast er það sett á bökunarpappír og rúmlega hálfri krukku af fetaosti bætt við ásamt u.þ.b. 5 sneiðum af sólþurrkuðum tómötum (best að kaupa þá sem eru niðursneiddir). Fetaosturinn og tómatarnir eiga að fara inn í deigið og þarf því að loka deiginu utan um. Gott að setja einnig feta ofan á deigið, og að lokum er olíunni af fetaostinum hellt yfir. Á þessu stigi lítur þetta mjög illa út en þá ertu líklega að gera þetta rétt. Settu svo vel af Maldon salti og smá af Gara Masala kryddi.

Bakað við 180″ í rúmar 45 mín. 

 

SANTORINI SALAT

Eng­in hlut­föll held­ur eft­ir smekk:)

Paprika
Tóm­at­ar
Ag­úrka
Rauðlauk­ur
Fetakubb­ur
Or­egano
Ólívu­olía eða jafn­vel góð hvít­lauk­sol­ía

Allt skorið í bita og blandað sam­an og ol­í­unni skvett yfir.

KJÚKLINGARÉTTUR BIRNU ANTONS

(Upp­skrift­in kem­ur upp­haf­lega frá Val­gerði Grétu Guðmunds­dótt­ur í Eld­hús­inu henn­ar Völlu)

1 kjúk­ling­ur eða bring­ur (eldaðar) skorn­ar í strimla (um 600 g)
150 g spínat
100 g bei­kon í bit­um
70 g döðlur smátt skorn­ar
4 hvít­lauksrif
1 msk. Or­egano
3 dl vatn
2 dl mat­reiðslur­jómi
3 msk. rjóma­ost­ur
1 kjúk­linga­ten­ing­ur
1 græn­metisten­ing­ur
Rif­inn ost­ur eft­ir smekk

Bei­kon og hvít­lauk­ur steikt á pönnu (ég sleppi bei­kon­inu), síðan er döðlum, vatni, ten­ing­um og kryddi bætt við og látið malla.

Spínat sett í eld­fast mót, kjúk­ling­ur sem búið er að elda fer ofan á. Rjómi + rjóma­ost­ur brætt sam­an og blandað við pönn­una. Öllu hellt yfir kjúk­ling­inn og að lok­um er ost­ur sett­ur yfir og bakað í ofni á 180 gráðum í 20 mín­út­ur.

Og svo fengu bökunarhæfileikar mínir að njóta sín með einni beint úr kælinum úr búðinni haha, sænsk kladdkaka eins og þær gerast bestar. iittala þemað á mínu heimili er ekkert nýtt, þessu hef ég verið að safna jafnt og þétt síðan ég var unglingur ♡

Santorini salatið erum við stelpurnar með á heilanum eftir stelpuferðina okkar. Ég var líka með þetta brauð í þrítugsafmælinu mínu en þá með allskyns ostum, hráskinku og öðru gúrmi og það sló alveg í gegn, ég var þó sjálf að baka það í fyrsta skipti núna og kom mér á óvart hversu hrikalega auðvelt það er, alveg fullkomið.

Látið mig endilega vita ef þið prófið!

VILTU VINNA GLÆSILEGAN IITTALA LEIMU LAMPA ?

Skrifa Innlegg